10. júlí 2009

August Strindberg og garðræktin

Rithöfundurinn August Strindberg (1849-1912) var eirðarlaus maður, sífellt á ferð og flugi og átti heimili á óteljandi stöðum. Flestir þekkja vísast Strindberg aðeins af ritstörfunum, en hann var líka mikill áhugmaður um garðrækt og hvar sem hann dvaldi reyndi hann alltaf að koma sér upp skika sem hann gat ræktað. Væri garðskiki ekki tiltækur var notast við blómapotta. Catharina Söderbergh hefur skrifað tvær bækur um Strindberg og hvorug þeirra er tileinkuð ritverkum hans. Fyrri bókin fjallar um áhuga rithöfundarins á mat og kallast bókin Till bords med Strindberg (1998) en sú síðari heitir Strindberg som trädgårdsmästare (2000) og eins og nafnið gefur til kynna er garðræktaráhugi hans til umfjöllunar þar.

Strindberg var sífellt ræktandi. Hann hlúði svo vel að plöntunum sínum að eftir að útgefandi hans, Karl Otto Bonnier, heimsótti hann árið 1883 skrifaði Bonnier:
Til að byrja með sýndi Strindberg mér garðræktina sína, aðallega þó ætiþistlana, sem ég fékk að njóta nokkrum tímum siðar. Hið allra fínasta var þó melónureitur, sem hann hafði komið sér upp við húsvegginn, þar sem sólin bakaði hann vel. Hann hafði meiri áhyggjur af melónunum sínum en ljóðabókunum sínum.

Í bók sinni Blomstermålningar segir Strindberg frá því hvernig hann í lok vetrar sáir fræjum í litla potta heima hjá sér í Stokkhólmi. Hann nefnir blómkál og salat, melónur og gúrkur og ýmis sumarblóm. Í maí voru síðan smáplönturnar fluttar út í litla eyju í Skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm, þar sem Strindberg hafði á leigu sumarhús í sjö sumur á árunum milli 1880 og 1890. Þá var hann giftur Siri Von Essen og þau áttu saman þrjú börn. Eyjan sem um ræðir heitir Kymendö og Strindberg fannst hann vera kominn til Paradísar þegar hann kom þangað í fysta skipti. Á eyjunni búa nú um fimmtán manns, en þangað sótti Strindberg sér innblástur í bók sína Hemsöborna og notaði lífið og fólkið á eyjunni sem fyrirmyndir. Strindberg sá ekki eintóma fegurð í mannlífinu á eyjunni og eyjabúar voru víst margir hverjir ekki par hrifnir af samsetningunni og hvernig þeim var lýst. Á þessari fallegu skerjagarðseyju er hægt að ganga á engjum og í skógum og þar er ennþá til sýnis kofinn sem Strindberg notaði til skrifta. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan er kofinn ekki stærri en útikamar en útsýnið til hafs bætir víst fullkomlega upp smæðina.

Þegar búið var að ferja plöntur Strindbergs til eyjarinnar, hófst langt ræktunartímabil. Komið var upp vermireitum og því hefur verið lýst að rithöfundurinn mikli hafi spígsporað um úti í náttúrunni á föðurlandinu einu klæða og pissað í vökvunarkönnuna til að fá gott áburðarvatn. Þennan áburð kallaði Strindberg púrín. Með púríninu vökvaði hann moldina áður en radísum, steinselju og spínati var sáð.

Gúrkurnar voru stolt og uppáhald Strindbergs. Úr litlum reit með 6 gúrkuplöntum, uppskar hann gúrkur frá júlímánuði og langt fram á haust svo dugði til matar handa öllu heimilisfólkinu og vinnuhjúunum og hann átti meira að segja afgang til að salta niður fyrir veturinn. Þrátt fyrir að eyjan sé vindasöm og oft blási þar að norðan tókst karlinum að rækta melónur, ætiþistla og spergil og á suðurvegg sumarhússins hafði hann vínviðarplöntu bundna við stoðir. Þetta sýndi hann forleggjaranum Karli Otto Bonnier með miklu stolti. Eftir að bókin um Hemsöbúana kom út átti höfundurinn illa afturkvæmt til eyjarinnar og var litinn þar hornauga. Um árabil bjó hann í ýmsum löndum í Evrópu og smám saman fór hjónaband hans og Siriar að trosna. Þá komu þau til baka til Svíþjóðar og leigðu sér sér sitthvort húsið á annarri skerjagarðseyju. Sú heitir Runmarö og þar hélt karlinn hélt áfram að rækta. Á Runmarö er ennþá hægt að fá sér kaffibolla undir háum sírenum sem August Strindberg gróðursetti.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir þetta áhugaverða og bráðskemmtilega blogg.

Guðrún, dyggur lesandi.

Nafnlaus sagði...

Alveg dásamlegur pistill í sólskininu! Takk fyrir! :)