Mér er sagt að ekki sé hægt að kaupa disk með tónlistarflutningi sænsku söngkonunnar Monicu Zetterlund í Reykjavík. Hins vegar er hægt að fá lánaða nýlega ævisögu hennar á bókasafni Norræna hússins og það hvet ég þá sem halda upp á Monicu til að gera (ég lofa að skila eintakinu um leið og safnið opnar á morgun).
Monica Zetterlund dó 67 ára gömul árið 2005 þegar kviknaði í íbúðinni hennar í Stokkhólmi. Frá því fyrir 1960 hafði hún verið ein af vinsælustu söngkonum Norðurlanda og þekkt langt út fyrir þau enda hafði hún unnið með mörgum af þekktustu djassistum heims; Stan Getz, Arne Domnérus, Bill Evans svo einhverjir séu nefndir. Í Svíþjóð söng hún og lék í kabarettsýningum, bíómyndum og sjónvarpsþáttum, meðal annars varð hún fræg sem sóknarhóran Ulrika í þáttunum um Vesturfarana, sem gerðir voru eftir verki Vilhelms Mobergs.
Í þessari fyrstu alvöru ævisögu Monicu, Enkel, vacker, öm (upphafsorð texta lagsins Monicas vals eftir Beppe Wolgers), eftir blaðamanninn Klas Gustafson er farið yfir ævi Monicu frá æskuárum hennar í Hagfors í Värmlandi og allt til dauða. Monica var það sem í Svíþjóð er kallað folkkär, þ.e. í meira lagi vinsæl. Hún var kornung einstæð móðir þegar hún söng sig inn í hjörtu fjölmargra Svía, sló í gegn í Danmörku og söng með frægum djassistum í New York.
Monica var margbrotin og mótsagnakennd manneskja. Hún átti í stöðugri baráttu við lélegt sjálfstraust, lifði á köflum hressilegu bóhemlífi, skipti um eiginmenn og sambýlinga oftar en tölu verður á komið og leyfði allskonar fólki að búa hjá sér og dóttur sinni í lengri eða skemmri tíma. Höfundurinn klippir saman búta úr viðtölum við Monicu sjálfa, vini hennar og dótturina Evu-Lenu, sem átti oft ekki sjö dagana sæla hjá móður sem ýmist var fjarverandi, full eða með heimilið fullt af gestum og endaði síðan sem einmana kona í hjólastól, sem fór sjaldan úr húsi. Út úr þessu klippiríi kemur ágætisbók, kannski dálítið sundurlaus á köflum en hún rennur annars vel og er svo áhugaverð að ég las síðurnar 350 nokkurnvegin í einum rykk.
Þórdís Gísladóttir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli