Nora Ephron (fædd er 1941) er bandarískur handritshöfundur, leikstjóri, kvikmyndaframleiðandi, rithöfundur, blaðamaður og bloggari á Huffington Post. Flestir kannast líklega við hana vegna rómantísku vasaklútakómedíanna sem enda allar rosa vel; When Harry met Sally, Sleepless in Seattle, You´we got Mail, Heartburn og margar fleiri en hún hefur komið að einhverjum hellingi af þekktum myndum, nú síðast Julie & Julia. Nora er líka þekkt fyrir að hafa, á sínum tíma, verið gift blaðamanninum Carl Bernstein sem er karlinn sem fletti ásamt félaga sínum ofan af Watergate-hneykslinu á áttunda áratugnum.
Um daginn keypti ég bókina I feel bad about my neck and other thoughts on being a woman eftir Noru Ephron, sem ég rakst á í útsölubókahrúgu í Eymó. Þetta metsölugreinasafn (útgefið 2006) er í raun óttalega ómerkilegt. Bókin vakti mig þó til umhugsunar (um hluti sem ég er svosem alltaf að hugsa um) og hún er alls ekki leiðinleg. Ég las allavega hverja einustu grein – þrátt fyrir allt er áhugavert að kynnast hugsun og hegðun kvenna sem eru helteknar af útliti og til í að láta kapítalista hirða stjarnfræðilegar upphæðir af sér í þeirri trú að þær líti fyrir vikið út fyrir að vera yngri og sætari.
Nora Ephron hefur áhyggjur af öldrun sinni. Fyrstu kaflar bókarinnar eru dæmigerðar greinar sem hægt er að lesa í öllum glansblöðum fyrir miðaldra konur en allt er líklega ýktara hjá fokríkum ameríkukerlum sem eyða hálfri vikunni á hárgreiðslustofum, í naglasnyrtingu, sálgreiningu, ræktinni eða að kaupa brjálæðislega dýr krem og einhverjar óhemjudýrar merkjahandtöskur. Nora gerir grín að töskublætinu (og eyðir sjálf ekki stórum upphæðum í töskur eins og sumar vinkonur hennar) en hún viðurkennir að hafa prófað allskonar bótox og kollagen og tannhvíttun og hvað þetta heitir allt og svo felur hún hálsinn, sem er víst sá líkamshluti sem eldist verst og erfiðast er að yngja með aðgerðum, og því gengur hún gjarna í rúllukragapeysu. Nora Ephron býr á Upper East Side í New York sem er stundum kallað Botoxlandia og hún fer á veitingastaði á borð við Le Cirque þar sem gestir eru alls ekki þekktir fyrir að vera blankir eða eldast virðulega og náttúrulega.
Nora Ephron er oft ansi fyndin og einhverjum finnst hún örugglega mæta öldrun sinni með húmorinn að vopni. Vissulega veður uppi alveg fáránleg aldurshyggja (má ekki nota það orð fyrir ageism?) í fjölmiðlum og annarsstaðar, en Nora ræðir það ekki sérstaklega, hún heldur bara áfram að reyna að fela hrukkur og láta blása á sér hárið (hún kann það ekki sjálf). Ég næ engu sambandi við svona gríðarlega útlitsfixeringu, hef aldrei farið í handsnyrtingu eða hárblástur og handtöskumetnaður minn er enginn, enda geng ég um bæinn með troðinn Fjällräven-poka á bakinu og er sjálfsagt í augum töskumeðvitaðra eins og lítill sjerpi. Það er samt best að taka það fram að greinarnar eru ekki bara um útlit heldur fjallar Nora til dæmis líka um Bill Clinton, sem olli henni vonbrigðum, og JFK sem reyndi aldrei við hana þegar hún var í starfsþjálfun í Hvíta húsinu (hún veltir fyrir sér hvers vegna). Einna skemmtilegust er umfjöllun um barnauppeldi þar sem rætt er hvenær foreldrahlutverkið varð jafn ótrúlega yfirþyrmandi og það virðist vera núna og foreldrar jafn brjálæðislega fókuseraðir á afkvæmin.
En sem sagt; þessi bestseller hennar Noru Ephron er í raun verulega slappur þó ekki sé hann alslæmur. Við lesturinn datt mér í hug hvort konurnar sem hafa sjálfsmynd sína og sjálfstraust úr fötum og útliti ættu ekki að íhuga að hætta handtöskupælingum, hárblæstri og naglasnyrtingum. Gera ekki blásið hár, merkjatöskur og áberandi snyrtar neglur konur bara kerlingarlegar?
Þórdís
2 ummæli:
Aldurshyggja er flott þýðing á þessum komplex.
Svarið við spurningunni (í síðustu línunni) er já. Og aldurshyggja er flott orð.
Skrifa ummæli