Ég hef ítrekað orðið fyrir vonbrigðum með glæpasögur Yrsu Sigurðardóttur. Þótt grunnurinn hafi gjarnan verið efnilegur, söguefni t.d. álitlegt, sögusviðið áhugavert og aðalpersónan Þóra frekar skemmtileg, hefur úrvinnslan hvað eftir annað verið ófullnægjandi. Stundum hafa verið svakalegar gloppur í frásögninni, stundum hafa veigamiklar persónur hegðað sér óbærilega fram úr hófi heimskulega, lausnin á Auðninni, ef lausn skyldi kalla, var agalegt guð-úr-vélinni-drasl og svona gæti ég haldið áfram um stund.
Það kom því skemmtilega á óvart að nýjasta bókin, Horfðu á mig sem er fimmta glæpasaga Yrsu, er allvel heppnuð og laus við verulega pirrandi parta – nema minniháttar endurtekið atriði frá fyrri bókum en kveinstafirnir yfir því eru neðanmáls.*
Þar sem ég hef takmarkaðan áhuga á draugasögum leist mér ekkert yfirmáta vel á upphafið þar sem svo virðist sem barnapía gangi aftur, jafnvel þótt kaflinn sé vel skrifaður og hrollvekjandi, en ég tók hann í sátt enda er unnið mjög vel úr málinu og þráðurinn vel til lykta leiddur en jafnframt skilinn eftir skemmtilega opinn.
Plottið er það besta við bókina: sagan er heilsteypt og þræðirnir fléttast vel saman, en persónurnar og söguefnin líka spennandi. Vonandi veit þetta á gott um framhaldið.
Erna
-------------------------------------
* Allt frá fyrstu bók hef ég furðað mig á því að Þjóðverjinn sem Þóra er í tygjum við skuli heita Matthew. Við lesturinn á hverri einustu bók hef ég beðið eftir skýringu á þessari ó-þýsku nafngift og t.d. séð fyrir mér þann möguleika að einhver sögupersónan furðaði sig á henni og þá kæmi í ljós að maðurinn ætti enska móður, svo einfalt dæmi um mögulega lausn sé nefnt. Það hefur ekki gerst þannig að ég hef ekki farið ofan af þeirri skoðun að þetta sé leiðindaklúður sem sé til marks um þann hugsunarhátt að samasemmerki sé milli útlensku og ensku. Það kom ekki á óvart að uppgötva að málunum var bjargað í þýsku þýðingunum, þar er maðurinn víst látinn heita Mathias.
5 ummæli:
Ég reyndi við Auðnina en hún höfðaði ekki til mín. Þessi er greinilega betri og hún er örugglega líka gríðarlega miklu betri en Póstkortamorðin eftir Lizu Marklund og James Patterson sem ég var að ljúka við.
Heldurðu það Þórdís? Ég hélt þessi mesti metsöluhöfundur samtímans (Patterson) hefði algjörlega slegið í gegn, enda fékk hann með sér afar hæfa snót (Marklund).
(Ég er að deyja úr pirringi yfir orðalaginu hér: http://www.forlagid.is/?p=329960)
Ég ætla bráðum að skrifa nokkrar línur um Póstkortamorðin - sá sem bjargar því sem bjargast í henni er Guðni Kolbeinsson.
Bíð spennt eftir pistli um Póstkortamorðin sem mér heyrist að muni staðfesta fordóma mína um bókina!
Æ, höfundur Sjortarans, hef lesið hana, óttalega ómerkileg og klisjukennd saga.
Skrifa ummæli