Glæpir eftir Ferdinand von Schirach hefði sennilega ekki vakið sérstakan áhuga minn ef ég hefði rekist á bókina úti í búð. Í káputextanum er innihaldið kynnt sem sannar sögur úr starfi „stjörnulögfræðings“. Síðastnefnda orðið virkar fráhrindandi á mig og þetta með sönnu sögurnar vakti upp hugrenningatengsl við dálkinn „sönn sakamál“ í DV og tímarit með sama eða svipuðu nafni sem ég veit ekki hvort enn er gefið út. Þótt ég hafi gjarnan lesið háttar efni þegar ég var barn dalaði áhuginn verulega fyrir allnokkru síðan.
En þar sem ég er í neon-bókaklúbbnum var ég svo heppin að fá Glæpi inn um bréfalúguna. Bókina hefði reyndar auðveldlega getað dagað uppi í stafla með ólesnum bókum sem missa aðdráttaraflið jafnt og þétt eftir því sem þær liggja lengur óhreyfðar. Eitt kvöldið þegar ég ætlaði bara að lesa agnarlítið áður en ég slökkti á lampanum og færi að sofa greip ég þó Glæpi fyrir hálfgerða tilviljun. Ég hélt að þetta væri upplögð bók til að glugga örlítið í og henda svo til hliðar þannig að ég færi kannski að sofa á skikkanlegum tíma til tilbreytingar, hún gæti varla verið það áhugaverð að ég læsi lengur en ég ætlaði. Fordómarnir reyndust ekki á nokkrum einustu rökum reistir. Ég hætti ekki lestrinum fyrr en ég var búin með bókina og svefninn frestaðist ennþá lengur því ég lá drjúga stund og velti fyrir mér þessum ótrúlegu sögum.
Orðið „ótrúlegt“ er ekki notað út í loftið því ýmsar áhugaverðar spurningar sem tengjast sannleiksgildi vöknuðu við lesturinn. Tekið skal fram að yfirleitt er mér eiginlega sama um hlutfall einhvers sem rúðustrikað fólk gæti kallað raunveruleika eða sannleiksgildi í skáldskap, t.d. að hve miklu leyti bækur á borð við Albúm e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur eða Heim til míns hjarta e. Oddnýju Eir Ævarsdóttur eru sjálfsævisögulegar eða skáldaðar, svo ég nefni tvær stórgóðar bækur þar sem mörkin eru markvisst gerð þokukennd. Ef texti er gefinn út undir þeim formerkjum að vera skáldaður er sjaldgæft að ég láti vangaveltur um meintan veruleika raska ró minni. Ef saga er góð er hún sönn, og ég er vön að vera fullkomlega sátt við gráu svæðin milli þess sem er „satt“ og „logið“ (innan afgerandi gæsalappa) í skáldskap.
Einhverra hluta vegna tók ég Glæpum þó öðruvísi í fyrstu. Þar koma sennilega bæði til orðin um sönnu sögurnar á kápunni og hlutlægni höfundarins þar sem smáatriði eru notuð í alveg mátulegum mæli til að gefa frásögninni líf. Strax í byrjun fyrstu sögunnar eru t.d. tilgreind nöfn og staðsetningar, fram kemur að aðalpersónan sé læknir sem skrifi tvö þúsund og átta hundruð lyfseðla á ári og eigi þriggja ára gamlan Benz og svo framvegis og svo framvegis. Ég, sem kæri mig annars kollótta um hvort það er logið að mér í bókum, stóð sjálfa mig að því að velta fyrir mér hvort atburðirnir hefðu virkilega gerst í Rottweil og furða mig á því að sagan sem var svo vel staðsett í rúmi væri það ekki í tíma. Hvenær átti þetta eiginlega að hafa gerst? Ég leitaði jafnvel að formála eða eftirmála þar sem gerð væri grein fyrir því hversu nálægt raunveruleikanum sögurnar væru.
Sem betur fer er ekkert slíkt að finna í bókinni, lesandinn er skilinn eftir með allar spurningarnar og vafann um hvað er satt og hvað logið. Sögunum er ætlað að standa fyrir sínu sem bókmenntaverk og það gera þær svo sannarlega, enda var ég fljót að komast yfir staðreyndaspurningarnar sem sóttu á mig í byrjun. Spennan milli raunveruleika og skáldskapar er samt undirliggjandi í allri bókinni og kemur m.a. fram í þeirri skemmtilegu þversögn að margar sögurnar eru of lygilegar til að vera skáldaðar frá grunni. Efni þeirra flestra er vægast sagt dramatískt. Maður drepur t.d. konuna sína með yfirveguðu axarhöggi í höfuðið eftir áratuga hjónaband. Ungan pilt langar að borða kærustuna sína. En frá öllu þessu er sagt á beinskeyttan og yfirvegaðan hátt. Hlutlægur og látlaus stíll höfundarins er fullkomið mótvægi við melódramað. Þurr húmor spillir ekki heldur fyrir, sem dæmi má nefna persónulýsingu þar sem í framhaldi af stuttri lýsingu á ríkmannlegri en afar ósmekklegri íbúð mannsins kemur fram að hann eigi tvo kjölturakka sem heita Dolce og Gabbana.
Frásagnarhæfileikar Schirachs eru annar af tveimur stærstu kostum bókarinnar, hinn er manneskjulega sjónarhornið sem er ráðandi. Í sögunum eru glæpirnir sjálfir ekki aðalatriðið heldur rætur þeirra og fólkið sem þeim tengist. Hér eru ekki felldir dómar heldur velt upp spurningum og leitað skilnings. Þar með situr lesandinn eftir með fjölmörg umhugsunarefni, um fólk og furður mannlífsins, satt og logið, glæpi og refsingu og sitthvað fleira.
Erna
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
P.S. Þegar ég leitaði að efni um bókina á þýskum vefmiðlum rakst ég á fjöldann allan af nýjum viðtölum við Schirach í tilefni af því að önnur bók hans, Schuld (þ.e. sekt), var að koma út (sjá t.d. Die Zeit, Süddeutsche Zeitung, FAZ). Ég er búin að panta hana og bíð spennt eftir að komast að því hvort hún stenst samanburðinn við Glæpi.
4 ummæli:
P.P.S. Gleymdi að nefna að mér sýnist þýðandinn, Bjarni Jónsson, hafa skilað fínu verki.
þú ert algjörlega búin að selja mér þessa bók Erna! Eins og þú þá fældi "stjörnulögfræðingurinn" mig frá en nú verð ég ekki í rónni fyrr en ég er búin að lesa hana!
Já, þetta hljómar vel.
Ef bókin er "inni" panta ég að fá hana lánaða um helgina.
Skrifa ummæli