Skvísubókin Makalaus eftir Tobbu Marinós fjallar um Lilju Sigurðardóttur og ástarmál hennar. Lilja er 25 ára og vinnur í almannatengslum og markaðsmálum hjá fyrirtækinu Tækn. Hún er „nú alveg makalaus“ (hress og skemmtileg) og bókstaflega makalaus ung kona sem dreymir um að finna hinn fullkomna mann og hamingjuna.
Bókin er samtímasaga úr Reykjavík, málfar bókarinnar er rosalega „2010“ og höfundi tekst, eftir því sem ég fæ best séð, vel að skrifa hugsanir og samtöl ungs fólks í dag. (Vinkona Lilju segir t.d. „Jú, það er næs. Og sæll, kynlífið...“ (131)). Það er svona eftir-hruns-stemming (minnst er nokkrum sinnum á kreppu), en þegar Lilja þarf að markaðssetja nýja símann Zeitung 2000, sem á að taka við af Blackberry, sést hve lítið hefur breyst. Hún heldur símatískusýningu sem gæti verið beint upp úr bók eftir Steinar Braga, nema hér á hún ekki að vera óhugnarleg:
„Flottar fyrirsætur í húðlituðum þröngum samfestingum munu ganga fram sýningarpall. Þær stoppa við endann á pallinum og taka myndir með símanum, svara símtali og svo framvegis til að sýna virkni símans. Það sem sést á skjánum hjá þeim birtist líka á tjaldi fyrir aftan þær.“ (84)
Sýningin vekur mikla aðdáun, síminn selst grimmt og Lilju tekst að heilla einn ríkasta mann Íslands (einn af þeim sem komst vel frá hruninu) með ferskum hugmyndum sínum.
Fleira gerir bókina að samtímasögu, hver kafli hefst til dæmis á facebook-status, með tilheyrandi kommentum og lækum. Þetta minnir á bókina Flottastur@facebook sem fjallað hefur verið um á þessari síðu, en það vill svo skemmtilega til að Hákon Karl, aðalpersóna F@f, skýtur upp kollinum í örskamma stund í Makalaus. (Eru að verða til einhvers konar facebookbækur þar sem persónurnar þekkjast innbyrðis?!) En það er ekki bara facebook og hrunið sem skjóta upp kollinum í bók Tobbu, heldur líka gosið í Eyjafjallajökli. Lilja verður ástfangin og ber tilfinningar sínar saman við gosið:
„Mig langar allt í einu upp að gosinu. Standa á Eyjafjallajökli og stara. Á mörkum brjálaðs kulda og hita. Þannig líður mér. Það veit enginn hvað gosið mun standa lengi yfir. Fólk spáir og spekulerar.
Ég veit heldur ekki hvað gosið í mér stendur lengi.“ (264)
Lilja er vinamörg, falleg og skemmtileg, en henni finnst eitthvað vanta í líf sitt. Rétta manninn. Þetta er ekki einhver óþægileg tilfinning sem gerir vart við sig að öðru hvoru, eða hugsun sem skýtur stundum upp kollinum, heldur fer nokkurn veginn öll hennar orka í að hugsa um karlmenn á einn eða annan hátt. Hún veltir mikið fyrir sér stefnumótamenningu í Reykjavík og rifjar upp gömul stefnumót og veltir fyrir sér þeim nýjustu. Í bókinni eru stefnumót ekki einföld skemmtun, maður fær það reyndar á tilfinninguna að þau séu algjör höfuðverkur. Maður á að passa að líta ekki út fyrir að hafa reynt of mikið. Bíó er bannað þangað til eftir fjórða stefnumót. Ef maður ætlar að sofa hjá er eins gott að vera í samstæðum nærfötum. Og karlmenn eiga ekkert að borga allt, en það er bæði sanngjarnt og herramannslegt að þeir borgi annað hvert skipti. Þetta eru bara nokkrar af „reglunum“. Síðasta reglan sem ég taldi upp, þessi um að karlmenn eigi að borga allt annað hvert skipti, en annars bara helminginn, einkennist af hugarfari sem nokkuð ber á í bókinni. Hugarfari sem ég hélt að væri úrelt. Annað dæmi um þetta hugarfar er þegar Lilja lætur sig dreyma um að giftast ríka manninum sem hún er skotin í og veltir því þá fyrir sér hvort hún myndi hætta að vinna (og verða þá fjárhagslega alveg háð honum).
Annað meginumfjöllunarefni bókarinnar er útlit Lilju. Við fylgjumst með sögupersónu í ellefu vikur (bókin er á dagbókarformi) og í byrjun hverrar viku fáum við að vita hvað hún er þung eða hversu mikið hún hefur lagt af síðan í síðustu viku. Þyngdin er stundum sett í samhengi við hvernig henni líður þá stundina, þ.e. hvort hún er ástfangin eða ekki. Lilja gerir reglulega lista yfir það sem hana vantar í lífinu og (fyrir utan kærasta) eru það bara fegrunarvörur og föt. Hún heldur því fram að oftast sé hún að gera sig til fyrir sjálfa sig:
„Ég er alger hælakona og hugsa mikið um útlitið. Er ekkert heltekin af því en vil líta vel út og þótt margir – sérstaklega karlmenn – misskilji það þá er ég yfirleitt að hafa mig til fyrir sjálfa mig.“ (24)
Ég ætlaði fyrst að skrifa að þessi bók stæðist ekki Bechdel-prófið sem er stundum notað á kvikmyndir (http://bechdeltest.com/). Þá þarf mynd að uppfylla þrjú skilyrði: 1) að það séu tvær eða fleiri konur í myndinni – tékk, 2) að konurnar tali saman - tékk og 3) að þær tali saman um eitthvað annað en karlmenn. Makalaus slapp fyrir horn vegna þess að konurnar tala ekki eingöngu saman um karlmenn, heldur líka útlitið.
Lilja á traustan vinkvennahóp sem hún dýrkar, en vandamálið er að hún er sú eina í hópnum sem er ennþá á lausu. Þegar hún hugsar um sambönd vinkvenna sinna verður hún örvæntingarfull, henni líður eins og hún sé síðasta kótelettan í kjötborðinu sem enginn vill. Eða þá síðasta pulsan á grillinu sem er að verða köld og enginn vill borða. Þetta orðalag er reyndar dæmi um húmor höfundar, sem er svo steiktur og skemmtilegur að hann dregur jafnvel athygli lesanda frá því hversu niðurdrepandi innihald bókarinnar er.
Það er húmorinn í bókinni sem kemur manni í gegnum hana. Lilja heldur því fram að konur komist áfram á vinnustaðnum vegna þess að þær eru klárar, ekki út af útlitinu. Samt hugsar aðalpersóna ekki um neitt annað en karlmenn og útlit. Hún segist vera hætt að telja kíló vegna þess að hún sé ástfangin – en tveimur blaðsíðum seinna er hún komin á viktina í ræktinni og dáist að því að „kílóin hrynji bara af.“ Hún ætlar að hætta að lifa eftir listum (yfir það hvað hana vantar og hvað hún þarf að gera til að verða hamingjusöm/ná í mann), en skrifar samt lokalista til að lifa eftir í bókarlok. Húmorinn sættir mótsagnirnar í textanum og hjálpar okkur að hlæja að dapurlegum heimi, hann losar um spennuna til þess að lesendur geti haldið áfram þessum óþarfa „leik“ sem samskipti kynjanna eru (samkvæmt bókinni). En þökk sé öllu gríni bókarinnar, hef ég líklega aldrei skemmt mér jafn vel við að lesa eitthvað jafn niðurdrepandi.
Guðrún Elsa Bragadóttir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli