7. júní 2011

Tvær bækur eftir Kristian Lundberg

Þessa dagana er ég að þýða spennandi ævintýraglæpasögu (hátt á fimmta hundrað síður) sem gerist vítt og breitt um Evrópu, ofanjarðar og neðan- og menn þvælast alla leið til Norðurpólsins í loftbelg (Jules Verne hittir Dan Brown?). Þegar ég er sokkin í svoleiðis verk finnst mér mjög gott að lesa eitthvað allt annað og öðruvísi til að hvíla mig á æsilegum atburðum með tilheyrandi eltingaleikjum, blóðslettum og grunsamlegum karakterum og undanfarið hef ég verið óvenju heppin með hvíldarlestur.

Nýlega rakst ég fyrir tilviljun á viðtal við sænskan höfund, Kristian Lundberg, sem var að gefa út bók sem heitir Och allt skall vara kärlek. Ég fékk áhuga, útvegaði mér eintak, byrjaði að lesa og bókin er ein þeirra sem hafa algjörlega gripið mig, hún er býsna góð. Þetta er stutt og vel skrifað verk (ég myndi kannski skrifa ljóðræn ef ég héldi ekki að það myndi misskiljast og þið hélduð þá að þetta væri eintóm uppskrúfuð og ofstuðluð tilgerð – það er þvert á móti), á rétt rúmum hundrað síðum rúmast stéttaátök, innri átök, risastór ást, tilfinningar, uppgjör og geðveiki. Och allt skall vara kärlek er sjálfstætt framhald annarrar bókar, Yarden (2009) en mér finnst hún ekki beint vera framhald, hún er meira svona tilbrigði við sömu sögu. Auðvitað þurfti ég því líka að ná mér í fyrri bókina og Bókasafn Norræna hússins var svo elskulegt að panta hana. Yarden fékk árið 2010 bókmenntaverðlaun í Svíþjóð og það á hún svo sannarlega skilið (ég verð smá hissa ef framhaldið fær ekki líka einhver verðlaun).

Ef ég byrja á fyrri bókinni þá fjallar Yarden um líf skítblanka rithöfundarins Kristians Lundbergs sem vinnur sem daglaunamaður (já, hann er alvöru daglaunamaður því hann starfar hjá mönnunarfyrirtæki í tímavinnu) í bílageymslu við höfnina í Malmö. Vinnuaðstæður eru hörmulegar, maður gæti haldið að þetta væri á millistríðsárunum slík er meðferðin á verkamönnunum sem flestir eru útlendingar. Jafnframt því að höfundurinn stígur niður á plan sem hann var staddur á löngu áður og stundar verkamannavinnu þá stígur hann líka niður til bernsku- og æskuáranna sem voru enginn sænskur krúttveruleiki með ljóshærðum Lottum sem stela eplum í fögrum görðum og trallandi mæðrum þeirra sem þurrka af og baka snúða til skiptis. Móðirin er veik af skitsófreníu og getur ekki hugsað um börnin sín fimm, pabbinn (sem er einhvers konar "betri borgari") er stunginn af og Kristian eignast glæpamenn sem vini, dópar og drekkur sér til óbóta, dílar, stelur og hegðar sér eins og sjúkur skíthæll jafnframt því að skrifa.

Och allt skall vara kärlek
(sem er glæný) er á kápunni sögð sjálfstætt framhald Yarden, en mér finnst hún allt eins geta verið á undan henni (þannig las ég þær og fannst það ljómandi fyrirkomulag), hún segir að hluta sömu sögu frá öðru sjónarhorni. Sagan segir frá því sem er að gerast í nútímanum og því sem gerðist áður en hann var að vinna á ömulegu bílaplönunum í Malmö og stóra ástin sem Kristian yfirgaf tuttugu árum áður birtist aftur (í millitíðinni bjó hún á Íslandi). Svíar eru duglegir að skrifa stéttameðvitaðar sögur þar sem bakhliðum hinnar svokölluðu velferðar er lýst og þessar bækur falla í flokk þannig bóka (alltaf er verið að sortera og flokka). Bækurnar tvær eru samt sumpart merkilega ólíkar bæði hvað varðar efni og stíl. Í Yarden er áherslan meira á samfélagið og hún er myrkari en Och allt skall vara kärlek, þar sem sjónarhornið beinist meira að einstaklingnum. Kristian Lundberg klúðrar lífi sínu, missir ástina út af dópneyslu og rugli, hann er með allskonar ömurlega atburði í farangrinum en réttir sig samt af. Hann á son sem hann býr með og hugsar um og speglar sig líka í, hann uppgötvar sér til hryllings að þegar hann var á sama aldri og barnið hans seldi hann dóp, drakk landa og var smákrimmi á götunni. Þó að Kristian Lundberg sé með slæma samvisku og þurfi að sættast við eigin fortíð þá er ekki ein arða af sjálfsvorkun í þessum bókum, meðal annars þess vegna eru þær svo töff.

P.S. Hér er krækja á viðtal síðan í fyrra við Kristian Lundberg þar sem hann minnist meðal annars á þegar hann skrifaði gagnrýni um bók sem kom aldrei út.

3 ummæli:

Elísabet sagði...

Verður þú ekki að þýða þessar bækur Þórdís, svo við ósænskumælandi getum notið þeirra?

Kristín í París sagði...

Heyr, heyr, fyrir þýðingarhugmynd. Finnst ekki ein einasta síða á frönsku um manninn svo ekki get ég hallað mér að þeirri tungu. Því miður les ég ekki sænskuna, þó ég hafi verið tvítyngd ísl/sænsk til 2ja ára.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er til í að þýða þessar bækur (og fleiri góðar) en þýðingarmál eru ekki alveg einfaldur gjörningur í ýmsu samhengi.