
Síðan ég var barn hef ég sjálf stundað álíka landakortaferðalög og Schalansky þannig að þegar ég las um bókina í þýsku blaði fyrir allnokkru var strax ljóst að þarna væri eitthvað fyrir mig. Því miður steingleymdi ég að panta hana þannig að það var óvænt ánægja að rekast á enska þýðingu í Eymundsson í vor. Það gerðist á leiðindadegi þar sem fjölmargt var að angra mig en bókarkaupin reyndust afar skapbætandi og hafa bjargað ýmsum dögum eftir það.
Samhengið milli landakorta og ímyndunaraflsins getur falist í fleiru en hugarflugi um ferðalög og staði eins og Schalansky minnist á í formála. Þótt landakortum sé oftast ætlað að miðla veruleikanum á einhvern hátt, þá endurspegla þau bara valda þætti hans. Á kortum þar sem hvert ríki er í ákveðnum lit fer landslagið forgörðum, á kortum þar sem litir eru notaðir til að sýna lögun landsins verður gróðurfar eða skortur á því útundan og svona mætti lengi telja. Að ekki sé talað um hvernig mismunandi vörpun hnattarins yfir í tvívíðan flöt brenglar veruleikann eins og CJ Cregg uppgötvaði í einni af uppáhaldssenunum mínum í Vesturálmunni þegar hún neyddist til að hitta „Cartographers for Social Equality“ sem röskuðu heimsmynd hennar verulega.

Schalansky samdi ekki bara bókina heldur hannaði hana líka og hefur nostrað við hvert smáatriði, enda fékk bókin einhvers konar verðlaun sem fegursta bók Þýskalands árið 2009. (Hér má gægjast í hana.) Litavalið er markvisst: grátt, blágrátt, appelsínugult, svart og hvítt; gráhvítur pappírinn virðist stundum næstum fá silfraðan blæ og letur og umbrot er vandlega úthugsað.
Þetta er bók fyrir alla sem hafa snert af landabréfablæti, bókablæti, staðreyndablæti eða skáldskaparblæti – og alveg sérstaklega fólk sem býr yfir þessu öllu.
- - - - - - - - -
* Á þýsku heitir bókin Atlas der abgelegenen Inseln. Fünfzig Inseln, auf denen ich nie war und niemals sein werde. Í enskri þýðingu kallast hún Atlas of Remote Islands en undirtitillinn er aðeins mismunandi eftir heimsálfum; í amerísku útgáfunni: Fifty islands I have never set foot on and never will, en í þeirri bresku: Fifty islands I have not visited and never will.
3 ummæli:
Þetta hljómar spennandi.
Ég gerði lítið annað en að blætast yfir landakortum á sínum tíma. Verð greinilega að tékka á þessari!
Þetta hljómar undursamlega! Þessi fer á óskalistann!
Skrifa ummæli