Ég reyni, svona við og við, að lesa bækur sem mér finnst vandræðalegt að ég skuli ekki löngu vera búin að lesa. Ég byrjaði sumarið þess vegna á því að lesa bók Charlotte Brontë, Jane Eyre. Mér fannst reyndar eins og ég væri búin að lesa hana áður, ég hafði lesið um bókina og séð BBC-seríuna oftar en einu sinni, svo ég þekkti sögþráðinn vel. Hingað til hef ég þó örvænt lítillega þegar ég hef fengið það á tilfinninguna að fólk haldi að ég hefði lesið hana, en fundist of vandræðalegt að fara að taka það fram óaðspurð að ég hafi ekki lesið hana. (Kannist þið ekki við þetta? Og eruð þið ekki alltaf að lenda í því að fara að tala um Jane Eyre í partíum?)
En nú finnst mér semsagt frábært að hafa lesið þessa ágætu bók og nýtti tækifærið þegar mamma var að horfa á þættina með systur sinni um daginn og settist hjá þeim og benti þeim á það hvernig hitt og þetta var í bókinni. Dæmi: „Já, nei, í bókinni er sko algjörlega augljóst að hún missir ekkert minnið, heldur vill bara ekki koma upp um það hver hún er og hvaðan hún kemur.“ Ég geri ráð fyrir því að þeim hafi þótt það jafn skemmtilegt og mér fannst það.
Bókin kom mér mjög skemmtilega á óvart, því þótt ég vissi nokkurn veginn hvað myndi gerast leiddist mér lesturinn aldrei. Það var kannski tvennt sem kom sérstaklega til. Fyrir það fyrsta er Jane afskaplega töff kvenpersóna. Hún er klár, hæfileikarík, skynsöm og sjálfstæð. Kannski full mórölsk stundum, en á móti kemur að hún hefur alltaf rétt fyrir sér. Það tengist kannski seinna atriðinu: mér fannst svo skemmtilegt hvað bókin er melódramatísk. Munurinn á þeim góðu og þeim illu er alveg skýr og þegar líður á bók eru hinir góðu verðlaunaðir og hinum vondu er refsað með einhverjum hætti. Tilviljunin þjónar líka stóru hlutverki í atburðarás sögunnar, persóna sem er fátæk en göfug eina stundina getur orðið forrík og göfug þá næstu. Því getur lestraránægjan orðið gífurlega mikil ef maður leyfir sér bara að hrífast með: að halda með þeim góðu og að fyrirlíta þá sem eru vondir (því guð hjálpi mér, þeir eru vondir inn að kjarna).
Það er kannski ein persóna sem er fyrst um sinn ekki augljóslega góð eða vond: herra Rochester. Ó, hvað mér þótti hann þreytandi stundum. Hann er einmitt týpan sem ungar stúlkur eins og Jane verða oft skotnar í enn þann dag í dag: þessi gáfaði, fjarlægi, þjáði en sjálfsánægði maður sem þær þurfa að sanna sig fyrir. Svo einn daginn horfir hann djúpt í augun á þeim og segir: „Þú ert eina konan sem skilur mig.“ Það verður hins vegar alveg ljóst hvaða mann Rochester hefur að geyma þegar líður á bók og ástæður þess að hann er svona dulur koma upp á yfirborðið.
(Þessi síðasta setning á að gera ykkur spennt fyrir því að lesa bókina).
6 ummæli:
O nú hlakka ég svo hrikalega til að lesa Jane Eyre einu sinni enn. Ég las hana fyrst einhverntíma þegar ég var barn, eftir að hafa horft á svarthvítu myndina (frá 1943) í sjónvarpinu og svo las ég hana aftur löngu síðar. Það er alveg kominn tími á einn nettan Rochester.
Ég held barasta að ég eigi líka eftir að lesa bókina sjálfa. Man eftir myndum og jafnvel teiknimyndaseríum sem ég svolgraði í mig í æsku og Jane Eyre var sko mitt uppáhald þá!
Svona sígildur söguþráður stendur alltaf fyrir sínu, kynslóð eftir kynslóð. Held að ánægjan við lestur svona bóka felist í dulinni löngun til þess að sjá hlutina einfaldlega sem svart og hvítt, gott og illt, fallegt og ljótt, karl og kona, o.s.frv. Einfalda svolítið heimsmyndina.
Það er alltaf að vinsa úr fólkið sem hefur aðeins séð þættina en ekki lesið bókina því að það kannast ekki við setninguna: Reader, I married him – sem allir sem hafa lesið bókina muna eftir, kv. Ármann
Gaman að lesa þennan pistil því ég er ákkúrat að lesa Jane Eyre núna. Það er eins og úníversið kalli á mann hreinlega. Fékk hana að gjöf frá dóttur minni og hafði víst aldrei lesið nema hér og þar í henni áður. Hélt bara að ég væri sko búin að lesa hana. Ég get horft á kvikmyndun á sögunni aftur og aftur og aftur.
Ég hafði mjög gaman að Jane Eyre en það er þess viði að vara fólk við íslensku þýðingunni - hún er fáránlega slæm.
Ásdís
Ég elska Jane Eyre, bókina og BBC þættina. Ég man eftir að hafa lesið hana í ensku í MH og krotað all mikið í bókina af alls kyns hjörtum og væmnum kommentum, t.d. á eftir setningunni "But, Jane, I summon you as my wife: it is you only I intend to marry." Hver elskar ekki svona ástfangna, þjakaða og dula týranta, sem skipa manni að giftast sér! ;) Yrsa
Skrifa ummæli