22. febrúar 2012

Illir harðstjórar, töfrandi uppreisnarmenn og fallegar hórur sem taka til sinna ráða

Isabel Allende
Ég var mjög lítil þegar ég kolféll fyrir Isabel Allende. Ég reif í mig Hús andanna og Evu Lunu sem ég fann uppí hillu heima og las þær síðan strax aftur. Á þeim tíma var þekking mín á landafræði svo takmörkuð að ég hafði aðeins óljósa hugmynd um að þessar töfrandi og fantasísku bækur með sínum grimmum harðstjórum, hugrökku konum og myndarlegu uppreisnarmönnum gerðust í einhverju landi sem væri í alvörunni til og væru að miklu leyti byggðar á sannsögulegum atburðum. Ég upplifði þær þess vegna sem pjúra fantasíu þegar ég las þær fyrst og gat því notið þeirra alveg upp á nýtt þegar ég var orðin eldri og vissi aðeins meira um Suður-Ameríku og sögu Chile.

Isabel Allende er ástæðan fyrir því að mig langaði til þess að læra spænsku og þegar ég var búin að búa á Spáni og ferðast um latnesku Ameríku þá las ég bækurnar hennar aftur, á spænsku. Mér þykja þær misgóðar, Paula var æði, Dóttir gæfunnar fannst mér ekkert sérstök, barnabækurnar hennar tvær skildu ekki mikið eftir sig og El plan infinito, sem fjallar um seinni manninn hennar (og ég veit ekki hvort hefur verið þýdd á íslensku), fannst mér bara hundleiðinleg.Eiginlega hafði ekki komið út bók eftir hana síðustu fimmtán árin sem hafði snert mig í líkingu við þær sem ég féll fyrir þegar ég var lítil. Mig var hálfpartinn farið að gruna að kannski mætti skrifa töfrana sem ég man svo vel eftir úr bókunum hennar á það hvað ég hafi verið móttækileg og hrifnæm þegar ég var krakki.

Það var því af tryggð frekar en tilhlökkun sem ég ákvað að tjékka á Eyjunni undir sjónum, nýjustu bók Allende sem kom út núna fyrir jólin og ég passaði mig vel á því að halda væntingum í algjöru lágmarki.

En ég var ekki búin með nema nokkrar blaðsíður þegar þeir voru þarna ljóslifandi komnir, töfrarnir hennar sem ég er búin að sakna svo mikið. Í bókinni beið mín sterka kvenhetjan sem ég kannaðist svo vel við, fallega hóran sem tekur til sinna ráða, illi harðstjórinn sem mildast með árunum og meira að segja fagur og töfrandi uppreisnarmaður, í litríkum hrærigraut að hætti höfundar.

Þemun í bókinni og persónugallerí hennar eru semsagt kunnugleg þeim sem hafa lesið margar bækur eftir Allende (sem sumum finnst kannski löstur, en mér leið einsog ég hefði hitt aftur gamla og kæra vini), en hún er komin á nýjar slóðir. Sögusviðið er Karíbahafseyjan Saint-Domingue og aðalpersónan Tété er svört þrælastúlka á sykurplantekru í eigu frakka. Líf Tété er erfitt, frelsið er dýrkeypt og leiðin að því er löng og ströng og leiðir hana m.a. til Kúbu og New Orleans. Ég játa að ég er ekkert rosalega vel að mér í sögu og hafði t.d. ekki hugmynd um að þrælar hefðu háð svo blóðugt frelsisstríð á eyjunni og að Haíti hefði verið fyrsta lýðveldi svartra.

Bókin er 462 bls. en ég spændi hana í mig á einum degi.

Aðdáendur Isabel Allende verða alveg örugglega ekki sviknir af þessari bók.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

El plan infinito er kannski sannleikur allífsins? Um mann sem átti föður sem var farandpredikari og útskýrði heiminn fyrir fólki með appelsínu í bandi? Mér fannst hún góð, þó það væri erfitt að horfa upp á manninn klúðra lífi sínu svona hvað eftir annað.
En eyjan undir sjónum var mjög skemmtileg, og nokkuð flott hvernig henni tekst að skrifa um annan menningarheim en sinn eigin, án þess að detta í klisjur eða tilgerð. (að mínu mati, ég veit ekki hvað Haítíbúar myndu segja)
Ragnhildur.