Um þessar mundir fagnar tvöhundruð ára afmæli sínu einn af þessum rithöfundum sem allir þekkja, jafnvel þótt þeir hafi ekki lesið neitt eftir hann; Charles Dickens, en hann fæddist þann 7. febrúar 1812. Af því tilefni fagnar heimsbyggðin, en þó einkum Bretar, með margvíslegum hátíðahöldum. Svona afmælisár eru auðvitað kapítuli út af fyrir sig og ég vona að Dickens greyið hljóti ekki þau örlög sem sumar aðrar þjóðhetjur og stórafmælisbörn hafa hlotið, það er að segja að ákafi og metnaður stjórnvalda geri það að verkum að eftir afmælið séu allir búnir að fá ógeð á afmælisbarninu og alltumlykjandi nærveru þess.
Ákafinn og metnaðurinn eru allavega til staðar, eins og sjá má af afmælisheimasíðu Dickens. Þar er hægt að fræðast um höfundinn, verk hans, myndefni sem gert hefur verið eftir verkum hans, söfn, sýningar og atburði afmælisársins (hvern langar ekki að taka þátt í Dickens-hálfmaraþoninu?). Auk þess birtast tilvitnanir í Dickens ótt og títt og hann virðist nú bara oft hafa hitt naglann á höfuðið, kallinn.
Atburðirnir sem hér eru auglýstir eiga sér flestir stað í Bretlandi, einkum London, en hátíðahöldin teygja sig víðar. Hér í Portúgal standa yfir bókasýningar og bíósýningar Dickens til heiðurs og Reykvíkingar fá líka eitthvað fyrir sinn snúð. Samkvæmt vef Bókmenntaborgarinnar verður sérstök málstofa um Dickens á hugvísindaþingi Háskóla Íslands 9.-10. mars en einnig hefur Dickens verið minnst í Ríkisútvarpinu og í Kiljunni.
2 ummæli:
Ég er búin að skrá okkur 14 í þetta maraþon.
Af hverju eru þeir ekki með Dickens-leisertag-mótið?
Skrifa ummæli