15. júní 2012

Karlinn í tunglinu

Ég tók svolitla Le Guin-syrpu nýlega og las loksins The Dispossessed, bók sem ég hef verið á leiðinni að lesa árum saman. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta er þrælgóð bók. Söguhetjan er eðlisfræðingurinn Shevek sem fæddur er og uppalinn á Anarres, sem er tungl plánetunnar Urras. Forsagan er sú að um einni og hálfri öld áður en sagan gerist fékk hópur uppreisnarmanna á Urras að nema land á Anarres og stofna þar anarkíska nýlendu. Þessi hópur byggir svo upp samfélag í hrjóstrugu umhverfi þar sem allir hafa nóg, en bara rétt svo. Í bókinni fáum við svo að fylgjast með lífshlaupi Sheveks á Anarres og heimsókn hans til Urras, sem er kannski ekki svo ósvipuð Jörðinni, þótt ljóst sé að um allt aðra reikistjörnu er að ræða. Nokkrir Jarðarbúar koma reyndar við sögu undir lok bókar og kemur þar fram að þeir eru komnir langt að.


Bókin felur í sér miklar vangaveltur um vald og réttlæti. Á Anarres er samfélagið grundvallað á þeirri hugsjón að allir séu jafnir, bæði hvað varðar vald og lífsgæði. Enginn á að geta haft vald yfir öðrum eða meira vald en annar og eignarréttur er varla til. Peningar eða annar gjaldmiðill er ekki til staðar og það er illa séð að upphefja sjálfan sig eða verða of upptekinn af eigin hag. Í heimsókn sinni til Urras verður Shevek sleginn yfir misskiptingu lífsgæða og þeim allsnægtum sem yfirstéttin lifir í. Eins er honum brugðið við ójafna stöðu kynjanna. Á Anarres eru enginn sérstakur greinarmunur gerður á fólki eftir kyni, allir njóta sömu virðingar og fá sömu tækifærin, en á Urras sjást konur ekki í því háskólasamfélagi sem Shevek viðhefst í eða í neinum valdastöðum.

Shevek hefur þó rekið sig á valdbeitingu á Anarres þótt hún eigi í ekki að vera til staðar þar. Til að hið anarkíska samfélag þar geti gengið fyrir sig verður það í raun fullt af alls konar óskráðum reglum og þeir sem brjóta þær finna fyrir útskúfun samfélagsins. Eins ná ákveðnir einstaklingar að nota sér kerfið (sem að nafninu til á ekki að vera kerfi en verður það samt) og hafa ýmiss konar vald bak við tjöldin. Út frá þessu má velta því fyrir sér hvort hægt sé að finna eitthvert samfélagsfyrirkomulag sem laust er við alla valdbeitingu. Er alltaf óhjákvæmilegt í samfélagi að hafa einhverjar reglur? Samfélag hlýtur jú alltaf að grundvallast á einhvers konar samkomulagi og samvinnu og þá verða einhvers konar málamiðlanir nauðsynlegar. Kannski er svo mannskepnan það gölluð og valdagírug að hvert svo sem samfélagsformið er þá muni einhverjir einstaklingar reyna að sölsa undir sig eins mikið og þeir mögulega komast upp með.

Eftir að hafa lokið við The Dispossessed vildi ég halda áfram lestri mínum á Le Guin og náði mér í smásagnasafnið The Birthday of the World. Þrátt fyrir að þessar bækur séu frá ólíkum tímabilum, The Dispossessed kom út 1974 en The Birthday of the World 2002, er umfjöllunarefnið að mörgu leyti svipað. Le Guin veltir fyrir sér mögulegum samfélagsgerðum, kynhlutverkum og heimsmynd mannsins og notar ímyndaðar plánetur til að leika sér og prófa sig áfram með möguleikana. Í The Birthday of the World fáum við að kynnast tvíkynja mannverum (sú saga gerist á Gethen, sem er líka sögusvið skáldsögunnar Left Hand of Darkness), fjögurra manna hjónaböndum, heimi þar sem hlutfall karla er afar lágt og þeir hafðir innilokaðir og fyrst og fremst notaðir til undaneldis í samfélagi sem stjórnað er af konum og plánetu þar sem offjölgun og tæknivæðing hefur orðið manninum að falli og eftirlifendur lifa hálfgerðu einsetulífi eftir ströngum reglum. Lengsta sagan, Paradises Lost, fjallar um 200 ára langt ferðalag og gerist um borð í geimferju sem hefur að geyma 4000 manna samfélag. Áfangastaðurinn er pláneta sem á að líkjast jörðinni og þarna vex upp kynslóð eftir kynslóð og miðjukynslóðirnar kynnast aldrei lífi utan geimferjunnar. Hugmyndir þeirra um heiminn koma spánskt fyrir sjónir og inn í söguþráðinn blandast firring og valdatafl.

Eins og ég nefndi er umfjöllunarefni bókanna beggja um margt svipað, við getum sagt að þær séu báðar rannsóknir á mismunandi leiðum til þess að vera mannleg. Sérstaklega áberandi eru kannski hinar mismunandi útgáfur af samböndum fólks, ekki síst ástarsamböndum. Í flestum þeim samfélögum sem Le Guin lýsir þykir kynlíf mjög sjálfsagður og eðlilegur hlutur, yfirleitt óháð kyni bólfélagans. Samspil vináttu og ástar er skoðað sem og ýmiss konar búsetuform.

Í lokin á The Birthday of the World (eða a.m.k. þeirri útgáfu sem ég er með af henni) er stutt hugleiðing Le Guin um bókmenntagreinar. Hún segist vera á móti flokkun í bókmenntagreinar eða því að bókum sé raðað í bókabúðum eftir slíkri flokkun; hún vilji ekkert skeyta um slíkt. Óhætt er að fullyrða að Le Guin hafi sjálf sem höfundur orðið fyrir barðinu á fordómunum sem fylgja slíkri flokkun. Fjöldi fólks les aldrei neitt sem flokkast getur undir vísindaskáldskap eða fantasíur og missir þannig alveg af því að lesa Le Guin, sem skrifar frábærar bækur með heilmiklum og djúpum hugleiðingum um heimsmyndir og manneðli. Svo grunar mig að einhverjir vísindaskáldsögu- og fantasíuaðdáendur hafi kannski farið á mis við hana vegna þess að hún er kona.

3 ummæli:

Kristinn sagði...

The Dispossessed er mér mjög eftirminnileg. Frábær bók.

Nafnlaus sagði...

The Dispossed er mjög góð.

Ég hef líka heyrt, frá fólki sem tekur bókmenntir alveg sérstaklega alvarlega, að Left Hand of Darkness sé eitt af merkustu verkum síðustu aldar. Ég hef þó ekki lesið hana sjálfur. Ennþá.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

The Left Hand of Darkness er æðisleg. Ég hef einmitt verið að hugsa um að mig langi að fara að lesa hana aftur.