21. júní 2012

Morð frá nýju sjónarhorni

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði Sigfríður pistil um hina amerísku Elizabeth George sem skrifar glæpasögur sem eru breskari en high tea. Pistillinn fékk mig til að fiska 14. bók George, What Came Before He Shot Her, fram úr hillunum hvar hún hefur staðið óhreyfð og ólesin frá því ég keypti hana fyrir svona fimm árum síðan. Ég hafði nefnilega aldrei fengið það af mér að lesa hana enda enn í áfalli yfir því hvernig 13. bókin, With No One as Witness endaði. (Sigfríður er auðvitað löngu búin að ljóstra upp um efni þessara tveggja bóka en ég kann samt ekki við annað en að vara fólk sem hefur í hyggju að lesa þær við því að ég er um það bil að fara að gera slíkt hið sama.)

Undir lok With No One as Witness er Lady Helen, ein af fimm aðalpersónum bókaflokksins og eiginkona rannsóknarlögregluforingjans Thomasar Lynley, óvænt myrt. Hún er að koma heim úr innkaupaferð þegar hún er skotin fyrirvaralaust og án nokkurrar sýnilegrar ástæðu en engin vitni eru að atburðinum - fyrir utan lesandann. Þegar bókinni lýkur hefur 12 ára drengur verið handtekinn fyrir morðið enda bendla ýmis sönnunargögn hann við glæpinn. What Came Before He Shot Her segir svo sögu þessa drengs og lýsir aðdraganda morðsins frá hans sjónarhorni.

Lesendur Elizabeth George voru harmi slegnir yfir morðinu á Lady Helen – þar á meðal ég. Í athyglisverðum pistli á heimasíðu sinni útskýrir George af hverju hún tók þá dramatísku ákvörðun að myrða Helen og þar kemur líka fram að viðbrögðin við bókinni hafi verið gríðarleg, hún hafi fengið bréf víða að úr heiminum frá reiðu fólki sem úthúðaði henni fyrir gjörninginn. Sjálf var ég kannski ekki alveg svo örvingla en ég var svo óendanlega sorgmædd að ég fékk mig ekki til þess að lesa neitt meira um morðið. Ég ákvað svo sem aldrei að hætta að lesa bókaflokkinn, það gerðist bara óvart þar sem ég gat aldrei hugsað mér að taka 14. bókina fram. Ekki fyrr en Sigfríður skrifaði sinn pistil og sannfærði mig um að What Came Before He Shot Her væri vel þess virði að lesa.

Það var reyndar ekki bara sorg mín sem kom í veg fyrir að ég hefði lesið bókina fyrr, það var eitthvað við það að taka upp bók vitandi að hún myndi enda hörmulega sem fyllti mig fyrirfram uppgjöf. Mér fannst lítill tilgangur í að þræla mér í gegnum 650 blaðsíður af algjörlega fyrirsjáanlegu efni þar sem drengurinn yrði augljóslega gerður að saklausu fórnarlambi aðstæðna þar sem ömurlegt líf og hræðileg reynsla leiddi að lokum til þess að hann yrði mannsbani. Eins og mér finnst það nú góðra gjalda vert að benda á að fæstir glæpamenn fæðast vondir og að þeir eru oft skapaðir af samfélaginu þá fannst mér einhvern veginn að það væri varla þess virði að leggja á sig allan þennan lestur og ganga í gegnum þessar hörmungar einu sinni enn til að staðfesta þetta. Og framan af lestrinum var svo sem ekkert sem breytti þessari skoðun minni. Að auki pirraði ég mig dálítið á tvennu. Annars vegar því að aftan á kápu væri í ágripi af söguþræði sagt frá hlutum sem gerast ekki fyrr en eftir sirka 400 til 500 blaðsíður! (Ég get í raun ekki enn gert upp við mig hvort það sé merki um að bókin sé of löng eða að sá sem káputextann samdi sé ekki góður í vinnunni sinni.) Hins vegar fannst mér bæði lögreglan í Lundúnum sem og félagslega kerfið koma allt of vel út í sögunni. Bókin fjallar í stuttu máli um Joel Campbell sem við vitum að á síðar eftir að vera handtekinn fyrir morðið á Helen. Pabbi Campbell barnanna þriggja var myrtur þegar þau voru ung að árum, mamman er í langtímavistun á geðsjúkrahúsi og eftir að amma þeirra ákveður að halda til Jamaica án þeirra enda þau hjá föðursystur sinni Kendru. Kendra er öll af vilja gerð að annast börnin en skortir þekkingu og úrræði til að takast á við jafn brostinn bakgrunn og þunga sögu og raun ber vitni. Þegar systkini Joels lenda upp á kant í samfélaginu, hvort á sinn hátt, ákveður hann að leita á náðir valdamesta manns hverfisins, glæpamannsins the Blaze, í von um vernd hans. Þannig sogast Joel inn í heim ofbeldis, hefndar og manndómsvígslna og allt fer á versta veg – eins og við vissum frá upphafi. Það sem ég var ósátt við var að það er í raun bara glæpaheimurinn, gangsterar og fólk í sömu stöðu og Joel sem valda falli hans. Lögreglan er vissulega fremur skeytinga- og úrræðalaus í garð hans og annarra í hverfinu en hún er í raun ekki gerandi afl í að móta örlög Joels. Fulltrúi félagslega kerfisins í bókinni er félagsráðgjafinn Fabia Bender sem gerir allt sem í hennar valdi stendur til að bæta hag Campbell barnanna og berst með kjafti og klóm fyrir réttindum þeirra. Ég held hins vegar að óeirðirnar í London sumarið 2011 hafi sýnt að oftar en ekki bregst kerfið og að það, ásamt fordómum samfélagsins, gjarnan með lögregluna í broddi fylkingar, er það sem mótar lífshlaup margra á hvað áhrifamestan hátt.

Ég var sem sagt ekkert uppnumin yfir bókinni framan af þótt mér þætti hún vissulega vel skrifuð og gædd öllum bestu höfundareinkennum George. En svo! Undir lokin, í kaflanum þar sem morðinu er lýst frá sjónarhóli Joels þá náði hún mér algjörlega. Loksins þegar þessum hápunkti sem ég hafði kviðið svolítið fyrir var náð var eins og strekktist á öllum þráðum. Ég var svo fullkomlega á valdi sögunnar að þegar lestrinum lauk langaði mig bara að skríða upp í rúm, draga sængina upp yfir haus og gráta örlög Joels, Lady Helen og allra í sömu stöðum. Áhrif frásagnarinnar eru samt ekki bara fólgin í lífi persónanna heldur líka í sjálfri frásagnaraðferðinni. Fyrir það fyrsta er ýmislegt í sambandi við þetta morð sem enginn, ekki Joel, ekki lesandinn og þaðan af síður Thomas Lynley fær nokkurn tímann skýringar á. Sumt geta tveir þeir fyrr nefndu dregið sínar ályktanir um en mikilvægur hluti sögunnar er ósagður og það er bara rétt að grilli í grófu drættina. Umfram allt er það þó staða lesandans sem mér finnst athyglisverð hérna. Þessar tvær bækur, With No One as Witness og What Came Before He Shot Her, segja sömu sögu frá tveimur ólíkum sjónarhornum. Aðdragandi morðsins er sagður frá sjónarhóli Helen í fyrri bókinni en Joels í þeirri seinni og hvor varpar nýju ljósi á hinn. Helen er eðli málsins samkvæmt ekki til vitnis um hvað gerðist eftir á og Joel getur ekki heldur sagt sína sögu vegna ástæðna sem rétt er að ljóstra ekki upp um hér – því auðvitað er sagan af morðinu langtum flóknari en virtist við fyrstu sýn. Þegar bókaflokknum vindur fram er lesandinn þannig settur í þá merkilegu stöðu að vera einn um að vita hvað raunverulega gerðist þetta síðdegi í Belgravia. Hann hefur upplýsingar sem sjálfur Thomas Lynley fær væntanlega aldrei né nokkur önnur persóna bókaflokksins. Í bókmenntagrein sem einkennist af því að halda lesandanum frá mikilvægum upplýsingum þangað til í endann og þar sem hefð er fyrir því að hann sé síðastur til að átta sig á fléttunni er þetta djarfur leikur. Lesendur glæpasagna sem eru vanir því að upplifa hina aristótelísku hreinsun í lok lestrarins eru allt í einu settir í þá stöðu að þurfa nánast að bera sektina sjálfir. Einhverjum kann að finnast það óþægilegt en sjálf held ég að það sé einmitt það sem tryggir að ég muni lesa bókaflokkinn þar til yfir lýkur. Ekki bara vegna þess að mér finnst ég hálfpartinn þurfa að vaka yfir Lynley svona fyrst ég get ekki sagt honum allt af létta um morðið á eiginkonunni heldur líka vegna þess að Elizabeth George hefur nú endanlega sýnt mér að hún er í öðrum flokki en aðrir glæpasagnahöfundar sem ég hef lesið.

1 ummæli:

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Það er athyglisvert hvað maður fer að láta sér annt um skáldsagnapersónur. Ef manni líkar persóna þá skiptir einhvern veginn máli að hún sé á lífi og hafi það sæmilega gott.