29. apríl 2013

Um ástarævintýri læknisfrúar, bælda höfunda og samfarir við Mr. Bean

Brian Moore (1921–1999) fæddist inn í strangtrúaða fjölskyldu í Belfast en flutti frá Írlandi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og settist að í Kanada árið 1948 þar sem hann vann sem blaðamaður og skrifaði draslbækur undir dulnefnum fram á sjötta áratuginn. Árið 1955 kom út fyrsta bók hans undir eigin nafni, The Lonely Passion of Judith Hearne og síðan fylgdu um tveir tugir skáldsagna, þrjár þeirra lentu á Booker-listanum og fleiri viðurkenningar fékk Moore og eftir nokkrum verka hans voru líka gerðar bíómyndir. Fyrsta bók Moore sem komst á Booker-listann var The Doctor’s Wife, sem kom út 1976, en internetslúður segir mér að einn valdamikilla dómnefndarmeðlima, Mary Wilson, eiginkona forsætisráðherrans Harold Wilson, hafi heimtað að hafna bókinni vegna berorðra kynlífslýsinga. Moore ku hafa verið í uppáhaldi hjá mörgum skáldbræðrum, Anthony Burgess setti til að mynda The Doctor's Wife á lista yfir bestu skáldsögur eftirstríðsáranna.

The Doctor’s Wife segir frá Sheilu Redden, sem yfirleitt er kölluð Mrs. Redden, sagan er sögð í þriðju persónu. Hún er afar miðaldra eiginkona skurðlæknis í Belfast, 37 ára og settleg, bókhneigð, kaþólsk fyrirmyndarkona og móðir unglingsdrengs. Hún heimsækir vinkonu sína í París og ætlar síðan að hitta eiginmanninn í Villefranche á sama hótelherbergi og þau dvöldu á í brúðkaupsferðinni, þar ætla þau að halda upp á brúðkaupsafmæli. En allt fer á annan veg en planað er, Sheila Redden kynnist tíu árum yngri nýdoktor frá Ameríku og hann kolfellur fyrir henni og eltir hana til Suður-Frakklands, sem verður til þess að frú Redden snýr ekki aftur til fyrra lífs.

Ég las þessa bók fyrir mörgum árum og fannst hún ágæt. Á svipuðum tíma tók ég skorpu í höfundunum sem Hallgrímur Helgason (í bókmenntatímaritinu Stínu 2/2012) kallar „ensku kynslóðina sem allir lásu í den,“ Barnes, McEwan, Amis o.fl. og ég nældi Brian Moore í huganum við þessa höfunda. En eftir endurlestur bókarinnar um eiginkonu læknisins er hann ekki lengur í „þeirra hópi“ í mínum huga. Nú er ég auðvitað að einfalda með því að spyrða saman höfunda en lýsingar Brian Moore á nánum samskiptum kynjanna finnst mér í öðrum tóni en maður nemur oft hjá fyrrnefndum Bretum, sem Hallgrímur telur þjakaða af þrúgandi æskubælingu og gömlum standpínum og segir það einkum koma fram í efrivararsveittum tóni í umfjöllun um konur ást og kynlíf.

Villefranche-sur-Mer
Mér finnst með með ólíkindum að The Doctor's wife gerist á áttunda áratug síðustu aldar, sögusviðið og samskiptin minna á fjarlægari fortíð. En fyrir utan að stöðugt er verið að panta millilandasímtöl þá er aðalpersónan auðvitað rammkaþólskur Íri og fædd einhvern tíma fyrir seinni heimsstyrjöld svo ekki er við því að búast að hún sé  blómabarn. Ástandið á Norður-Írlandi skiptir miklu fyrir gang sögunnar. Doctor Redden tjaslar saman fólki sem orðið hefur fyrir sprengjuárásum, stríðsástandið í Belfast og ástandið á hjónabandinu endurspegla hvað annað því læknirinn reynir líka að tjasla saman hjónabandi sem ekki reynist síður erfitt en að sauma saman tætt og blóðugt hold.

Persónulýsingarnar í þessari fremur dapurlegu bók eru misgóðar. Mér fannst vænt um Sheilu Redden sem er samt frekar leiðinleg týpa en engu að síður sannfærandi í sínum ljóta frúarkjól með slæðuna svo blásið hárið ýfist ekki og funheiti elskhuginn er svolítið þokukenndur nema í kynlífslýsingunum þar sem hann framkallast. En svo eru nokkrar skemmtilegar aukapersónur í sögunni sem gætu verið kómískir senuþjófar í bíómynd.

Ég er frekar viðkvæm fyrir samtölum skáldsagnapersóna (það er erfitt að skrifa sannfærandi samtöl) og ekki síður fyrir kynlífslýsingum. En Brian Moore klúðrar hvorki samtölum né erótík og ég lenti ekki í neinu svipuðu og Hallgrímur nefnir í áðurnefndu greininni í Stínu þar sem hann segir að bæling höfundanna valdi því að: „Annaðhvort er nú öllu haldið kyrfilega klæddu eða reynt að rífa af því fötin með offorsi. Afleiðingin er sú að lesandanum líður gjarnan eins og hann sé kominn upp í rúm með Mr. Bean.“ Breskir höfundar sem Hallgrímur minnist á eru auðvitað ekki einir um að skrifa stundum einkennilegar kynlífslýsingar sem fara fyrir brjóstið á lesendum, íslenskir höfundar eiga líka sína spretti í furðulegum ríðingasamtölum. Mér dettur í hug nýleg íslensk bók þar sem persóna segir eftirfarandi setningu í samförum: „O, þú gerir mig brjálaðan, stelpan þín. Lumar á þessari æðislegu píku.“ Þarna má einmitt segja að ég hafi sem lesandi upplifað mig í rúminu með Mr. Bean, maður jafnar sig seint á svona löguðu! En samtölin í The Doctor's Wife eru sumsé ekki kjánaleg og ekki erótíkin heldur og lestur bókar Brians Moore minnti mig á hvað það er stundum gaman að endurlesa eitthvað sem maður las fyrir löngu og finna eitthvað annað en mann minnti að væri í bókinni. Það er að segja ef maður lendir ekki í bælinu með Mister Bean.

Engin ummæli: