10. maí 2013

Í skýjastræti

Einu sinni skrifaði ég bloggfærslu um Ástralíubækur og Ástralíublæti mitt. Rúmu ári síðar var ég svo óstjórnlega heppin að fá að ferðast til þessa lands í fjarskanum (fann því miður ekki edikslyktandi Bill Bryson-bókina enda búin að flytja nokkuð oft síðan hún féll í fötuna, sjá fyrri færslu) og þegar maður fer út í fjarskann hefur maður langan, langan tíma til að lesa margar, margar bækur. Og eins og margsinnis hefur sýnt sig eru fáir kaupendur skæðari en druslubókakvendi sem kemst í erlenda bókabúð ... the rest is history.

Ein af þeim bókum sem ég dröslaðist svo með heim í níðþungum farangrinum (nei, mig langar ekki í kyndil, mér þykir vænt um bækur og tel ekki eftir mér að flytja þær sextánþúsund kílómetra leið) var ástralski doðranturinn cloudstreet eftir Tim Winton, en í Ástralíu komst ég að því að Winton er einn af þeirra mest metnu samtímahöfundum og þykir cloudstreet eitt af hans bestu verkum. Þessi magnaða skáldsaga segir frá tveimur fjölskyldum sem eins og skolar upp í stórt og gamalt, hrörlegt hús í götu að nafni Cloud Street, en íverustaður þeirra fær fljótt á sig nafnið cloudstreet, líkt og það komi út þegar andað er frá sér. Sagan hefst í miðri heimsstyrjöldinni síðari; Pickles-fjölskyldan er í alvarlegum fjárhagskröggum eftir að spilasjúkur fjölskyldufaðirinn missir aðra höndina í vinnuslysi, fær þetta þungbúna hús í arf með ákveðnum skilyrðum og skiptir því í tvennt til að geta leigt út helminginn. Þangað flytur Lamb-fjölskyldan sem komin er til Perth úr smábæ þar sem meint kraftaverk reyndist ekkert kraftaverk; næstelsti drengurinn þeirra komst ekki heill frá slysi á krabbaveiðum og foreldrarnir Oriel og Lester leggja á eins konar flótta undan samfélaginu og fyrrum trúarhita sínum. Þessi tvennu hjón ásamt barnaskaranum flytja inn í húsið á Cloud Street sem er uppfullt af sársauka og óhugnaði fortíðarinnar. Húsið leikur mikilvægt hlutverk í frásögninni og verður á stundum eins konar yfirvitund, tekur virkan þátt í framvindunni og markar fjölskyldurnar síst minna en fjölskyldurnar húsið.

Tim Winton, dreyminn á svip
Í aðalhlutverki, auk þeirra Oriel og Lester Lamb og Sam og Dolly Pickles, eru þau Quick Lamb og Rose Pickles, en saga þeirra fléttast saman og þar með saga fjölskyldnanna tveggja, sem annars búa um árabil hlið við hlið og nánast heyra allt líf nágrannanna handan við þilið en ná þó ekki að tengjast. cloudstreet er ansi áhugaverð og vel heppnuð blanda af póstmódernisma og hefðbundinni fjölskyldusögu; við fylgjumst náið með lífi, ástum og örlögum fólksins á þeim tuttugu árum sem bókin spannar og finnum fyrir hinu sögulega samhengi, en frásagnaraðferðin er oft á tíðum óvænt, textinn er ljóðrænn og hleypur gjarnan út undan sér, og hið yfirskilvitlega leikur stórt hlutverk; stílinn mætti ef til vill kalla ástralskt töfraraunsæi. Bókin er oft á tíðum nærgöngul og frásögnin sár; Winton jaðrar stundum við að vera miskunnarlaus við persónur sínar en á sama tíma finnur maður hversu vænt honum þykir um þær. Höfundurinn var 31 árs þegar bókin kom út og hún markaði mikilvæg skil á ferli hans, þótti hans fyrsta fullþroska skáldsaga, en hann hafði þó skrifað í um áratug áður en að cloudstreet kom. Það kom mér gríðarlega á óvart að hann skyldi ekki hafa verið eldri þegar hún var skrifuð því það er einhver tilfinningalegur sem og stílrænn þroski yfir þessu öllu saman; einnig vakti það athygli mína hversu vel skrifaðar og trúverðugar kvenpersónurnar eru, allt frá stúlkunni Rose sem berst við að halda höfði gagnvart alkóhólisma móðurinnar og dáðleysi föðurins, til hinnar sérlunduðu Oriel Lamb sem þolir ekki lengur við inni í þrúgandi húsinu þar sem eilífðardrengurinn hennar horfir í gegnum hana og flytur sig því út í tjald í garðinum.

Ég vil eiginlega ekki greina þessa bók frekar né segja frá söguþræðinum í fínni dráttum; mæli einfaldlega með því að þeir sem áhuga hafa á áströlskum bókmenntum eða bara góðum samtímabókmenntum yfirhöfuð næli sér í eintak.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Ég held mjög mikið upp á þessa bók. Hefurðu lesið eitthvað meira eftir Winton? Ég er líka afar skotin í Ástralíu, menningunni þar og bókmenntundum og er alltaf á höttunum eftir góðum andfætlingabókum ;)

Ingibjörg Ágústsdóttir sagði...

Takk fyrir þessa grein. Við erum að lesa þessa bók nokkrar konur í enskubókaklúbbi, mér finnst hún frábær en er ekki alveg búin með hana enn. Festi svo kaup á DVD með þáttum sem gerðir voru eftir sögunni. Fyrir þá sem hafa gaman af áströlskum skáldsögum las ég eina frábæra í vetur sem heitir Light Between Oceans, eftir M. L. Stedman. Önnur góð heitir The Secret River eftir Kate Grenville.