18. maí 2013

Morð og arkitektúr og konur á Krímskaganum

Hvíta borgin: Á heimssýningunni í Chicago 1893
Undanfarið hefur frístundalestur minn mikið til snúist um fræðibækur og „bækur almenns efnis“ eins og það heitir á bókmenntaverðlaununum, en ég fór úr rússíbanareið Mary Roach um heim dauða og rotnunar yfir í skuggaveröld heimssýningarinnar í Chicago árið 1893. Kveikjan að því var bók um sögu Chicagoborgar sem ég las í námskeiði í vor, Nature´s Metropolis. Chicago and the Great West eftir William Cronon, sem ég var ansi hrifin af þótt um væri að ræða hagsögulegan doðrant, sem ég legg mig vanalega ekki mikið eftir. Cronon fjallar um þróun kapítalísks samfélags í Bandaríkjunum á síðari hluta 19. aldar og vöxt Chicago í samspili við landflæmið í vestrinu, með lifandi lýsingum á umbreytingu kátra svína í fryst og pakkað kjöt og áhrifum járnbrautarlestanna á tímaskynjun fólks, svo fátt eitt sé nefnt. (Í huga mér kölluðust svínakjötslýsingarnar á við skemmtilegustu kaflana í einni af jólabókaflóðsbókum síðasta árs, Landvættum eftir Ófeig Sigurðsson, þar sem litlir grísir, beikon og kæfa koma einmitt ósjaldan fyrir.)

Í lokakafla Nature´s Metropolis er sagt frá heimssýningunni sem haldin var í Chicago árið 1893 og var gríðarlega mikilvægur viðburður í sögu borgarinnar. Chicagobúar höfðu orðið fyrir miklu áfalli árið 1871, þegar bruni eyddi stórum hluta miðborgarinnar og hundruð manna dóu, en með heimssýningunni 1893 reis fönix Chicago úr öskunni og yfirburðir borgarinnar voru staðfestir á þessum tímum hins mikla kapphlaups bandarískra borga um stöðu „Næstu stórborgar“. Með heimssýningunni var Chicago einnig í samkeppni við París, en þar hafði verið haldin glæst heimssýning árið 1889 og Eiffelturninn byggður af því tilefni. Svar Chicago við Eiffelturninum var það sem á ensku er kennt við verkfræðinginn skapara sinn og kallað Ferris wheel, en af einhverjum kaldhæðnislegum ástæðum kenna norræn tungumál það við samkeppnisaðilann París og kalla parísarhjól.

Ég ákvað á dögunum að ná mér í aðra og léttari bók um heimssýninguna í Chicago, The Devil in the White City eftir Erik Larson, en hún hefur þann dramatíska undirtitil Murder, Magic, and Madness at the Fair that Changed America. Titillinn vísar til þess að hluti heimssýningarinnar var þekktur sem Hvíta borgin vegna hins ljósa yfirbragðs bygginganna, sem voru klæddar gifsi. The Devil in the White City segir tvær sannar sögur, annars vegar af tilurð og framgangi heimssýningarinnar og hins vegar af ferli raðmorðingjans dr. H. H. Holmes, sem stundaði iðju sína í borginni á svipuðum tíma.
Dr. H. H. Holmes, raðmorðingi.
Takið eftir hinum ísköldu, bláu augum.
Af byggingu bókarinnar að dæma grunar mig að Erik Larson hafi mikla ástríðu fyrir heimssýningunni 1893 og mönnunum sem að henni stóðu, og hafi ákveðið að flétta voðaverkum raðmorðingjans saman við til að lokka lesendur að þessu áhugamáli sínu. Eða kannski voru bara til miklu meiri heimildir um heimssýninguna en Holmes. Alltént eru kaflarnir um hann miklu styttri og víða þarf Larson að skálda rækilega í eyðurnar með lýsingum sem verða frekar þreyttar til lengdar, til dæmis á „ísköldum og bláum augum“ morðingjans. Larson fylgir jafnframt þeirri tísku að greina Holmes sem siðblindingja, á grundvelli þessara ekki mjög ítarlegu heimilda, en það er alltaf eitthvað svolítið sápuóperulegt við það.

Mér þótti bókin ekki beinlínis leiðinleg, en það er frekar óljóst af hverju Larson slær þessum tveimur sögum saman og sennilega væru þær betri sitt í hvoru lagi. Þá hefði sérstaklega umfjöllunin um kapphlaup arkitektanna við byggingu heimssýningarinnar og listrænan og hugmyndafræðilegan ágreining þeirra um verkefnið getað verið dýpri, en heimssýningin er út af fyrir sig mjög áhugavert fyrirbæri.

Þegar ég hafði lokið við The Devil in the White City tók ég upp aðra sögulega bók sem móðir mín færði mér frá útlöndum í vetur, No Place for Ladies. The Untold Story of Women in the Crimean War eftir Helen Rappaport. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bókin um konur í Krímstríðinu 1853-1856, en Krímstríðið hefur reyndar þá sérstöðu meðal stríða að ein fyrsta manneskjan sem manni dettur í hug því tengt er kona: konan með lampann, Florence Nightingale, enda kemur hún oft fyrir í bókinni. Auðvitað kemst maður að því við lesturinn að hún var ekki blíðlynd og umhyggjusöm móðurímynd, sem hefði varla lifað lengi í drullunni og blóðinu á Krímskaganum, heldur röggsamur og harðfylginn verkstjóri með skýrar hugsjónir um hjúkrunarstarfið.

Sú aðferð kvennasögunnar sem beitt er í No Place for Ladies hefur stundum verið kölluð „add women and stir‟ og þykir ekki mjög byltingarkennd í seinni tíð, það er að segja að auka hlut kvenna í sögunni með því að fjalla um nákvæmlega sömu hluti og áður nema bæta konunum við. Það er hins vegar fullmikil einföldun, því bara það að bæta konunum við hefur upp að þó nokkru marki áhrif á söguna sem sögð er, rétt eins og gin og tónik er umtalsvert betri drykkur en tónikið eitt og sér þótt engin efnahvörf eigi sér stað. Þannig fáum við aðra og breiðari mynd af hefðbundnum sagnfræðilegum viðfangsefnum á borð við Krímstríðið með því að beina sjónum að konunum sem voru viðstaddar.

Une cantinière
Þær konur sem fylgdu hernum á Krímskagann tilheyrðu einkum þremur hópum; þær voru eiginkonur hermanna, hjúkrunarkonur eða það sem Rappaport kallar „lady tourists‟, konur af góðum ættum sem heimsóttu stríðsvöllinn eins og hvern annan ferðamannastað – sátu jafnvel á sérstökum útsýnisstöðum ásamt fleira efristéttarfólki, með nesti í tágakörfu og fylgdust með blóðbaðinu gegnum kíki. Rappaport fjallar aðallega um breskar konur en af og til varpar hún líka ljósi á störf franskra og rússneskra kvenna í stríðinu. Franska hernum fylgdu svokallaðar cantinières, sem seldu hermönnunum mat og drykk og veittu stundum fyrstu hjálp á vígvellinum. Þær klæddust einkennisbúningi, oft buxum, sem vakti töluverða hneykslun meðal Bretanna.

Staða kvennanna sem fylgdu breska hernum var erfið; í orði kveðnu mátti lítill hluti eiginkvenna hermannanna fylgja þeim í stríðið en yfirvöld gerðu lítið til að sjá fyrir þessum hópi og alltaf slæddust fleiri konur með en upprunalega var ákveðið. Þær áttu það því til að verða strandaglópar í fjarlægum löndum, oft orðnar ekkjur með lítil börn og ekkert formlegt hlutverk innan hersins. Þetta var sérstaklega slæmt fyrsta veturinn sem herinn var á Krímskaganum, en lýsingar Rappaport á því hversu illa undirbúin sú veturseta var eru hræðilegar.

Aðbúnaður hermannanna og eiginkvenna þeirra skánaði eftir því sem leið á stríðið, og þá komu líka hjúkrunarkonurnar til skjalanna. Það var ekki öfundsvert að vera í því hlutverki að skipuleggja hjúkrunarstarf á Krímskaganum, eins og Florence Nightingale var. Hún átti í sífelldum vandræðum með hjúkrunarkonurnar sínar og hafði mjög ákveðnar skoðanir á því hvaðan þær ættu að koma. Efri stéttar konur taldi hún gagnslausar því þær væru svo viðkvæmar og þyldu ekki þá erfiðleika sem starfinu fylgdu. Hún hafði ímugust á nunnum, sem hefðu meiri áhuga á sáluhjálp sjúklinganna en líkamlegum bata þeirra. Hún vildi því helst ráða hjúkrunarkonur af verkamannastétt, en þær höfðu hins vegar tilhneigingu til að vera drykkfelldar (og lái þeim hver sem vill, miðað við lýsingarnar á aðstæðum). Ástæðurnar fyrir þeirri persónulegu næturvöktun sjúklinganna sem varð kveikjan að viðurnefni Florence Nightingale, „konan með lampann‟, segir Helen Rappaport hafa verið að hún vildi koma í veg fyrir að hjúkrunarkonurnar hefðu ósiðsamleg samskipti við sjúklingana og bannaði þeim því að vinna á sjúkrastofunum eftir klukkan hálfníu á kvöldin.

Mary Seacole
Bók Rappaport er skemmtileg og prýðilega skrifuð. Þetta er ekki óhefðbundin sagnfræði – línuleg frásögn af nafnlausum fjölda og nokkrum nafngreindum aðalpersónum – en innan þess ramma er hún áhugaverð. Við fáum annan vinkil á stríðið og hversdaginn á Krímskaganum og hinar nafngreindu aðalpersónur eru sumar hverjar óvenjulegar, til dæmis hin hörundsdökka Mary Seacole sem ættuð var frá Skotlandi og Jamaica og sigldi á eigin vegum til Krímskagans til að helga sig störfum á mörkum hjúkrunar og veitingareksturs. Nýlega hafa skapast deilur um það í Bretlandi hvort Mary Seacole sé nógu merkileg til að vera í sögukennsluefni í skólum eða hvort það sé merki um pólitíska rétthugsun að troða henni þar að; hún hafi ekki gert annað en að selja breskum hermönnum brennivín og ef til vill dálítið ópíum til að lina þjáningar niðurgangs og kóleru. En ætli það telji ekki líka í hinu stóra samhengi?

Engin ummæli: