8. september 2013

Tuttugasti og annar nóvember árið 1963: saga um siðferðislegar víddir tímaflakks, morðið á JFK og ástina við undirleik stórsveitar Glenns Miller

Í sumar uppgötvaði ég hversu dásamlegt fyrirbæri hljóðbækur eru, en sá höfundur sem helst má þakka þessa uppgötvun mína er Stephen King. Bækurnar hans eru fullkomnar til hlustunar, líklega vegna þess að hann er svo góður sögumaður. Hann gleymir sér sjaldnast í stílþrifum, en skapar aftur á móti afar eftirminnilegar persónur og áhrifamiklar sögur. King er kannski þekktastur fyrir að hafa vera höfundur einhverra bestu hryllingssagna sem skrifaðar hafa verið, en ein besta bókin sem ég hef lesið (og hlustað á) eftir hann tilheyrir í raun ekki þeirri bókmenntagrein, þótt óhugnaðurinn sé oft skammt undan. Þessi bók heitir 11.22.63 og er vísindaskáldsaga sem kom út árið 2011.

11.22.63 fjallar um Jake Epping, enskukennara frá Maine, sem er beðinn um að taka að sér afar óvenjulegt verkefni: það að ferðast aftur í tíma og koma í veg fyrir morðið á John F. Kennedy. Það er hamborgarabúllueigandinn Al Templeton sem biður Jake vinsamlegast um taka þetta að sér, en hann lumar á tímagátt bakatil á veitingastaðnum sínum sem færir mann aftur til ársins 1958. Þá er í raun hægt að dvelja í fortíðinni mínútum, mánuðum eða jafnvel áratugum saman, en þegar maður snýr aftur – mögulega orðinn grár af elli – hafa aðeins tvær mínútur liðið í nútíðinni. Al hefur undirbúið þetta verk lengi og nákvæmlega (hann afhendir Jake mikinn bunka af upplýsingum um Lee Harvey Oswald), en er orðinn of gamall og lasinn til að vinna það sjálfur. Þar af leiðandi vill hann að Jake fari um gáttina fyrir sig, staldri við í fortíðinni í nokkur ár og breyti svo gangi sögunnar, mögulega á afdrifaríkan hátt. Þetta er eitt áhugaverðasta viðfangsefni sögunnar; hvaða áhrif hafa smávægileg afskipti, nú eða gríðarlega stórt inngrip eins og að koma í veg fyrir morð á forseta, á það sem gerist síðan?

Trúðurinn Pennywise er stoltur íbúi Derry.
King lagðist í mikla rannsóknarvinnu áður en hann fór að lýsa Bandaríkjunum uppúr miðri síðustu öld, en það gerir hann afskaplega vel. Það gætir ef til vill svolítillar nostalgíu á köflum – maturinn bragðast betur, fólk treystir öðrum frekar, o.s.frv. – en hann fellur þó ekki í þá gryfju að gleyma neikvæðum hliðum tímabilsins, eins og til dæmis því lagalega misrétti sem blökkufólk bjó við. Jake ritar sjálfur söguna, sem verður hálfgerð ferðasaga í tíma og rými, en hann ferðast ekki aðeins um bandarískt samfélag sjötta og sjöunda áratugarins. Hann kemur líka við í skáldaða bænum Derry, sögusviði bókarinnar It, sem er með þekktari verkum Kings. Þar sem Jake er líka staddur í sögutíma It (árið 1958), hittir hann meira að segja tvær aðalpersónur bókarinnar og spjallar við þær. Þeir kaflar sem gerast á þessum óhugnanlegu slóðum ættu því að vera sérstaklega ánægjulegur lestur fyrir aðdáendur.

John F. Kennedy, forseti
Bandaríkjanna 1961–1963
Bókin hlaut afar góðar viðtökur þegar hún kom út fyrir tveimur árum og það kemur ekki á óvart, hún er alveg ótrúlega vel skrifuð og flott heild. Inn í söguna af Jake og JFK, sem mætti kalla hvort tveggja vísindaskáldskap og sögulega spennusögu, fléttast ástarsaga sem er afar áhrifamikil. Allir vita að sambönd í skugga tímaferðalaga geta orðið alveg hrikalega flókin og dramatísk, en þessi ástarsaga er sérstök og ljúfsár eins og fortíðarþráin sem einkennir bókina á köflum. Ég verð að viðurkenna að ég varð óróleg þegar vel var liðið á bók vegna þess að ég sá ekki alveg hvernig hægt væri að ljúka sögunni, hnýta alla enda almennilega. Svo kom í ljós að endirinn er með því besta við söguna og töluvert frumlegri en þeir mögulegu endar sem ég hafði gert mér í hugarlund. Það er alveg frábært þegar svoleiðis gerist, þegar allt gengur upp. King þakkar syni sínum, rithöfundinum Joe Hill, sérstaklega í lok bókar fyrir ráðleggingar hans um að breyta endi bókarinnar – ég veit ekki hversu drastískar þær breytingatillögur voru, en þetta virkar allavega vel hjá þeim feðgum.

Að lokum vil ég að þið hlustið á þetta lag. Af því að það skapar mjög heillandi stemmingu í sögunni, en líka af því að það er bara svo skemmtilegt.


1 ummæli:

Birgitta sagði...

Svo innilega sammála. Hann kom mér verulega á óvart þarna "kóngurinn".

Frábær bók og ég myndi mæla með því að hlusta, ekki lesa hana.