25. apríl 2016

Hús búa í mönnum: Viðtal við Þorvald Sigurbjörn Helgason

húsið kunnuglegt
gatan framandi
sprungin steypan
berar saumana
andlitin í glugganum
löngu horfin
glittir í það sem var skilið eftir

Síðan í febrúar hafa Druslubækur og doðrantar birt regluleg viðtöl við skáld sem gáfu út ljóðabækur á síðasta ári. Á síðustu dögum komu hins vegar út fjórar splunkunýjar ljóðabækur, þrjár hjá Meðgönguljóðum og ein hjá Bjarti, og er skáldunum hér með kippt inn í viðtalaseríuna med det samme. Fyrsti viðmælandi okkar úr þessum hópi er Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, sem gaf út ljóðabókina Draumar á þvottasnúru hjá Meðgönguljóðum, en úr henni er ljóðið í vesturbænum sem birtist hér í upphafi.
  
Sæll Þorvaldur, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal, og til hamingju með nýju bókina! 

Takk sömuleiðis! Ég hef aldrei áður farið í viðtal út af eigin ljóðum þannig ég tek enga ábyrgð á því ef það sem ég segi er algjört kjaftæði.

Þetta er þín fyrsta bók en þú hefur líka skrifað smásögur og ert útskrifaður af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Hvað gera sviðshöfundar og hvernig er það frábrugðið ljóðlistinni? 

Sviðshöfundar eru stétt innan sviðslista sem er soldið illskilgreinanleg. Við gerum bæði allt og ekkert, erum miðja vegu milli þess að vera leikstjórar og performerar (en það fer náttúrulega eftir listrænni áherslu hvers og eins). Ég útskrifaðist úr Listaháskólanum sumarið 2015 og byrjaði í meistaranámi í ritlist haustið sama ár þannig ég hef aðallega einbeitt mér að skrifum undanfarið ár. Í þeim verkefnum sem ég hef unnið í sviðlistum hef ég oftast unnið með einhvern texta en það að skrifa texta fyrir svið (í víðustu merkingu þess orðs) er gjörólíkt því að skrifa ljóð. Í ljóði eru orðin það eina sem skiptir máli og textinn stendur og fellur með sjálfum sér á meðan leiktexti er miklu meira eins og leiðbeiningar og lifnar í rauninni ekki við fyrr en í sviðsetningunni.

Hvenær byrjaðirðu að skrifa ljóð og hvernig kom það til að þú ákvaðst að senda handrit til Meðgönguljóða? 

Ég hef verið skrifandi frá því ég man eftir mér, elsti textinn sem er til eftir mig er hálf-súrrealískur ljóðtexti sem ég samdi 5 ára gamall og ber titilinn Skrýtni bíllinn. Ég byrjaði reyndar ekkert að skrifa ljóð markvisst fyrr en fyrir nokkrum árum en það blundaði alltaf í mér einhver ljóðaþörf sem er kannski soldið skrýtið þar sem ég hafði lengi vel engan áhuga á að lesa ljóð. Ég varð fyrst var við Meðgönguljóð fyrir u.þ.b. þremur árum og heillaðist af starfseminni og konseptinu í kringum útgáfuna og ég hugsaði strax með mér að mig langaði að gefa út hjá þeim einn daginn. Í mars 2014 setti ég svo sjálfum mér þá áskorun að skrifa ljóð á hverjum degi í mánuð og í kjölfarið tók ég saman það skásta úr því ferli (ásamt öðru), reyndi að raða því upp í einhverja heild og sendi á ritstjórnina.

Ljóðin í Draumar á þvottasnúru eru bernskuminningar sem flestar eru bundnar við ákveðna staði; þetta eru minningar um liðinn tíma en tengjast jafnframt rýminu, staðnum, og því hvernig þetta tvennt spilar saman. Bernskuminningar eru ekki það fyrsta sem manni dettur í hug sem algengt umfjöllunarefni skálda sem eru bara hálfþrítug - maður tengir þær oft frekar því þegar fólk er orðið eldra og byrjað að líta til baka - hvað er það við þetta viðfangsefni sem kallaði á þig? 

Mér hefur alltaf fundist minnið vera soldið furðulegt verkfæri. Ég er með frekar lélegt minni og á t.d. fáar skýrar minningar frá barnæsku minni. Hinsvegar finnst mér mjög áhugavert hvernig minningar geta tengst ákveðnum stöðum og hvernig staðir geta framkallað minningar bæði með því að heimsækja þá og einfaldlega með því að ímynda sér þá. Þegar ég skrifaði fyrsta uppkastið af titilljóðinu voru foreldrar mínir tiltölulega nýbúin að selja húsið sem ég ólst upp í í Grafarvogi og þegar ég byrjaði svo að vinna handritið með ritstjóra var ég nýfluttur í annað sinn. Mér finnst eitthvað ljóðrænt við það hvernig fyrrum heimili geta lifað áfram í minningunni þó að húsin sjálf séu gjörbreytt og jafnvel ekki lengur til. Það er oft talað um að maður skilji eitthvað af sjálfum sér eftir á stöðum þegar maður flytur en ég held að maður taki alveg jafn mikið með sér. Ég tengi allavegana mjög mikið við orð Sigfúsar Daðasonar: „Menn búa í húsum/hús búa í mönnum“.

Og hvernig koma draumarnir inn í þetta - eru minningar fyrst og fremst draumar? 

Hjá mér er það er eins með drauma og bernskuminningar, ég man þá yfirleitt ekkert sérlega vel. Það sem stendur eftir er yfirleitt fátt annað en nokkrar þokukenndar myndir og glefsur úr einhverri sundurlausri atburðarás. Reyndar er ákveðið þema sem skýtur upp kollinum aftur og aftur í draumunum mínum, einhverskonar leit þar sem ég ferðast í gegnum borgarlandslag sem mér líður eins og ég hafi heimsótt áður jafnvel þótt ég geti ekki borið kennsl á staðhætti þess.

Hvernig ljóð höfða mest til þín sjálfs - stíllega og efnislega? 

Ég hrífst sérstaklega af ljóðum þar sem myndrænir eiginleikar koma saman við persónulega nálgun, þegar skáldið nær að samtvinna myndmál og persónulegar tilfinningar sínar. Einnig er ég mjög hrifinn af því þegar skáld geta fjallað um hversdagslega og svo til ómerkilega hluti og glætt þá lífi, Óskar Árni er sennilega einna færastur í því hér á landi. Að sama skapi finnst mér það líka mjög göfugt þegar skáld ná að tjá sem mest í sem fæstum orðum.

Í samræmi við hefðir Meðgönguljóða, sem þegar hafa komið nokkuð við sögu í ljóðskáldaviðtölunum hér á síðunni, gekkst þú frá handritinu í samvinnu við ritstjóra, Hauk Ingvarsson. Hvernig gekk ritstjórnarferlið og hvernig var þín upplifun af því? 

Það var ótrúlega lærdómsríkt að vinna með Hauki. Ég hafði í raun aldrei kafað svo djúpt ofan í eigin ljóð áður og Haukur benti mér oft á hluti sem mér höfðu fullkomlega yfirsést en voru mjög augljósir eftir á að hyggja. Stór partur af ferlinu fólst í að endurskrifa upphaflegu textana samhliða því sem ég vann að nýju efni og undir lokin voru flest ljóðanna orðin gjörbreytt frá því sem ég sendi upphaflega inn. Sem unglingur var ég með einhverja rómantíska hugmynd um að ljóð væru eitthvað sem maður hripaði niður í stílabók í skáldamóki þegar andinn kæmi yfir mann og mætti bara skrifa í einni atrennu. Það var í raun ekki fyrr en ég byrjaði að vinna með Hauki að ég komst að því hvað það að endurskrifa og vinna textana sína áfram er mikilvægur partur af ferlinu. Ég væri samt að ljúga ef ég segði að þetta hefði verið auðvelt og það komu alveg tímabil þar sem ég var kominn á fremsta hlunn með að henda öllu saman í ruslið. Ég gerði það nú sem betur fer ekki en handritið sem kom út er allt annað en það sem ég sendi inn og í rauninni er bara eitt ljóð sem hélst tiltölulega óbreytt í gegnum ferlið.

Þú sagðir frá því á útgáfuhófi bókarinnar að móðir þín, Ragnheiður Lárusdóttir, hefði líka fylgst vel með skriftaferlinu og lesið yfir - og henni er bókin tileinkuð. Þess vegna dettur mér í hug að spyrja: Hvernig er að eiga í slíkri samvinnu við móður sína þegar þú ert að skrifa ljóð sem fjalla að miklu leyti um bernsku þína? Kom henni einhvern tímann á óvart hvernig þú varst að vinna úr tíma og rými sem þið upplifðuð væntanlega saman en munið kannski á ólíkan hátt? 

Það er kannski ekki alveg rétt að segja að ljóðin fjalli um bernsku mína. Mörg þeirra eru vissulega tengd minningum og stöðum en þau eru samt sem áður að mestu leyti skáldskapur. Ég reyndi að fanga ákveðna tilfinningu og andrúmsloft sem ég upplifði þegar ég hugsaði um tiltekna staði úr mínu lífi. Það var mjög þægilegt að geta leitað álits hjá mömmu og einnig pabba þegar ég mundi ekki eitthvað nógu vel sem tengdist stöðunum þótt ég færi svo kannski soldið frjálslega með staðreyndir. Nokkur ljóðanna tengjast svo stöðum sem ég þekki alls ekki, jafnvel skálduðum. Mér finnst t.d. oft mjög gaman að pæla í því hvað hefur átt sér stað í ókunnugum húsum gegnum tíðina, reyna að ímynda sér sögu húsanna og fólksins sem þar lifði eingöngu útfrá því hvernig þau birtast manni sýnum.

Heldurðu áfram að skrifa ljóð? Megum við eiga von á annarri ljóðabók - verður hún þá frábrugðin þeirri fyrri? 

Ég er kominn með allt aðra sýn á ljóð eftir þetta ferli, þetta var hálfpartinn eins og að ganga í gegnum einskonar ljóðaskóla. Maður lokar sig af til lengri tíma og sökkvir sér ofan í textana en svo þegar maður heldur að maður sé búinn að læra allt og orðinn svaka klár þá þarf kennarinn (í þessu tilfelli ritstjórinn) ekki nema að spyrja nokkurra spurninga til að sprengja upp allt. En ég er allavegana útskrifaður núna og því eins gott að halda áfram. Ég er byrjaður að vinna í nýju efni og kominn með hugmynd að allavegana tveimur öðrum bókum. Ég vil ekki segja of mikið en sú næsta verður ef til vill ennþá persónulegri.

Druslubækur og doðrantar þakka Þorvaldi fyrir viðtalið og birta hér í lokin annað ljóð úr bókinni, Ólgusjór.

Ég vaknaði í morgun
Úfinn, grár og gugginn
við nístandi garg mávsins á náttborðinu mínu
Úfinn, grár og gugginn
leit ég út og sá hafið
Úfið, grátt og guggið

Með brimrót í hári
þang í skeggi
og hrúðurkarla í augum
lagðist ég aftur í rúmið og reyndi að skríða inn í skelina
en úrillur vindurinn feykti mér fram úr
og skildi hafsbotninn eftir undir sænginni

Engin ummæli: