28. maí 2016

Ekki pláss fyrir þagnir og umhugsun: Viðtal við Ásgeir H. Ingólfsson

Stelpan sem vill ekki sofa hjá þér getur kennt þér að semja ljóð
Pabbi þinn getur kennt þér að semja ljóð
Yfirmaðurinn sem rak þig getur kennt þér að semja ljóð

En ekkert þeirra gerir það

Það er hins vegar strákurinn sem lamdi þig í tíunda bekk sem kenndi þér að semja ljóð

Það var hann sem kenndi þér að þú yrðir að berja til baka
Það var hann sem kenndi þér að það yrði ekki nóg
Það var hann sem kenndi þér að þú myndir samt tapa

Það var hann sem samdi þetta ljóð með blóðugum hnúunum á meðan þú lést þig dreyma um sætustu stelpuna á ballinu

Það er hann sem stendur hérna núna og les öll ljóðin sem hann fann í skólatöskunni þinni

Ljóðskáldaviðtal helgarinnar er við Ásgeir H. Ingólfsson, sem sendi frá sér sína aðra ljóðabók, Framtíðina, síðastliðið haust. Úr fyrsta hluta hennar er ljóðið Kennslubók í ljóðlist.

Hæ, Ásgeir, takk fyrir að koma í viðtal! Kennslubók í ljóðlist er eitt af mínum uppáhaldsljóðum úr bókinni. Er þetta þín sýn á ljóðlistina? Er hún þetta asnalega sem við látum berja okkur fyrir, eftir að hún hefur fundist í skólatöskunni okkar, og þurfum við þessar barsmíðar til að geta haldið ástundað hana? 

Þessi bók varð eiginlega til þegar ég frelsaðist frá minni eigin sýn. Þá er ég ekki að segja að sú sýn sé ekki þarna, hún er örugglega þarna einhvers staðar, heldur frekar að ljóðmælandinn er miklu síður „ég“ heldur en í fyrri bókinni – þessi bók er held ég að mestu laus við veigðarorð og varnagla – hún varð til þegar ég fann einhverja rödd sem ég hafði ekki fundið áður, miskunnarlausa rödd – rödd sem kom til mín á rigningarnóttu þegar megnið af bókinni varð til, ekki öll bókin en einhver grind sem ég smíðaði svo utan um.

Ég veit það hljómar mögulega óhóflega mystískt og rómantískt að röddin hafi komið til mín – en það var frekar röð skringilegra atburða sem varð til þess að hún bankaði uppá. Ég tileinka bókina pabba fyrir að hafa kennt mér að sjá inní framtíðina – og það eru engar ýkjur. Pabbi er kominn með minnisglöp – þegar Ísland hrundi þá hrundi minnið hjá pabba – og svo var það einn laugardagsmorgun sem ég lenti óvænt í því að passa pabba minn, ennþá með skemmtistaðasleik gærkvöldsins í blóðrásinni, og þessi sólarhringur var eitthvað svo stórkostlega á skjön við allar fyrirframhugmyndir mínar um lífið að það sprengdi alls konar stíflur í hausnum á mér. Svo fundum við fyrir tilviljun 30 ára gamlan sjónvarpsþátt á netinu þar sem Ómar Ragnarsson er að tala við systur pabba og manninn hennar um draugagang í Grímsvötnum – þau hjónin voru nýlega látin þarna – svona til að fullkomna stemmninguna.

En varðandi spurninguna sjálfa – þá hef ég raunar aldrei aldrei pælt í henni beinlínis – einmitt út af því ég leyfði þessari rödd að ráða. En það er óvitlaust að pæla í henni núna. Sko ... við látum fæst berja okkur, ljóðskáldum finnst held ég almennt ekkert gott að láta berja sig frekar en öðrum. En það gerist nú bara stundum samt. Skólalóðir eiga það til að vera hálfgerður vígvöllur – og einelti er kannski fyrst og fremst þöggun. Það er verið að reyna að berja orðin úr manni, ná valdi á orðræðunni með hnefunum – og ljóðið hefur örugglega alltaf ómeðvitað verið fyrir mér tilraun til að fá málið aftur. Þeir sem eru barðir í grunnskóla eru ekki barðir fyrir eitthvað sérstakt, þeir eru bara barðir fyrir að vera þeir sjálfir – það gilda engar reglur, einelti fylgir engum leiðbeiningarbæklingum – þótt það séu nógu margar mýtur um það hvaða týpur lenda í einelti þá eru þær mýtur bara kokkaðar uppúr ýkjunum sem þeir sem beita einelti nota sem réttlætingu. „Þeir sem beita einelti“ – það er eiginlega galið að íslenska eigi ekki almennilegt orð yfir bully. Það er eitthvað í þessu sem ég hef aldrei almennilega fest fingur á – einelti er bara eitthvað sem gerist í einhverju tómarúmi. Það er sérstakt að bera íslensku og ensku saman með þetta – annað tungumálið er blint fyrir gerendunum og hitt tungumálið talar bara um gerendurna og er blint fyrir því að þetta geti verið kerfislægt.

Kannski er þetta miklu forneskjulegra en við höldum, þeir sem geta skrifað skrifa og þeir sem geta barið berja – og þegar við eldumst færist hnefarétturinn bara til og peningarnir ráða. Það eru sjaldnast þeir sem eru flinkir með orð sem ráða orðræðunni – það er hnefarétturinn sem ræður því oftast, hvort sem það er bókstaflega á skólalóðinni eða í nafni skattaskjólsmilljóna seinna meir.

En þurfum við þessar barsmíðar til að geta ástundað hana? Ég hef dálítið verið að pæla í þessum frasa hans Nietzsche gamla, „Það sem drepur okkur ekki gerir okkur sterkari,“ sem mér finnst alveg skelfilega vondur. Þótt það sé alveg sannleikur í honum – mótlæti getur alveg hert mann og beint manni inná forvitnilegar brautir – en þegar allt kemur til alls þá verðum við bara aðeins veikari og aumari og uppburðarminni við flest mótlæti. Þetta er líka hættuleg hugmynd – og getur verið ágætis réttlæting á ofbeldi og aðgerðarleysi. Ég rambaði á eitt af þessum sturluðu Moggabloggum – og smellti af forvitni á prófíl bloggarans. Þessi stutta ævisaga var óttaleg þrautaganga, en það sem stakk mig mest var samt þessi setning hér: „Þá voru engar félagsþjónustur til; fólk varð bara að bjarga sér.“

Þarna er klisjan hans Nietzsche komin á endastöð, í staðinn fyrir að berjast fyrir að bæta heiminn til að gera öðrum lífið bærilegra þá er betra að allir þurfi að lifa sama strögglið, allir séu hertir á sama hátt. Þetta er upphafning strögglsins – og sú upphafning er hættuleg, býr til jarðveg fyrir ofbeldi og tillitsleysi og eyðileggur hvatann til þess að laga hlutina.

En þessi hugmynd er líka sammannleg, ég hef örugglega hugsað þetta einhvern tímann líka sjálfur – við eigum nefnilega dálítið erfitt með framtíðina, erfitt með þá tilhugsun um að þeir sem búi í framtíðinni þurfi ekki að ganga í gegnum það sama og við gerðum í fortíðinni. Það er erfið tilhugsun á einhvern einkennilegan hátt – við erum fortíðarfíklar og þess vegna þarf ljóðabækur um framtíðina svo við getum afeitrað okkur.

Mörg ljóðanna í bókinni eru prósaljóð sem eru jafnvel á mörkum ljóða og sagna. Hvernig hugsarðu formið á ljóðunum þegar þú skrifar þau?

Ég hugsa ekki formið á ljóðunum þegar ég skrifa þau, satt best að segja. En það er helst takturinn sem ræður því að þetta eru mest prósaljóð, takturinn er óðamála, það eru ekki pláss fyrir þagnir og umhugsun – það er hvergi tækifæri til að grípa fram í fyrir ljóðmælandanum. Þessi ljóðmælandi sér framtíðina og hann leyfir okkur ekki að komast upp með neitt múður.

En svo eru líka nokkur rólegri og rómantískari prósaljóð þarna – og þau eru líklega með eldri textunum í bókinni – þau eru öll ort af Hannibal vini mínum, sem er afskaplega fágaður og sjóaður heimsmaður. Hann er að vísu ekki til nema í ókláruðu ferðasöguhandriti, hann var hugsaður sem afskaplega kúltíveruð útgáfa af Tyler Durden – sá sem gerir allt það sem ferðafélagi hans – ég – myndi gera ef hann væri ekki svona mikill lúði.

Svo komst ég að því þegar ég vann bókina að þessi tvö alter-egó mín, Hannibal og sjálfumglaði heimsendaspámaðurinn, eiga bara svona fjandi vel saman, þannig að ég ákvað að leyfa þeim bara að kveðast á á meðan ég hélt mig á hliðarlínunni.

Bókin heitir Framtíðin og er skipt í þrjá hluta: Fortíðina, Nútíðina og Framtíðina. Og Framtíðin er satt að segja frekar ógnvænleg, vísindaskáldsöguleg mynd af auðninni þegar við verðum búin að leggja heiminn í rúst – og eins og segir í ljóðinu Gleymdi framherjinn þá er það bara eina prósentið sem á framtíðina en hin níutíu og níu „bara nýtt nú með nýjum skuldum“. Hvernig hugsaðirðu byggingu bókarinnar í samhengi við framtíðarþemað sem einnig birtist í titlinum?

Titilljóðið kom mjög snemma, þessi spámannslega rödd – og ég kveikti fljótlega á því að það sem var forvitnilegast við þetta var tengingin á milli spámannsins og ljóðskáldsins. Uppruni þeirra er kannski ekki svo ólíkur – þeir spinna sögur yfir varðeldi, ýmist lygasögur eða getgátur um framtíðina – en munurinn er kannski helst sá að ljóðið hefur hægt og rólega orðið innhverfara og meira afsakandi á meðan spámaðurinn verður sífellt sannfærðari um sannleikann. Mig langaði að leyfa ljóðinu að prófa þessa spádómsgáfu, sjá hvort það gæfi því aðeins meira sjálfstraust.

Þegar á leið þróaðist svo framtíðarpælingin í ákveðið sjónarhorn – við erum vön að skilja fortíðina sem eitthvað sem gerðist og nútíðina sem eitthvað sem er að gerast – en fólk í fortíð sem og nútíð er alltaf að hugsa um framtíðina, í sögubókum og sögulegum skáldsögum og fréttum verður fólk iðulega það sem það var eða það sem það er akkúrat núna – og það fjarlægir fólkið frá okkur sjálfum, sem tekst sjaldnast að lifa almennilega í núinu. Við vitum til dæmis alveg að Jóhanna af Örk var brennd á báli og að Wright-bræður fundu upp flugvélina og við, tja, við þykjumst vita hvernig þeirra heimur var. En hvernig sjá þau okkar heim fyrir sér? Hvað dreymdi þau um að gera, hvaða örlög dreymdi þau um önnur en þau sem sögubækurnar skipuðu þeim?

Framtíðin í fortíðinni og nútíðinni er því einfaldlega það að horfa fram á við, sem er, sérstaklega í fortíðinni, sjaldgæft sjónarhorn. Nógu sjaldgæft til þess að bara með því að beita því er merkilega auðvelt að skapa eitthvað nýtt.

Mörg ljóðanna eru mjög stað- og tímabundin – það mætti orða það þannig að það er mikið af sérnöfnum og örnefnum í þeim – en þessi ljóðheimur er alþjóðlegur, við stökkvum frá Jóhönnu af Örk á bálkestinum til fornbókasalans Miladin í Ljubljana til Alfredo sósugerðarmanns í Prag, og svo er Ísland búsáhaldabyltingarinnar þarna líka. Myndirðu segja að þetta væri einfaldlega eðlileg lýsing á alþjóðlegri heimsmynd og tilveru við upphaf 21. aldarinnar eða er þetta eitthvað sem þú gerir markvisst – að binda ljóðin niður á tilteknum stað og tímapunkti, til að draga upp mynd af einhvers konar ákveðinni stemmningu eða jafnvel sem pólitískt verkefni? 

Já, já og já. Ég held þetta sé eðlileg lýsing á heimsmynd og tilveru við upphaf 21. aldar – en það er alveg menningarpólitík í þessu líka. Íslenskar bókmenntir og fræði eru oft skelfilega bundnar Íslandi – þótt rithöfundarnir séu oftast vel sigldir – og ég held að það sé helst hvatakerfinu að kenna; íslensk styrkjakerfi leggja iðullega áherslu á hið þjóðlega, þjóðmenningin í ríkisstjórnarsáttmálanum var bara rökréttur endapunktur á þeirri stefnu. Markaðurinn virkar alveg eins; bækur fá frekar umfjöllun í blöðum ef þær hafa nógu þjóðlegan vinkil og sú vel heppnaða markaðssetning sem hefur verið unnin á íslenskri menningu gerir alltaf aðallega út á að hún sé íslensk; það er lítið pláss fyrir hið alþjóðlega í því mengi. Þetta er gamall vandi; ég man þegar ég las Laxness skamma uppáhalds tékkneska höfundinn minn, hann Karel Čapek, fyrir að segja honum ekki nógu mikið um Tékkland – í vísindaskáldsögu um risasalamöndrur sem fara í stríð við mannkynið.

Við hólfum menningu ansi mikið niður eftir löndum – sem er í sjálfu sér ekki verri flokkun en hver önnur – en það er alltof algengt að þessi flokkun stýri menningarpólitík líka – höfundum er umbunað fyrir að yrkja eitthvað sem selst vel í næstu lundabúð. Þegar bókabúðir miðbæjarins breytast í lundabúðir þá er nauðsynlegt að koma lágmarksfjölda af lundum í bækurnar.

Þetta er sjálfsagt sammannlegt að einhverju leyti, en eyþjóðin Ísland er óvenju slæm með þetta – RÚV er til dæmis miklu líklegra til að sýna ferðaþætti frá útlenskum sjónvarpsstöðvum um Ísland heldur en að sýna ferðaþætti Íslendinga í útlöndum. Svo erum við með heilt batterí sem heitir Íslandsstofa sem borgar erlendum blaðamönnum fyrir að koma til Íslands og skrifa um íslenska menningu – en það er nánast aldrei til peningur til að borga íslenskum blaðamönnum til að fara erlendis og fjalla um útlenska menningu.

En svo er þetta líka bara ég. Jafnvel þegar ég ætla að skrifa einhverja mjög heimakæra bók sem gerist öll á Íslandi þá endar hún samt einhvers staðar út í löndum – og ég með. Sem getur verið skemmtilegt – en gerir hins vegar bókaskrif miklu tímafrekari og dýrari en annars.

Mér sýnist á Leiti að þú hafir gefið bókina út samtímis á ensku, hvernig kom það til? 

Það passar. Það er auðvitað meðal annars hluti af þessari pólitík sem ég var að tala um – tungumálið er alveg hluti af því. Mér leiðist það þegar rithöfundar eru gerðir að einhverjum varðmönnum tungumálsins, það er einhver vafasöm upphafning í því – ég sé ósjálfrátt fyrir mér rithöfund með skírlífisbelti frá Árnastofnun – og þótt ég kunni ágætlega við íslenskuna þá skiptir hún sem slík mig í raun engu máli, það sem skiptir mig máli er tungumálið og galdrarnir í því, galdurinn í tjáskiptunum, í því að reyna að segja sögur eða miðla tilfinningum eða stemmningu eða einhverjum fjandanum – tungumál er fyrir mér einfaldlega tæki til að reyna að skilja heiminn, til að tala um hann, til að breyta honum, til að kynnast öðru fólki – og það skiptir mig engu máli hvaða tungumál það er – þótt málheimur þeirra allra sé vissulega mikilvægur. Þess vegna skrifa ég einfaldlega jöfnum höndum á þessum tveimur tungumálum sem ég kann nógu vel til að skrifa á. 

Svo spilar innbyggði lesandinn auðvitað þarna inní, ég bý úti og á mikið af útlenskum vinum – ég var orðinn leiður á því að segjast vera að skrifa og geta svo ekki sýnt þeim neitt sem þeir skildu. Svo safnaði ég fyrir bókinni á Karolina Fund og það snýst dálítið mikið um að bjóða öllum að vera með – og „allir“ eiga ekki bara að vera þeir sem kunna íslensku.

Hvernig hefur ljóðagerð þín þróast síðan fyrsta bókin þín, Grimm ævintýri, kom út árið 2010?

Hún þróaðist aðallega þannig að ég var hættur og byrjaði aftur! Grimm ævintýri varð til á miklu lengri tíma, þetta er safn ljóða sem urðu til jafnt og þétt á einhverjum fimmtán árum – og ástæðan fyrir því að ég var ekki búinn að gefa eitthvað af því út fyrir löngu var helst sú að mér fannst þau ekki passa saman í bók. Sem tengist kannski því að fyrir mér er ljóðið list augnabliksins, ef ég er með einhverja lengri og flóknari hugmynd þá vil ég frekar bara skrifa skáldsögu. Sem ég gerði svo eiginlega á endanum – skrifaði sögu sem rúmaði öll þessi ljóð, setti á svið ljóðasöngleik þar sem hvert ljóð fékk sér söngvara sem gat sungið ljóðið rétt.

En mér fannst ég tæmdur eftir að ég gaf hana út, í einhver ár eftir það skrifaði ég ekkert einasta ljóð. Reyndi stöku sinnum en fann að ég var kominn eitthvert annað, ég var ennþá að skrifa prósa en ljóðin voru löngu hætt að koma.

En svo voru þau þarna allan tímann, bak við þessa stíflu sem ég talaði um áðan. 

En ljóðin í Grimmu voru miklu innhverfari, en það glittir samt alveg sums staðar í Framtíðina þar, sú fyrri er frekar lágstemmd á meðan Framtíðin snýst frekar um að brýna raustina. Líklega er Framtíðin bara meira fokkjú.

Þú býrð í Tékklandi, ekki satt – fylgistu með ljóða- eða skáldaheiminum þar? Hvernig blasir íslenski ljóðaheimurinn við þér í samanburðinum? 

Ég bý í smábænum Tábor, ég þurfti smá einangrun til að klára lokaritgerð, en ég flyt í hasarinn í Prag í næsta mánuði – get örugglega svarað þessari spurningu betur þá! En þar sem ég hef ekki lært tékkneskuna almennilega ennþá þá er maður ennþá háður þýðingum – og þær eru auðvitað nokkrum árum á eftir. En ég hef verið duglegur að horfa á nýlegar tékkneskar bíómyndir – og þegar ég tala við Tékkana um þær þá eru þeir ekki nógu sáttir, finnst kvikmyndagerðarmennirnir ekki vera að segja nógu mikilvæga hluti – sem ég skil, mér finnst myndirnar ágætar en full átakalitlar. En tuttugasta öldin var ansi dramatísk í Tékklandi – og þeir eru kannski ennþá að reyna að fóta sig í þeim stöðugleika sem hefur ríkt undanfarin aldarfjórðung. Eftir heila öld af baráttu við keisaraveldi, nasisma og kommúnisma hefur maður stundum á tilfinningunni að þeir þurfi aðeins að átta sig á hver næsta barátta sé. En svo sér maður mynd á borð við Ég, Olga Hepnaróva sem er algjör sprengja. En ljóðin, ég finn bara gömlu ljóðin þýdd – þar er Vladimír Holan í uppáhaldi, þótt að nóbelsskáldið Seifert hafi vaxið nokkuð þegar ég frétti nýlega hvernig ljóðið Maminka grætti allar tékkneskar mömmur.

En vel að merkja, ég bjó í Englandi áður en ég flutti hingað – og þegar ég fór á ljóðakvöld þar var ég oftast langyngstur. Það myndi aldrei gerast heima, þar er ljóðlistin ungmennasport – og þótt Þorsteinn frá Hamri, Vilborg Dagbjarts og Siggi Páls haldi sig að mestu við ljóðið þá er miklu algengara að menn byrji á ljóðunum og fikri sig svo yfir í prósann. En það virðist alls ekki vera tilfellið í Englandi – þar upplifir maður ljóðið eitthvað sem er fjarlægt skarkala heimsins, óþægilega fjarlægt, það er flutt út í sveit og hætt að djamma. Heima finnur maður ljóðið helst á skítugum bar.

Þú gafst bókina út sjálfur og fjármagnaðir hana gegnum Karolina Fund, eins og fram hefur komið. Er það eitthvað sem þú myndir gera aftur?

Þetta var gaman en tímafrekt, þegar söfnunin var búinn hugsaði ég „aldrei aftur.“ En núna væri ég alveg til í að gera þetta aftur – maður þarf náttúrulega að pestera alla vini og kunningja eins og óður í mánuð – en þeir hafa flestir fengið frið frá mér síðan þá.

Þetta er hellings vinna – mögulega hefði ég getað fengið jafn mikið borgað fyrir að vinna á bar eða eitthvað í þann tíma sem ég eyddi í söfnunina – en Karolina Fund gaf mér auðvitað færi á að sinna þessu að mestu að utan – og koma svo heim og gefa út.

En þótt Karolina Fund sé ekki fullkomið þá er hægt að finna þar hugsunina sem vantaði fyrir hrun – við erum vön því að prenta fyrst og selja svo, eða selja ekki og sitja uppi með skuldirnar. Ég held þetta sé heilbrigðara – og þetta færir valdið aðeins frá styrktarsjóðum og bókaforlögum til lesenda, þeir ráða hvað verður að veruleika og hvað ekki.

Druslubækur og doðrantar þakka Ásgeiri fyrir viðtalið og ljúka því með ljóði úr síðasta hluta bókarinnar, sem vísað var til hér á undan: Gleymdi framherjinn.

Tíminn er peningar. Fortíðin er samt bara skuldir og nútíminn nýjar skuldir. Ávaxtaðar skuldir. En framtíðin, þar eru peningarnir.

Framtíðin er ameríski draumurinn. Framtíðin er okkar. En þið fáið aldrei framtíðina. Þið fáið bara nýtt nú með nýjum skuldum.

Framtíðin, hún er okkar. Við erum þetta eina prósent sem sér framtíðina. Það erum við sem sjáum næsta hrun fyrir og seljum ykkur verðlaus hlutabréf. Það erum við sem kaupum upplagið af þessari ljóðabók og gefum bókasöfnum svo þið hafið efni á að lesa.

Það erum við sem sjáum framtíðina. Það erum við sem sjáum gleymda varamanninn skora sigurmarkið í næsta úrslitaleik. Það erum við sem sjáum hver jólagjöfin 2018 er. Börnin í pakistönsku verksmiðjunni eru löngu byrjuð að framleiða hana. Barnið þitt er þegar búið að panta hana. Þú munt skulda hana á morgun.

Engin ummæli: