Stelpan sem vill ekki sofa hjá þér getur kennt þér að semja ljóð
Pabbi þinn getur kennt þér að semja ljóð
Yfirmaðurinn sem rak þig getur kennt þér að semja ljóð
En ekkert þeirra gerir það
Það er hins vegar strákurinn sem lamdi þig í tíunda bekk sem kenndi þér að semja ljóð
Það var hann sem kenndi þér að þú yrðir að berja til baka
Það var hann sem kenndi þér að það yrði ekki nóg
Það var hann sem kenndi þér að þú myndir samt tapa
Það var hann sem samdi þetta ljóð með blóðugum hnúunum á meðan þú lést þig dreyma um sætustu stelpuna á ballinu
Það er hann sem stendur hérna núna og les öll ljóðin sem hann fann í skólatöskunni þinni
Ljóðskáldaviðtal helgarinnar er við Ásgeir H. Ingólfsson, sem sendi frá sér sína aðra ljóðabók, Framtíðina, síðastliðið haust. Úr fyrsta hluta hennar er ljóðið Kennslubók í ljóðlist.
Hæ, Ásgeir, takk fyrir að koma í viðtal!
Kennslubók í ljóðlist er eitt af mínum uppáhaldsljóðum úr bókinni. Er þetta þín sýn á ljóðlistina? Er hún þetta asnalega sem við látum berja okkur fyrir, eftir að hún hefur fundist í skólatöskunni okkar, og þurfum við þessar barsmíðar til að geta haldið ástundað hana?
Þessi bók varð eiginlega til þegar ég frelsaðist frá minni eigin sýn. Þá er ég ekki að segja að sú sýn sé ekki þarna, hún er örugglega þarna einhvers staðar, heldur frekar að ljóðmælandinn er miklu síður „ég“ heldur en í fyrri bókinni – þessi bók er held ég að mestu laus við veigðarorð og varnagla – hún varð til þegar ég fann einhverja rödd sem ég hafði ekki fundið áður, miskunnarlausa rödd – rödd sem kom til mín á rigningarnóttu þegar megnið af bókinni varð til, ekki öll bókin en einhver grind sem ég smíðaði svo utan um.