Kæru lesendur, ég bara veit að þið hafið verið að spyrja ykkur: hvernig lítur bókamarkaðurinn í Perlunni út annars staðar? Og nú get ég sagt ykkur – og sýnt ykkur – hvernig hann lítur út í Lissabon, því ég fór þangað um síðustu helgi. Og tók MYNDIR. Bókamarkaðurinn í Lissabon er ekki haldinn í Perlunni heldur í almenningsgarðinum Parque Eduardo VII. Sem almenningsgarður er hann ekki alveg að mínu skapi - of mikið af gangstéttum - en það fer ágætlega á því að halda bókamarkað þar. Ekki er markaðurinn einungis úti undir beru lofti, sem er huggulegt hér þar sem vorhretin eru sjaldgæfari, heldur er hægt að kaupa sér bæði kebab og bjór meðan maður röltir milli bása – nokkuð sem vantar sárlega á bókamarkaðinn í Perlunni.
 |
Í Parque Eduardo VII. |
 |
Bók bókanna þarf auðvitað sérstakan bás. |
Ég staldraði ekki mjög lengi við á markaðnum í þetta sinn því ég var á leiðinni í bíó og þurfti að koma við í eina stórmarkaðinum í borginni sem selur salsasósu. Ég notaði hins vegar tækifærið til að kaupa mér á afsláttarverði bók sem ég hef haft augastað á um hríð; safn ljóða frá 8. áratugnum eftir Alexandre O´Neill,
Anos 70. Poemas dispersos. Ég keypti mér reyndar heildarsafnið hans um daginn, þessi ljóð eru bastarðar sem komust ekki í heildarsafnið, en bókin var samt eitthvað svo aðlaðandi og í hvert sinn sem ég opnaði hana af handahófi lenti ég á einhverju skemmtilegu, þannig að ég ákvað að kaupa hana bara líka. Báðar eru bækurnar gefnar út af forlaginu
Assírio & Alvim, sem hafa sent frá sér töluvert af bókum eftir merk portúgölsk ljóðskáld í mjög fallegum útgáfum.