Sýnir færslur með efnisorðinu Frakkland. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Frakkland. Sýna allar færslur

21. febrúar 2016

Franskur glaðningur í myndasöguformi

Á dögunum áskotnaðist mér sérlega áhugaverður gripur - franska myndaskáldsagan You Are There eftir þá Jacques Tardi og Jean-Claude Forest. Ég sumsé eignaðist hana í enskri þýðingu Kim Thompson en enska útgáfan kom út hjá Fantagraphics Books fyrir nokkrum árum, forlagi sem hefur gefið út gríðarlega mikið af góðum myndasögum, bæði seríum og stökum bókum. Mér til ævarandi skammar hafði ég aldrei heyrt af þessari tilteknu bók en kannaðist aftur á móti við Jacques Tardi sem er með þekktari teiknurum Frakka. Franska myndasöguhefðin er að sjálfsögðu stórmerkilegt form og Tardi skipar mikilvægan sess í þeirri menningu. Hann er fæddur árið 1946 og þekktastur fyrir sögurnar um Adèle Blanc-Sec, sem hafa notið gríðarlegra vinsælda í hinum frönskumælandi heimi og víðar. Á íslensku kom fyrsta sagan í seríunni um hina knáu Adèle út árið 1978 hjá Iðunni og kallaðist Birna og ófreskjan, í stíl við nafnaþýðingar þess tíma.

Jean-Claude Forest sem lést undir lok síðustu aldar var þekktastur fyrir sögur af allt annars konar kvenhetju - vísindaskáldsagnapersónunni Barbarellu. Hér eru þeir félagar þó á allt öðrum slóðum. You Are There, sem á frummálinu nefnist Ici Même og kom út í Frakklandi árið 1979 sem sería, mætti líklega helst kenna við absúrdismann; sögusviðið er landsvæðið Mornemont sem áður heyrði undir There-ættina sem hefur þó þegar sagan hefst tapað öllum eignarrétti sínum til gráðugra granna - fyrir utan veggina sem skilja að garða og hús. Eini eftirlifandi afkomandinn, Arthur There, er nú orðinn að tollheimtumanni sem gengur um veggina og hirðir toll af þeim sem fara um hliðin í veggjunum. Hann er hæddur og hataður af flestum íbúum Mornemont og á sjaldnast raunveruleg samskipti við aðra en skipstjóra fljótabáts sem siglir með vörur til Mornemont yfir stöðuvatnið sem lokar svæðið af. Hann fyllist þó óttablandinni hrifningu af Julie Maillard, dóttur ógeðfelldra hjóna, og samband þeirra verður þungamiðja í sögunni. Á sama tíma fylgjumst við með forseta landsins búa sig undir að missa völdin í yfirvofandi kosningum og lesandinn áttar sig fljótt á því að Arthur There og nágrannar hans eiga á hættu að verða leiksoppar valdastéttarinnar - peð á borði þeirra sem gera hvað sem er til að bjarga eigin skinni.

30. ágúst 2012

Frönsk börn frekjast ekki

Ég bý bandarískri borg sem státar af prýðilegum almenningsbókasöfnum og almennt læsi hér um slóðir er með því besta sem gerist á landsvísu. Það kostar ekki krónu að fá bókasafnsskírteini og kom sú staðreynd mér þægilega á óvart. Ég var búin að búa hér í nærri ár þegar ég gerði mér fyrst ferð á bókasafnið. Tveggja ára sonur minn beið spenntur með krypplaðan 20 dollara seðil í lúkunni sem hann hugðist rétta miðaldra bókasafnsfræðingi íklæddum peysu skreyttri maískólfum, í skiptum fyrir skírteini. Hún saup hveljur og sagði "oh no my dear! It´s public service!"

 Það eru fjölmörg bókasafnsútibú í borginni og þjónusta við börn og heimavinnandi mæður er umtalsverður hluti af starfsemi þeirra. Jafnréttisbaráttan er nefnilega fremur stutt á veg komin hér eins og kunnugt er og ekki útlit fyrir að hún taki nein stökk upp á við í nánustu framtíð. Fæðingarorlof er ekki lögbundið og dagvistun er rándýr. Það er því mjög algengt að mæður séu heima með börn sín allt fram á skólaaldur, og jafnvel að þær annist líka heimakennslu barnanna. Í kringum þetta allt saman skapast risavaxinn heimur sem getur verið erfitt fyrir konu frá hálfköruðu, skandinavísku velferðarríki að skilja.

Flesta daga eru bókasöfnin full af börnum undir sex ára aldri í fylgd mæðra sinna sem eygja þarna kærkomna stund til þess að draga andann utan veggja heimilisins og leyfa afkvæmunum að njóta samvista við önnur börn. Þessu fylgir auðvitað heilmikið fjör og læti og hin hefðbunda hugmynd um bókasafn - musteri þagnar og þekkingar - hefur örlítið látið undan síga í mínum huga. En ekki kvarta ég því syni mínum finnst afskaplega góð skemmtun að kíkja á bókasafnið, dvelja svolitla stund í barnakróknum og velja sér bækur. Við kíkjum því reglulega eftir leikskóla til þess að kynna okkur nýjustu stefnur og strauma í barnabókmenntum og slaka svolítið á. Í króknum góða er líka hugsað fyrir því að mæður hafi eitthvað til þess að glugga í meðan börnin hafa ofan af fyrir sér. Það eru reyndar eingöngu uppskrifta- , handavinnu- og uppeldisbækur sem eru í boði. Ef maður vill lesa eitthvað annað þarf maður að standa upp og gera sér ferð yfir safnið þvert og endilegt. Ég er ekkert að láta það fara í taugarnar á mér heldur kíki yfirleitt í einhverjar matreiðslubækur, enda finnst mér mjög gaman að elda.

Um daginn sá ég bók í hillunni sem ég ákvað að taka með mér heim. Ég hafði heyrt um hana á ýmsum stöðum á internetinu og yfirleitt verið ágætlega af henni látið. Hún ber titilinn Bringing Up Bébé. One American Mother Discovers the Wisdom of French Parenting og fjallar, eins og undirtitillinn gefur til kynna, um bandaríska móður sem er sannfærð um ágæti franskra uppeldisaðferða og ákveður að kynna sér þær nánar. Mig rámar í bók sem kom út fyrir nokkrum árum um franskar konur og þeirra matarsiði, hún kom meira að segja út í íslenskri þýðingu og heitir að mig minnir Franskar konur fitna ekki. Ég las hana aldrei en þessi bók ímynda ég mér að sé skrifuð á sömu nótum. Þessar Frakkar eru að gera eitthvað frábært og rétt, förum og könnum hvað það er!

24. ágúst 2011

Bókasöfn á gististöðum, 6. þáttur

Jæja, einsog ég sagði ykkur frá í síðustu færslu sem ég skrifaði hér, þá er ég stödd í leiguíbúð í Frakklandi, nánar tiltekið á Avenue Michel Croz, nr. 255 í litlum bæ sem heitir Chamonix. Bærinn stendur við rætur Mont Blanc, og hér hef ég verið í góðu yfirlæti í tvær vikur og sötrað bjór og borðað osta-fondue á meðan nokkrir í fjölskyldunni skelltu sér á toppinn.

Íbúðin er vel búin, hér er t.d. arinn, þvottavél, uppþvottavél, dvd-spilari og Playstation, og ansi veglegt úrval af bæði dvd-myndum og bókum. (Ég hefði s.s. getað sparað mér stressið kvöldið fyrir flug að hlaða kyndilinn fullan.)

Það eru svo margar bækur í hillunum að ég nenni ekki að telja þær upp, heldur ákvað ég að láta myndirnar tala. (Ég er líka í sumarfríi og alltof bissí við að gera ekki neitt til þess að geta splæst í langar bloggfærslur.)

Aðal bókahillan.

Súmmað inn á helminginn.



Súmmað inn á hinn helminginn.


Dvd- og bókahilla.

Súmmað inn á bækurnar.

Eins og við var að búast eru þetta mestmegnis spennusögur- og krimmar á ensku. Og ég er svo mikil Harry Potter grúppía að það gladdi mig mikið að finna heilar tvær bækur um Harry.

Og afþví ég veit ekki hvernig ég á að enda þessa bloggfærslu þá slaufa ég henni bara með mynd af mér sjálfri með Mont Blanc í baksýn. En ekki láta útivistarbakpokann blekkja ykkur. Það var ekkert nema varasalvinn minn og veski í honum og ég labbaði ekki neitt, heldur tók kláf og annan kláf og síðan lyftu uppí fjallið.

Svo fór ég og fékk mér bjór.