
Jean-Claude Forest sem lést undir lok síðustu aldar var þekktastur fyrir sögur af allt annars konar kvenhetju - vísindaskáldsagnapersónunni Barbarellu. Hér eru þeir félagar þó á allt öðrum slóðum. You Are There, sem á frummálinu nefnist Ici Même og kom út í Frakklandi árið 1979 sem sería, mætti líklega helst kenna við absúrdismann; sögusviðið er landsvæðið Mornemont sem áður heyrði undir There-ættina sem hefur þó þegar sagan hefst tapað öllum eignarrétti sínum til gráðugra granna - fyrir utan veggina sem skilja að garða og hús. Eini eftirlifandi afkomandinn, Arthur There, er nú orðinn að tollheimtumanni sem gengur um veggina og hirðir toll af þeim sem fara um hliðin í veggjunum. Hann er hæddur og hataður af flestum íbúum Mornemont og á sjaldnast raunveruleg samskipti við aðra en skipstjóra fljótabáts sem siglir með vörur til Mornemont yfir stöðuvatnið sem lokar svæðið af. Hann fyllist þó óttablandinni hrifningu af Julie Maillard, dóttur ógeðfelldra hjóna, og samband þeirra verður þungamiðja í sögunni. Á sama tíma fylgjumst við með forseta landsins búa sig undir að missa völdin í yfirvofandi kosningum og lesandinn áttar sig fljótt á því að Arthur There og nágrannar hans eiga á hættu að verða leiksoppar valdastéttarinnar - peð á borði þeirra sem gera hvað sem er til að bjarga eigin skinni.