Þegar ég var barn var Nýjasta tækni og vísindi einn af mínum uppáhaldsþáttum í íslensku sjónvarpi. Ég sat sem límd fyrir framan skjáinn meðan Sigurður H. Richter leiddi áhorfendur í allan sannleika um nýjustu uppgötvanir í stjörnufræði og vélmennaþróun. Svo ekki sé talað um hina árlegu keppni verkfræðinema sem snerist í minningunni alltaf um það að útbúa einhverskonar farartæki sem gæti ferjað appelsínu ákveðna leið. Ég vona að keppnin snúist enn um appelsínur en ég hef því miður ekki fylgst með í ein tuttugu ár. Nýjasta tækni og vísindi var að mínu viti alltof stutt prógramm í hvert sinn og það dimmdi yfir tilverunni í hvert sinn sem Sigurður kvaddi með orðunum „þá er ekki fleira í þættinum að sinni, veriði sæl.“ OK kannski er ég aðeins að ýkja þessa botnlausu hrifningu mína, en þó ekki. Framtíðin virtist bera í skauti sér svo margt magnað og tryllt – hugviti mannsins virtist engin takmörk sett og ég beið spennt eftir því sem koma skyldi. Ég sá fyrir mér að í náinni framtíð myndi hvert heimili hafa sitt eigið vélmenni sem sinnti leiðinlegum húsverkum – tæmdi kattasandinn, færi út með ruslið og vaskaði upp. Að einhverju leyti gengu þessir draumar mínir eftir því við fjölskyldan eignuðumst uppþvottavél snemma á tíunda áratugnum sem enn í dag sinnir sínu hlutverki ágætlega. Að því slepptu er ég ekki viss um að vangaveltur mínar hafi verið í tengslum við þann raunveruleika sem við erum stödd í dag. Ég hugsaði t.d. ekki um eitt mjög mikilvægt atriði – nefnilega þá staðreynd að það er miklu auðveldara fyrir okkur sem lifum í velmegun á Vesturlöndum að notast við ódýrt vinnuafl frá öðrum heimshlutum. Það borgar sig ekkert að vera að dekstra vélmenni þegar þú getur fengið þér alvöru þræl. En um það mun ég fjalla síðar þegar ég blogga um frábæra bók sem nú liggur á náttborðinu, The Slave next Door. Human trafficking and slavery in America today.
Ég hef enn töluverðan áhuga á nýjastu tækni og vísindum, kannski þó undir frekar neikvæðari formerkjum en þegar ég var barn. Einkum hefur þessi áhugi minn undanfarin ár beinst að lífvísindum og ég hef töluvert lesið höfunda sem horfa á þetta svið gagnrýnum augum. Ég bloggaði til dæmis um eina af mínum uppáhaldsbókum, Letter to D fyrir nokkrum mánuðum en André Gorz er þekktur fyrir skrif sín um læknisfræði nútímans og ástarbréfið kemur töluvert inn á það. Þetta er raunar töluvert vinsæl grein hér Vestanhafs - bækur sem skoða lyfjaiðnað, læknisfræði og fleiri svið gagnrýnum augum. Þær eru auðvitað misjafnar, og samsæriskenningarnar keyra stundum um þverbak en mér finnst þetta spennandi og þarft og reyni að fylgjast með því helsta í útgáfu í þessum flokki.