4. mars 2009

Menningarverðlaun veitt í dag

Síðdegis í dag verða Menningarverðlaun DV veitt í þrítugasta sinn. Verðlaunin eru veitt í átta flokkum og einnig ein heiðursverðlaun.

Í flokki fagurbókmennta eru eftirfarandi verk tilnefnd:

Sjáðu fegurð þína eftir Kristínu Ómarsdóttur. Útg. Uppheimar.
Afbragðsgóð ljóðabók sem rænir lesendum og neyðir þá til að skoða fegurðina með nýjum augum og flysja allar klisjur utan af hefðbundnum hugmyndum um hana. Um leið þurfum við að skoða okkur gagnrýnum augum í mörgum þeirra spéspegla sem Kristín heldur uppi fyrir lesendur sína, - spegla sem sýna þeim fegurð þeirra sjálfra í nýju ljósi hverju sinni.

Konur eftir Steinar Braga. Útg. Nýhil.
Óhugnanleg hrollvekja um mannfyrirlitningu og misbeitingu valds gegn konum eða hverjum þeim sem er í þeirri aðstöðu að vera undir hæl þeirra sem hafa takmarkalaust vald yfir öðrum í krafti fjármagns og þekkingar; samtímasaga sem ýtir við lesendum og vekur þá til umhugsunar. Stíll og frásagnartækni njóta sín til fulls í óvenjulegri skáldsögu eftir einn af áhugaverðustu höfundum Íslendinga nú um stundir.

Árstíð í Helvíti eftir Arthur Rimbaud í þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar. Útg. Moli.
Þessi litla bók sem samt er „allt í senn ævisaga, ferðasaga, hugmyndasaga, trúarrit, heimspekirit, ádeila, upphrópun, ákall og uppgjöf“ birtist hér í afbragðsþýðingu Sölva Björns Sigurðssonar. Formið nýtur sín vel bæði prósa og bundnu máli í þessu sérstæða verki sem þýðandinn setur í samhengi í athyglisverðum eftirmála um bókmenntaverk sem skipti sköpum í bókmenntasögu Evrópu.

Rán eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Útg. Mál og menning.
Rán er margbrotin og fögur skáldsaga um sorg, missi og sannleikann sem sérhver manneskja þarf að horfast í augu við þegar líða fer á ævina. Álfrún fléttar af listfengi saman ólíkum tímaskeiðum og í töfrandi lýsingum verður Barcelonaborg lesendum jafnvel ívið nálægari en Ísland. Rán er einnig margþætt átakasaga þar sem pólitísk átök, listin og örlög persóna kallast á. Aðalsöguhetjan er mannleg og um margt mótsagnakennd; djúp og eftirminnileg persóna sem öðlast verðugan sess í hjörtum lesenda.

Apakóngur á Silkiveginum í þýðingu Hjörleifs Sveinbjörnssonar. Útg. JPV.
Hjörleifur Sveinbjörnsson hefur með þýðingu sinni á sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar gefið löndum sínum stóra gjöf, sem við höfum fram að þessu ekki haft aðgang að á íslensku. Sögurnar eru sumar sprenghlægilegar og í annan tíma hræðilega sorglegar, en stundum hvort tveggja í senn. Ekki spillir afbragðsþekking Hjörleifs á efninu, sem hann í inngangi og formálum miðlar af örlæti. Apakóngur á Silkiveginum er glæsileg bók að utan jafnt sem innan.

Í flokki fræða eru eftirfarandi verk tilnefnd:

Guðmundur Eggertsson fyrir bókina Leitin að uppruna lífs: líf á jörð, líf í alheimi. Útg. Bjartur.
Guðmundur fjallar um hugmyndir manna um eðli lífsins og uppruna þess allt frá steinöld og fram á okkar daga. Ítarlega er greint frá nýjustu kenningum um uppruna lífsins. Þrátt fyrir að hafa að geyma mikinn fróðleik er bókin einstaklega læsileg og aðgengileg öllum almenningi.

Guðrún Ása Grímsdóttir fyrir ritstjórn og útgáfu bókarinnar Ættartölusafnrit séra Þórðar í Hítardal I-II; útg. Stofnun Árna Magnússonar.
Þórður var uppi á 17. öld og rit hans var á sinn hátt brautryðjandaverk í ættfræði Íslendinga. Guðrún Ása hefur unnið þrekvirki með því að búa verkið til prentunar og skrifar sjálf margt í kringum það. Þetta er margra ára eljuverk unnið fjarri öllu dægurþrasi og varpar skýru ljósi á mikilvægan þátt í menningarsögu þjóðarinnar.

Halldór Björnsson fyrir Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar. Útg. Hið íslenska bókmenntafélag.
Í þessari bók eru rakin þau vísindi sem liggja að baki hinu mikilvæga efni sem bókin fjallar um. Því er sérstaklega lýst hvað telst vera öruggt í fræðum þessum og hvað er enn háð óvissu. Leitast er við að skýra hverjar afleiðingar loftslagsbreytinga gætu orðið og hvaða viðbrögð þarf til að sporna gegn þeim.

Kristmundur Bjarnason fyrir bókina Amtmaðurinn á einbúasetrinu. Útg. Forlagið.
Þetta er ævisaga Gríms Jónssonar sem var einn æðsti valdamaður landsins á ofanverðri 18. öld. Hann var mótsagnakenndur maður, dyggur konungsmaður og hafði fyrirlitningu á sjálfstæðistilburðum landa sinna en leitaðist við að efla öll framfaramál. Bókin er sérlega fróðleg og um leið afar glæsilega skrifuð.

Þorvaldur Gylfason fyrir skrif um hagfræði og efnahagsmál í blöðum, tímaritum og bókum á síðustu áratugum.
Fjölmargar greinar Þorvaldar í dagblöðum skulu hér sérstaklega nefndar en þar hefur honum auðnast að gera flókin viðfangsefni skiljanleg leikmönnum. Þá er nú ljóst að ef stjórnvöld hefðu farið að ráðum Þorvaldar undanfarin ár hefði það getað breytt miklu í því efnahagshruni sem Ísland þarf nú að þola.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Apakóngurinn á Silkiveginum er ótrúlega áhugaverð bók, kom mér mjög á óvart!

Nanna sagði...

Sem ritstjóri bæði Apakóngsins og Amtmannsins get ég nú ekki annað en verið afskaplega ánægð með þetta val. Þótt ég kvartaði í fyrrasumar stundum upphátt yfir mergð Kínverja í annarri bókinni, Skagfirðinga í hinni ...

Harpa Jónsdóttir sagði...

Og á hvað veðja dömurnar?

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ein daman situr í dómnefndinni fyrir fagurbókmenntirnar en varir hennar verða saumaðar saman með seglgarni þar til klukkan fimm í dag.

Harpa Jónsdóttir sagði...

Ó - auðvitað :-)

Nafnlaus sagði...

Álfrún Gunnlaugsdóttir fékk verðlaunin fyrir mjög fína bók. Ég hélt hins vegar með Hjörleifi ;)

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég var alveg laus við að heillast af Rán. Ætti kannski að gefa henni annan sjens en nenni varla að lesa hana aftur.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Nei, nei maður á ekkert að lesa það sem manni leiðist. Við höfum svo misjafnan smekk. En reyndar er það samt þannig að bækur hitta mig mjög misjafnlega á ólíkum tímum (sbr. Stasiland sem ég gafst upp á þegar ég byrjaði fyrst á henni en sökk svo ofan í þegar ég gaf henni annan séns).