Í síðustu viku vann rithöfundurinn J. D. Salinger fyrstu lotuna í málaferlum gegn Fredrik Colting, sem hefur skrifaði bókina 60 Years Later. Coming through the Rye, þar sem aðalpersónan er Holden Caulfield, sem aftur er aðalpersóna bókarinnar gömlu, The Catcher in the Rye, eftir Salinger. Útgáfa bókarinnar verður sem sé stöðvuð í Bandaríkjunum. Bókin er þó nú þegar komin út í Bretlandi og kemur út í Svíþjóð innan skamms og hún mun sennilega seljast vel því fátt selst jú betur en það sem er bannað.
Rökin fyrir banninu eru þau að Fredrik Colting fái of mikið af efni að láni úr bók Salingers, bæði stíllega og efnislega. Í bók Fredrik Coltings (höfundurinn gefur út undir dulnefninu John David California) eru bæði Salinger sjálfur og skáldsagnapersónan Holden Caulfield sögupersónur, en Colting segir bókina vera e.k. nútíma-Frankenstein. Dómnum verður áfrýjað og það verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður.
Mörgum finnst skrítið að hægt sé að banna þessa bók og að Salinger nenni að standa í þessu veseni. Nýlega kom út í Noregi bók eftir Johan Harstad, sem kemur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í haust, þar sem Einar Áskell og vinir hans eru aðalpersónur þegar þau eru orðin fullorðið úthverfafólk að því er mér skilst. Einar Áskell hefur áður verið settur í svipaða aðstöðu, en þá í sænskum útvarpsgrínþætti þar sem hann var gerður að dónakalli og dópsala. Höfundur bókanna um Einar Áskel, Gunilla Bergström, fór í mál en tapaði því á öllum dómstigum. Frá þeim málaferlum er sagt í grein eftir Hörpu Jónsdóttur í Börnum og menningu 2/2006.
Hér má lesa grein í Guardian um mál Fredriks Colting.
2 ummæli:
Merkilegt raunar að dómurinn telur þetta ekki nógu mikla paródíu og ekki nógu mikla gagnrýni á Salinger, þannig að ef Colting hefði bara sparkað nógu fast í þá félaga Caulfield og Salinger hefði þetta þá væntanlega verið allt í lagi?
Já - samkvæmt málaferlunum um Einar Áskel þá er varla hægt að álykta annað.
Skrifa ummæli