20. júlí 2009

Frank McCourt er dáinn

Í dag, þegar nákvæmlega fjörutíu ár eru síðan Buzz Aldrin og Neil Armstrong skildu fyrstir manna eftir sig fótspor í auðninni á tunglinu, segja bókmenntasíður víðsvegar frá því að írski rithöfundurinn Frank McCourt hafið hafi dáið í gær í New York.

Frank McCourt er einn þó nokkurra írskra höfunda sem hafa glatt mig með verkum sínum, en bækur hans um æskuárin í Limerick og lífið í New York gleypti ég fyrir nokkrum árum (og þegar ég var búin með pakkann las ég bók eftir bróður hans, Malachy, sem fjallar líka um uppvöxt þeirra bræðra).

Frank McCourt var ekki einn þeirra sem kölluðu sig skáld frá menntaskólaárunum, fyrsta bók hans kom út 1996 (Aska Angelu) þegar hann var hátt á sjötugsaldri. Þar segir hann frá æsku sinni, hann var elstur sjö barna úr bláfátækri fjölskyldu þar sem drykkfelldur faðirinn stakk á endanum af. Fjögur barnanna lifðu og Frank komst á unglingsárum til Ameríku þar sem hann aflaði sér menntunar og gerðist kennari, hann skrifaði um kennarastarfið í bókinni Teacher Man. Fyrir Ösku Angelu fékk McCourt Pulitzerverðlaunin og bókin var kvikmynduð með Emily Watson og Robert Carlyle í hlutverkum foreldranna. Þá mynd hef ég aldrei lagt í að sjá (ég get lesið vel skrifaða texta um illa meðferð á fólki en er of mikill aumingi til að þola svoleiðis bíómyndir) svo ekki veit ég hvernig hún er. Framhald Ösku Angelu ('Tis', Alveg dýrlegt land á íslensku) kom nokkrum árum síðar og það er frábær bók (eins og allt sem ég hef lesið eftir McCourt, bækurnar hans eru fjórar).

Frank McCourt var fæddur 19. ágúst 1930 og banamein hans var, að sögn New York Times, húðkrabbi.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér leið eins og ég væri að uppgötva einhvers konar enskan HKL þegar ég las Ösku Angelu og Tis' á sínum tíma.

Nafnlaus sagði...

HKL? Ég á nú eiginlega eftir að uppgötva hann. Er hann eitthvað spes?

Hildur Lilliendahl sagði...

Já, að lesa AA og 'Tis í fyrsta skipti er ansi mögnuð upplifun. En á árunum sem hafa liðið síðan hef ég oft velt fyrir mér hvort þær séu nauðsynlega eins góðar og mér fannst þá. Gott að fleirum finnst það. Myndin var hins vegar alveg glötuð.

Nafnlaus sagði...

myndin var ekki svo glötuð sem upprifjun á bókinni, en til þess þurti maður að vera búinn að lesa bókina. Ég gerði hvort tveggja: mynd(no good)- bók - mynd (nice).
En geturðu sagt mér hver 4.bókin hans Franks er Þórdís? AA,Tis, TM og hvað svo?
Ég sá eitt sinn fyrir tilviljun viðtal við FM í HardTalk á BBC og hann virkaði mjög sympatískur og hógvær á mig þar. Góður gæi. kveðja, AA

Hildur Lilliendahl sagði...

Já, ég get sannarlega tekið undir það. Myndin samanstóð eiginlega bara af völdum senum úr bókinni og það ágætlega fallega unnum. En það vantaði heildarsvipinn og ég saknaði hans, hafandi lesið bókina nokkrum sinnum.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Fjórða bókin er Angela and the Baby Jesus. Það er unglingabók.