Carlos Ruiz Zafón. The Angel's Game. Weidenfeld & Nicolson: London, 2009.
Á síðustu mánuðum hef ég lesið nokkrar bækur sem ég sé eiginlega eftir að hafa lesið. Hin óbærilega Sjöjungfrun Camillu Läckberg, væmna veimiltítan Tony Parsons og vellan hans My Favourite Wife, hryllingshroðbjóðurinn um Kevin litla eftir Lionel Shriver (sem ég skipti reyndar um skoðun á, ég gat ekki hætt að hugsa um Kevin og endaði á að lesa bókina aftur – það hljóta að teljast meðmæli) og núna síðast The Angel’s Game eftir Carlos Ruiz Zafón. Mínir pistlar hér eru því meira víti til varnaðar frekar en lofrullur um góðar bókmenntir. Stundum er maður bara óheppinn í bókakaupunum.
Árið 2001 skrifaði hinn spænski Zafón ágæta bók sem heitir The Shadow of the Wind, hans fyrsta skáldsaga ætluð fullorðnum. Hún varð mikil metsölubók, sérstaklega í Evrópu og sópaði til sín einhverjum fansí verðlaunum. Tómas R. Einarsson þýddi hana afar lipurlega á íslensku, Skuggi vindsins kom út 2005, ári síðar í kilju. Klisjukennd á köflum, en mátti fyllilega afsaka því sagan var nokkuð góð og grípandi. Hinn ungi Daníel Sempere er aðalsöguhetjan, en hann elst upp hjá föður sínum í Barcelona á valdaskeiði Francos. Borgin stendur algerlega undir því að vera ein aðalpersóna bókarinnar og það er erfitt að heillast ekki smávegis af Skugga vindsins.* Þess vegna keypti ég vonglöð í hjarta bókina sem margir hafa beðið eftir, The Angel´s Game.
Það er eins og helvítið hann Paulo Coehlo hafi skrifað þessi ósköp. Ég játa hérmeð að síðustu 50 blaðsíðurnar eru ólesnar, ég gat ekki meira af tilgerðarlegustu bók í heimi. Kannski eru síðustu síðurnar frábærar en ég leyfi mér að efast. Í vanmáttugri tilraun til að halda í þó þann sjarma sem fyrri bókin hafði reynir Zafón að troða inn aukapersónum úr Skugga vindsins og einnig kemur kirkjugarður hinna týndu bóka fyrir í þessari. Gömlu persónurnar flækjast eiginlega bara fyrir og verða hálf litlausar. Plottið er frekar samhengislaust og nýjar persónur bókarinnar einkar óminnistæðar. Tilgerðin svífur yfir vötnum og hver kafli endar á spennuþrungnu kommenti úr huga aðalsöguhetjunnar; „Only then did I realise that during the entire conversation I had not once seen him blink” (bls. 75), „Only then did I realise that I was exhausted and my whole body was aching“ (bls. 177), „An icy breeze touched my face, bringing with it the lost breath of great expectations“ (bls. 116), „Then all was darkness“ (bls. 68) og uppáhaldið mitt: „Go away, far away. This city is damned. Damned.“ (bls. 240).
Ég tæki ofan fyrir íslenskum bókaútgefendum ef þeir gæfu einfaldlega ekki út þessi ósköp en ég trúi ekki öðru en að hún komi út um næstu jól. The Angel’s Game (meira að segja titilinn er vemmilegur) mun nefnilega seljast á orðspori fyrri bókarinnar en lesendur mega búast við óbragði í munni eftir lesturinn – svo ég endi þetta þus á smá klisju.
*(00.42) Skuggi vindsins fékk þó ekki mjög góðan dóm á Bókabloggi Sigga!
9 ummæli:
Takk fyrir þetta, Æsa. Bókarýnum ber skylda til að bægja manni frá ömurlegum bókum sem þeir hnjóta um. Það var náttúrlega fullt af svona fáránlegum frösum í Skugga vindsins en einhvern veginn virkuðu þeir þar, merkilegt nokk. Skrifaðu meira, kona!
Kveðja
GK
Já, gott ef við ræddum þetta ekki aðeins um daginn. Skuggi vindsins varð mér tilefni til umræðu um árið á mínu bókabloggi um hvernig í ósköpunum fullkomið drasl, eins og sú vemmilega klisjubók er, nær ekki bara metsölu heldur fær fullt af fínum dómum frá virtustu heimsblöðum. Skil bara ekki svoleiðis.
Ég á mér reyndar þá aumu afsökun að ég hlusta á svona bækur en les ekki. Eins og það sé samt eitthvað skárra.
Ég þakka kveðju og tek áskoruninni GK!
Siggi - ég veit ekki hvort það er absúrd afsökun að hlusta bara á svona bækur - það getur örugglega allt hljómað vel af vörum rétta lesarans. Hjalti Rögnvalds mætti til dæmis lesa fyrir mig ansi lélegar bækur. Eða better yet, Alan Rickman. Ég myndi möglunarlaust hlusta á upplestur símaskránnar í hans meðförum.
Þessi bók virðist svo skelfileg að það liggur við að mig langi að lesa hana! Hún bætist á listann yfir bækur sem ég þyrfti helst að lesa til að staðfesta fordóma mína. Efast samt um að ég nenni að leggja lesturinn á mig.
Ég er annars líka búin að lesa alltof margar slappar bækur síðustu mánuði. Asnaðist t.d. til að lesa bæði Camillu Läckberg og Lizu Marklund í sumarbyrjun og hef varla beðið þess bætur.
En ég skil ekki hvernig nokkur nennir að hlusta á lélegar bækur - það tekur svo agalega langan tíma að ég held að ég afbæri það ekki nema lesarinn væri yfirgengilega dáleiðandi (tek reyndar undir hugmyndina um Alan Rickman og símaskrána). Við lestur getur maður þó stjórnað hraðanum.
Ég var einmitt búin að reka augun þessa bók og hugsa að þetta væri tilvalin sumarleyfislesning - nú finnst mér tilvalið að lesa hana ekki. Hún bætist þar í hóp Läckberg og annarra sem þú hefur misþyrmt hér á síðunni og ég ætla mér að forðast.
Svona ber ég mikið traust til þín kona!
Ég er að hugsa um að vera ósammála um Läckberg, ég hef gaman af bókunum hennar, eitthvað við húmorinn sem smellur hjá mér. Óborganlegar lýsingar á leiðinlegum löggum og óþolandi átroðningssumarfrísgestum.
En takk fyrir viðvörunina um þessar Zafón bækur...
Hvað hefurðu á móti Paulo Coehlo? Einn forvitinn...
Sæl Æsa og takk fyrir góð skrif. Ég hef ekki lesið Zafón en kemst þó ekki hjá því að velta því fyrir mér hvort stíll hans virki ekki betur á frummálinu. Stundum finnast mér þýðingar úr spænsku eða portúgölsku verða annkanalegar á öðru tungumáli, ef ekki er vel að gætt. Það sem hljómar "ljóðrænt" á rómönsku tungumáli getur hljómað algerlega gelt á þýtt yfrir á germanskt mál.
Hins vegar er ég fullkomlega sammála þér um (helvítið) hann Paulo Coehlo. Greyið hefur farið einum og oft á kínversk veitingahús og byggir sínar (innantómu) bækur á "fortune cookie" speki!!!
R.K.
Skrifa ummæli