24. janúar 2010

„Ástin er lipur tígur ...“

Käbi Laretei, konsertpíanisti fædd í Eistlandi og Ingmar Bergman, sænskur leikstjóri, hittust þegar þau voru í kringum fertugt. Käbi var gift og átti litla dóttur, Ingmar bjó með Bibi Andersson. Eftir nokkurn tíma skildu þau við makana, giftu sig og voru í hjónabandi í tíu ár (1959-1969). Þau eignuðust soninn Daniel en voru oft í langvarandi fjarvistum, hún á tónleikaferðalögum og hann að vinna við kvikmyndir. Hún skrifaði dagbók og bæði skrifuðu hvort öðru bréf. Bókin sem ég las í gær er samsett úr smábútum úr dagbókinni og bréfum þeirra tveggja. Þó að um sé að ræða fimmtíu ára gömul skrif fer efnið auðvitað aldrei úr tísku, ástin og allar þær tilfinningadýfur sem hún hefur í för með sér er sígilt efni í vangaveltur.

Vart tog all denna kärlek vägen?
(Hvert fór öll þessi ást?) er titill bókarinnar og það er einmitt það sem Käbi fór að velta fyrir sér þegar hún fékk í hendur, eftir dauða Ingmars í hittifyrra, bréfin sem hún hafði skrifað honum. Bókin er lítil og fljótlesin en mjög falleg lesning enda báðir skrifararnir skemmtilegir pennar. Þegar upp er staðið er spurningunni sem lagt var upp með svarað: Ástin breyttist í ævilanga og djúpa vináttu sem einkenndist af örlæti og hlýju á báða bóga. Það er fallegt.

Þórdís

P.S. Käbi og Ingmar fæddust bæði 14. júlí, ég líka.

5 ummæli:

Ævar Örn sagði...

Og svo varð Daníel litli stór, kynntist Hrafni Gunnlaugssyni og kom til Íslands til að aðstoða hann við að leikstýra bíómynd...

Þórdís sagði...

seiseijá mikil ósköp

GK sagði...

Af hverju gaf hún út bréfin þeirra? Kemur það fram?

Þórdís sagði...

Líklega til að fá pening og til að svala forvitni okkar - en hún gefur þá skýringu í formála að Ingmar hafi lýst upphafi sambands þeirra í sommarprati 2004 og að hún hafi líka skrifað um það í bók sem kom út sama ár (hún hefur skrifað nokkrar bækur). Þá hafði hún hins vegar ekki bréfin sem hún skrifaði honum til að rifja upp því Ingmar sagði henni að hann væri búinn að brenna þau. Síðan fundust þau vel varðveitt í kassa eftir dauða hans (þetta eru mörghundruð bréf) og eftir lesturinn ákvað hún að búa til þessa litlu bók með klippiríi úr bréfunum og dagbókinni sinni.

GK sagði...

Takk fyrir svarið, þetta er áhugavert.