Norrænar sjónvarpsstöðvar sýndu í fyrra heimildarmyndina „Bang och världshistorien“ sem fjallar um Barbro Alving. Ég sá myndina fyrir tilviljun og varð dálítið heilluð af aðalpersónunni. Barbro Alving, sem fæddist 12. janúar 1909, var þekktur fréttaritari fyrir sænska blaðið Dagens Nyheter og blaðamaður á fleiri fjölmiðlum. Hún eyddi starfsævinni í að þeysa um heiminn og greina frá stórtíðindum, allt frá Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og Spænsku borgarastyrjöldinni til Hírósíma eftir kjarnorkusprengjuna og byltingarinnar í Ungverjandi 1956. Barbro, sem fljótlega fór að skrifa Bang undir greinarnar sínar, byrjaði kornung hjá DN og vann þar lengi en sagði starfinu lausu 1958, þegar ritstjórinn, Herbert Tingsten, tók afstöðu með því að Svíar smíðuðu kjarnorkusprengju. Bang lýsti sjálfri sér sem alkohólista, tvíkynhneigðri og einstæðri móður en hún var líka femínisti og friðarsinni. Hún var reyndar ekki einstæð lengi því þegar dóttir hennar, Ruffa, var kornung hóf hún sambúð með konu sem hét Loyse Sjöcrona. Sambandið entist út ævina og sambýliskonan ól barnið (sem Barbro eignaðist með giftum manni sem dó fremur ungur) mikið til upp. Fréttaritarinn átti það til að vera lengi að heiman, líkt og þegar hún fór í heimsreisu í heilt ár með blaðamannapassann.
Það er til töluvert af útgefnu efni eftir Barbro Alving, bæði bækur og geisladiskar með vinsælum útvarpsþáttum sem hún gerði. Í Þjóðarbókhlöðunni eru til þrjár bækur og eitthvað í bókasafni Norræna hússins, en þar rakst ég um daginn á glænýja bók, Bang om Bang, með efni sem Ruffa Alving hefur tekið saman úr dagbókum og bréfum mömmunnar og einnig hefur hún skrifað millitexta og eftirmála um hana. Bókin er ágæt, ekki síst fyrir þá sem þekkja til Bang. Hún hafði sjálf ætlað að skrifa endurminningar sínar og tekið saman mikið efni. Meining hennar var að gera upp líf sitt, segja frá áfengissýki, tvíkynhneigð og allrahanda flækjum, angistarköstum og snúningi til kaþólsku, en áður en af því varð fékk hún heilablóðfall og málstol svo ekkert varð úr. Í tilefni hundrað ára fæðingarárs mömmu sinnar ákvað dóttirin að koma þessari bók út. Hún fór í gegnum dagbækur, sendibréf og greinasöfn og útbjó persónulegt úrval sem henni finnst lýsa mömmu sinni en dóttirin dáir hana greinilega mikið. Bók mæðgnanna las ég um helgina og fannst hún ágæt. Aðalpersónan var sérstök og áhugaverð kona og svo er heillandi að lesa sögu kvenkyns fréttaritara sem ferðaðist um heiminn og pikkaði á ritvél eins og Beverly Gray, mitt í hringiðu atburðanna. Hér er krækja á síðu á ensku um Barbro Alving.
Þórdís
P.S. Þess má geta til gamans að pabbi Barbro Alving, Hjalmar Alving, var prófessor í norrænum fræðum og þýddi Íslendingasögurnar en móðir hennar, Fanny Alving, var fyrsta sænska konan sem skrifaði glæpasögur.
1 ummæli:
Ég varð líka mjög forvitin um konuna eftir að hafa séð þáttinn og ætlaði alltaf að leita að meira efni um hana. Þarf endilega að lesa þessa bók.
Skrifa ummæli