21. janúar 2010

Maðurinn sem talaði um bækur sem hann hafði ekki lesið

bayardEinu sinni, löngu fyrir tíma Internetsins, var gjarna talað um kjölfræðinga. Þeim hópi tilheyrðu menn sem áttu að hafa lesið lítið meira en kili bóka en gátu samt rætt verkin af innlifun (ég man bara eftir karlmönnum sem áttu að vera kjölfræðingar). Til er einhverskonar blöffarahandbók í faginu eftir Henry Hichings, um hvernig maður ber sig að við að ræða ólesnar bækur, en franski bókmenntafræðiprófessorinn Pierre Bayard gaf  í hittifyrra út öllu fræðilegri bók; How to Talk About Books You Haven’t Read. Í viðtali í New York Times sagði höfundurinn: I think a great reader is able to read from the first line to the last line; if you want to do that with some books, it’s necessary to skim other books. If you want to fall in love with someone, it’s necessary to meet many people.

Ég tala auðvitað oft um bækur sem ég hef ekki lesið, mæli t.d. með einhverri ólesinni bók sem einhver sem ég hef trú á sagði mér að væri góð eða tala um bækur sem ég gafst upp á í miðju kafi.  En hvað sem þessu líður þá les fólk bækur með ólíkum hætti, sumir lesa hratt en aðrir hægt, sumir hvert orð en aðrir fara á handahlaupum yfir síðurnar. Í fyrsta hluta bókar Bayards, Ways of Not Reading, heita kaflarnir:

1. Books You Don’t Know
2. Books You Have Skimmed
3. Books You Have Heard Of
4. Books You Have Forgotten

Kannast lesendur við þetta og talið þið um bækur sem þið hafið ekki lesið eða eruð löngu búin að gleyma?

Þórdís

37 ummæli:

Kristín í París sagði...

Ég man eftir því að hafa þóst lesið bækur einhvern tímann en því fylgdi svo mikil óþægindatilfinning að ég hef forðast það síðan. Ég á langan lista af bókum sem mig langar að lesa aftur því ég veit að þær eru brenglaðar í minninu. Ég á líka fullt af bókum í hillum mínum (sem frægar urðu hér á þessari síðu á öðrum stað í netheimum) sem ég á eftir að lesa. Ég veit ekki hvort ég tala um bækur sem ég hef ekki lesið, en örugglega samt.

Halla Sverrisdóttir sagði...

þegar ég varð þrítug strengdi ég þess heit að hætta að þykjast hafa lesið bækur sem mér fannst að ég ætti að hafa lesið. Það var ótrúlegur léttir :) Hins vegar tala ég þeim mun meira um bækur sem ég HEF lesið, nema náttúrulega þeim sem ég er búin að gleyma, enda eru þær líklega ekki þess virði að tala um þær, eða???

Kristín í París sagði...

Gleymdi einu: Ég er næstum viss um að karlmenn eru gjarnari á að þykjast hafa lesið bækur en konur.

Gunnar Hrafn sagði...

Gat nú skeð að þú kæmir með eitthvað svona komment, Kristín!

Harpa J sagði...

Ég átti þetta til í menntaskóla. En ég gerði það ekki mjög oft því ég var iðin við að lesa og þurfti því ekki mikið að þykjast. Ég hélt því líka fram þá að mér þætti eðalvíski gott, en það voru helber ósannindi.

Ég tala stundum um bækur sem ég er búin að gleyma, en þá er ég oftast að reyna að rifja upp hvað stóð í þeim, gjarna með einhverjum sem er ekki alveg jafn gleyminn og ég.

Gurrí sagði...

Ég veit um mann sem spurði konu sína út í þær bækur sem hún las en hún var og er mikill lestrarhestur. Síðan sló hann um sig með því að tala um bækurnar í boðum eins og hann hefði lesið þær sjálfur. Hann hleypti henni aldrei að. Þau skildu.

Eyja sagði...

Stundum man ég ekki hvort ég hef lesið tiltekna bók eða ekki. Það gildir helst um bækur sem eru mjög þekktar og mikið hefur verið fjallað um, gerðar kvikmyndir eftir o.s.frv. Ég get t.d. ómögulega munað hvort ég hef lesið Jólasögu Dickens. Biblíuna hef ég aldrei lesið spjaldanna á milli þótt ég hafi lesið einhverjar valdar glefsur úr henni. Hana hef ég stundum talað um, jafnvel nokkuð oft. Og stundum átta ég mig á því eftir að hafa blaðrað eitthvað um einhverja bók sem ég hef lesið, kannski fyrir einhverjum áratugum, að ég man í raun ósköp lítið úr bókinni.

Svo má líka velta því fyrir sér hversu mikið af bók er nauðsynlegt að hafa lesið til að geta talist hafa lesið hana. Margar fræðibækur úr mínu fagi hef ég aldrei lesið frá upphafi til enda en hef á ýmsum mismunandi tímum lesið úr þeim kafla og kafla og þykist þekkja þær nokkuð vel.

En nei, almennt reyni ég að vera heiðarleg og blekki fólk ekki vísvitandi um það hvað ég hef lesið. Af því tilefni ætla ég að setja fram tvær játningar hér og nú: Ég hef aldrei lesið neitt eftir Nietszche en ég hef lesið allar Ísfólksbækurnar.

Páll Ásgeir sagði...

Allir bókaormar hafa einhvern tímann logið upp á sig lestri bóka. Stundum finnst manni eins og ásetningur sé sama og glæpur í þessum efnum, þ.e. að ætli maður sér að lesa tiltekna bók sé í lagi að segjast hafa lesið hana þótt því sé ekki lokið - kannski ekki hafið.
Veltur þetta á hégómagirni viðkomandi? Já líklega.
Gera karlmenn þetta frekar en konur? Ég veit það ekki.
Ég hef stundum logið í þessum efnum. Oftast til þess að sýnast víðlesnari, semsagt til að hækka gengi mitt í augum eða eyrum viðmælandans. Þegar maður tekur viðtöl við rithöfunda hefur það góð áhrif á þá ef maður segist betur lesinn í verkum þeirra en maður í rauninni er. Þetta er þó hættusvæði.
Eftirtaldar bækur hef ég aldrei lesið þótt ég kunni einhvern tímann að hafa gefið annað í skyn:

Ulysses
Glæpur og refsing
Buddenbrooks
Confederacy of Dunces
The Road

Þetta eru allt dæmi um bækur sem flestir vilja hafa lesið en listinn gæti auðvitað verið talsvert lengri .

Kristín í París sagði...

Ókei, ég skal koma með eina játningu, fyrst fólk er að því hérna: Ég hef ekki hugmynd um það hvaða bækur þessar þrjár síðustu af lista Páls eru. Og VÍST gera karlar þetta frekar en konur. Það liggur í augum uppi. Sjáiði bara fyrrverandi mann Gurríar, týpískt!

Elías Halldór sagði...

Páll Ásgeir: Glæpur og Refsing er alls ekki jafn löng og margir halda og er í rauninni frekar auðlesin. Mig minnir að ég hafi lesið hana í einni lotu, ef til vill borðað eða sofið þar á milli.

Buddenbrooks og Confederacy of Dunces hef ég viljað lesa, en aldrei gefið mér tíma til. Ég hef lesið stóra kafla úr Ulysses, en vantar samt mikið á.

Eyja: Nietzsche er æðislegur höfundur. Hann er svo æðislegur að þegar þú hefur kynnst honum mun þér finnast allt annað vera dauf lesning, eða jafnvel bragðlaust með öllu.

Ég er annars næstum hættur að lesa annað en það sem ég finn á tölvuskjánum.

Fía sagði...

Það er einmitt góð spurning - hvað er að hafa lesið bók? Það er ekki það sama að lesa og lesa. Er það að hafa lesið hana orð fyrir orð, er það að muna efni hennar, skilja hana, túlka, tengja.... Djöfulli oft hef ég lesið bækur og gleymt efni þeirra þegar frá líður. Rámar eitthvað í hana eða hvað. Þá er auðvitað eins og ég hafi nær ekki lesið hana. Ég held ég blaðri oft við vini og kunningja um bækur sem ég hef lesið en man í raun óskaplega lítið eftir áhrifum á mig í raun, eða þá að ég las bara helming af bókinni. Þá er hægt að setja varnagla við skoðun og vona að seinni helmingurinn breyti öllum áhrifum. Það er samt svoldið huggulegt að hafa hálflesnar bækur út um allt í húsinu sínu. Sérstaklega ljóðabækur.

En takk fyrir þessa síðu. Hún er skemmtileg.

Kristín í París sagði...

Ég get ekki ákveðið mig hvort ég trúi Elíasi með Nietzche, hvað segið þið hin?

Þorgerður sagði...

Ég er að lesa Karamazov bræður um þessar mundir í fyrsta sinn og er að hugsa um að hætta því og segjast hafa lesið hana.

Fía sagði...

Svo var það jú sagan af krítíker sem skrifaði um leiksýningu sem hún mætti ekki á! Kannski er þetta absúrd hugrekki í bland við óvirðingu.

Og N. er mjög inspírerandi höfundur! Tjekkitát -

Biblían er einmitt mjög gott dæmi um bók sem jú ég hef lesið - uhh eeeeða hvað... - hún hafði alla vega áhrif.

GK sagði...

Ég hef aldrei lesið neitt eftir Nítsje en ég hef gengið sömu leið og hann gekk gjarnan þegar hann dvaldi í Eze, litlu þorpi í Suður-Frakklandi sem stendur hátt uppi í fjöllum. Þessa leið vappaði hann gjarnan um það leyti sem hann skrifað Svo mælti Saraþústra.

Svala sagði...

Ég man ekki eftir því að hafa logið upp á mig bóklestri, en það gæti þó hafa gerst á menntaskólaárunum. Man reyndar eftir því að hafa farið í munnlegt próf í bók sem ég las ekki, heldur las byrjun og enda, og fletti rest, og mér gekk alveg ágætlega.

En annars skammast ég mín svo lítið fyrir plebbisma minn að ég játa það hiklaust að hafa gefist upp á flestum bókum Vigdísar Grímsdóttur. Þar fyrir utan á ég Stríð og frið upp í hillu en hef aldrei lesið, og einnig eru þar nokkrar bækur eftir Laxness sem ég hef heldur ekki lesið. Eiginlega hef ég aldrei lesið Laxness nema tilneydd í skóla.

Kannski er það viss lygi að vera með fínar bækur í bókahillunni sem maður nennir ekki að lesa...

Guðrún Elsa sagði...

Ég átti það til að gefa í skyn að ég hefði lesið eitthvað, til dæmis með því að brosa yfir tilvitnun í eitthvað sem ég hafði enga hugmynd um. Þetta getur gerst ef maður er skotin í manneskjunni sem maður er að tala við og mögulega ef maður er að tala við einhvern eldri sem maður vill að haldi að maður sé vitlaus. Ef maður vill ekki feika það er líka sniðugt að þykjast bara ekki hafa heyrt það sem manneskjan sagði og byrja bara að tala um Egil Helgason eða eitthvað.

En í eftir því sem ég fjarlægist menntaskólaár mín hef ég áttað mig á því að flestir sem maður heldur að hafi lesið rosalega mikið, hafa alls ekkert lesið jafnmikið og maður hélt. Svo getur maður líka hafa lesið voðalega mikið - en maður á alltaf alveg fáránlega mikið af merkilegum bókum eftir. Þannig að það er engin skömm í því að spyrja hvurn fjandann sé verið að tala um og játa það að maður hafi ekki lesið allan Laxness.

Eyja sagði...

Haha, eins og sjá má kann ég ekki einu sinni að stafa 'Nietzsche'. En nei, það sem ég hef heyrt af kenningum hans (og víst hef ég heyrt ýmislegt um þær) hefur aldrei vakið áhuga minn nógu mikið til að ég færi að lesa hann. Það er alltaf svo margt annað sem mig langar meira til að lesa, sem er meira relevant fyrir það sem ég er að vinna með eða sem ég þarf nauðsynlega að lesa. En sjálfsagt mundi ég lesa Nietzsche ef ég yrði einhvern tímann búin að vinna á þessum nokkur hundruð bókum sem eru ofar á verð-að-lesa listanum hjá mér. Ég hef lesið ýmislegt annað sem mér finnst stórmerkilegt sem margir sem hafa lesið N. hafa ekki lesið þ.a. líklega kemur þetta út á eitt.

Ég hef bara lesið eina af bókunum á lista Páls, Glæp og refsingu, og kannast hvorki við Buddenbrooks nér The Road.

Annars finnst mér erfiðast þessa dagana að finna rétta jafnvægið milli skemmtilesturs og vinnulesturs eða jafnvel að finna út hvernig ég eigi að flokka lesturinn. Það er nokkuð ljóst að í mínu tilviki er allur skáldsagnalestur skemmtilestur en hvar liggja mörkin milli skemmtunar og vinnu þegar ég les heimspekirit? Ef ég les stundum heimspekirit uppi í rúmi á kvöldin, má ég þá í staðinn lesa skáldsögur í vinnunni? Hvernig á ég að flokka heimspekirit sem tengjast ekki beint mínum rannsóknum? Svo ekki sé minnst á hið sífellda vandamál: Hvernig í ósköpunum á ég að komast yfir þó ekki væri nema svona fjórðung af þeim bókum sem mér finnst ég verða að lesa? Eiginlega er ég svo upptekin af þessum vandamálum að ég má ekkert vera að því að þykjast hafa lesið eitthvað sem ég má ekki vera að því að lesa.

Elías Halldór sagði...

Kenningar Nietzsches eru hið óáhugaverðasta við rit hans. :-)

Þórdís sagði...

Ég hef sko ekki lesið allan Laxness og mér finnst Laxness oft leiðinlegur.

Ég skora á Þorgerði að skrifa bókablogg um það sem hún er búin að lesa af Karamasov-bræðrunum (sem ég hef ekki lesið) og gleyma svo bara afganginum! Druslubókadömur mega alveg skrifa blogg um bækur sem þær hafa ekki lesið. Ykkur að segja þá hef ég ekki lesið bókina How to Talk About Books You Haven’t Read.

Guðrún Elsa sagði...

Ég las The Road, en mér hefði örugglega ekkert fundist hún neitt sérstök hefði ég ekki verið 20 ára og á "road-trip"-i um Bandaríkin á sama tíma.

Svo dettur mér reyndar eitt í hug í sambandi við þessar bækur sem manni finnst mikilvægt að maður hafi lesið. Ég og Kristín Svava vorum á fyrirlestri hjá Orhan Pamuk í síðustu viku og hann benti á það að þegar maður er að lesa einhverja bók sem allir "eiga" að lesa, er maður alltaf líka að hugsa um það á meðan á lestrinum stendur, hvað maður er nú æðislegur að vera að lesa tiltekna bók - Joyce var dæmið sem hann tók. Ég held að það sé nokkuð til í þessu..

Elías Halldór sagði...

Glæpur og refsing er mikið aðgengilegri en Karamazov-bræðurnir (og að mig minnir, mikið styttri).

Ég hef lesið allar ritgerðir Laxness, en bara um það bil helminginn af skáldsögunum. Ég gríp í Íslandsklukkuna stundum þegar ég sit aleinn og hef ekkert að gera.

Ég á þrjár eða fjórar útgáfur af Stríð og frið uppi í hillu, en hef enga þeirra lesið.

Kristín Svava sagði...

Ég er of mikill kjúklingur til að taka sénsinn á að segjast hafa lesið bækur sem ég hef ekki lesið, en ég er mjög gjörn á að segja "jaá, ég hef ekki lesið hana en ég hef heyrt titilinn" um bækur sem ég hef aldrei heyrt minnst á.

Gunnar Hrafn sagði...

Ég hef bara lesið eina bók eftir Paulo Cohelo (eða eitthvað). Það er nóg til að ég hef skoðun á öllu sem hann hefur lesið. Svo las ég á tímabili allar bækur Milans Kunderas (á þýsku). Ég man ekki söguþráð neinnar þeirrar og myndi ekki leggja það á mig að ræða þær við nokkurn mann. Mér leiðast annars umræður um bókmenntir.

Gunnar Hrafn sagði...

Öllu sem hann hefur "skrifað". Biðst velviðringar.

Þorgerður sagði...

Því má svo bæta við að ég hef lesið tvær hálfar bækur eftir Coelho og tjái mig fjálglega um höfundarverk hans.

Þorgerður sagði...

Ég hef lesið Glæp og refsingu, það er sko engin lygi. Þá var ég í menntaskóla og nennti meira að segja að lesa Stríð og frið komplett. Því myndi ég ekki nenna í dag.

Kristín í París sagði...

Ég keypi Saraþústra á íslensku þegar ég var öreigi, eyddi örugglega síðustu krónunum mínum í hana. Í snobbkasti langaði mig svo að lesa N. Ég hef byrjað hundrað sinnum en gefst alltaf upp. Það sem ég skammast mín mest af öllu fyrir að hafa ekki lesið, er Proust og leitin að glataða tímanum. Hvílíkt oft sem maður vitnar í madeleinuna og jurtaseyðið.

Erna sagði...

Mér finnst skilgreiningar Bayards á ekki-lestri frábærar, ekki síst "bækur sem maður hefur gleymt". Það kemur sífellt fyrir mig.

Svala sagði...

Kosturinn við að vera miðaldra og hafa gleymt mörgum bókum er sá að það er hægt að lesa þær upp á nýtt. Ég get lesið suma reyfara nokkrum áraum eftir að ég las þær í fyrsta sinn og þá er fléttan alveg ný og fersk fyrir mér.

Helga frænka sagði...

Aldrei í lífinu mundi ég tjá mig um bók sem ég hef ekki lesið, og finnst þessi umræða alveg frábær!!!! Kannski mundi maður virka svolítið gáfaðri ef maður gerði meira af því, kinka kolli næst þegar allir eru að tala um eitthvað sem ég kannast ekki við, eini maðurinn sem ég hef séð gera það var Joey í Friends:)

þetta er annars stórskemmtileg síða hjá ykkur:)

Ingölfur sagði...

Það er frekar að maður ljúgi því að hafa ekki lesið það sem allir hafa ekki lesið, eins og ljóðabækur Sverris Stormskers eða símaskrána.

Guðrún Elsa sagði...

Úps, fannst einhvern veginn eins og Páll Ásgeir hlyti að hafa verið að tala um "On the Road" eftir Jack Kerouac og fór að tala um hana. En mér fannst The Road eftir Cormac McCarthy mjög leiðinleg. Ekki lesa hana.

hildigunnur sagði...

ég fæ martraðir um svona - að hafa ekki lesið einhverja bók og að ég þurfi að blöffa mig í gegn um að kenna hana. Hef samt örugglega einhvern tímann látist hafa lesið eitthvað.

Páll Ásgeir sagði...

Ég átti reyndar við Veginn eftir Kerouac, Þá sem McCarthy skrifaði hef ég ekki lesið í heild en sat með hana um stund við borð í bókabúð og las og leist reyndar harla vel á.
Mér finnst líka gaman að lesa aftur bækur sem ég las fyrir mörgum árum og var búinn að gleyma. Þær birtast manni oft í nýjum búningi. Þannig las ég Tómas Jónsson metsölubók fyrst þegar hún kom út 1966 og fannst hún fremur óskemmtileg. Næst þegar ég las hana um það bil 10 árum seinna fannst mér hún stórkostleg bók og svo hefur verið við hvern lestur síðan.

Þórdís sagði...

Ég hélt að þú hefðir verið að tala um Bókina um veginn - nei, djók.

beggi dot com sagði...

Einu sinn las ég bók en hún var ekkert sérstök.