13. október 2010

MÁTTLEYSI MIÐALDRA MANNA

Þennan pistil um Svíann Jan Guillou fengum við sendan frá Dr. Gunnari Hrafni Hrafnbjargarsyni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Þeir sem senda svona skemmtilega gestapistla eru í sérlegu uppáhaldi hjá Druslubókadömunum.

Stundum stingur rithöfundurinn Jan Guillou upp kollinum í sænskum fjölmiðlum, oft óforvarendris, jafnan með ákúrur á aðra rithöfunda samtímis því sem hann rómar eigið ágæti. Svíar muna einna helst eftir rifrildi hans og Unni Drougge, en hann sakaði hana um að hún gerði ekki annað en að næla sér í karlmenn til þess að geta svo hefnt sín á þeim í bókum sínum þegar sambandi var slitið. Þetta orðaskak þeirra er dregið upp í hvert sinn sem Unni Drougge (sem sumir álíta jafnathyglissjúka og Guillou) birtist á sjónvarpsskjánum. Þetta greinarkorn er ekki um ritdeilur sænskra rithöfunda. Það er fyrst og fremst stutt lýsing á manni sem hefur mest gaman af að hlusta á sjálfan sig.

Hver er maðurinn?
Jan Oskar Sverre Lucien Henri Guillou fæddist 17. janúar 1944. Móðir hans var af ætt ríkra Norðmanna en faðir hans, sem var franskur, var sonur húsvarðar (síðar sendiherra í Helsinki) við franska sendiráðið í Stokkhólmi. Framan af var Jan Guillou franskur ríkisborgari, en 1975 öðlaðist hann sænskan ríkisborgararétt. Foreldrar Jans skildu þegar föðurafi hans gerðist sendiherra í Helsinki og hún giftist stjúpföður Jans sem beitti fjölskylduna líkamlegu og andlegu ofbeldi eins og lýst er í bókinni Ondskan frá 1981.

Á sjöunda og áttunda áratugnum starfaði Jan Guillou innan maóístísku hreyfingarinnar Clarté og var um tíma meðlimur í Sænska kommúnistaflokknum. Jan Guillou þreytist seint á því að gagnrýna aðskilnaðarstefnu Ísraels. Á sjöunda áratugnum starfaði Jan Guillou sem blaðamaður á tímaritinu FiB aktuellt. Árið 1973 gerðist hann ritstjóri vinstrisinnaða tímaritsins Folket i Bild/Kulturfront sem birti greinar hans og Peters Bratts um IB (Informationsbyrån), leyniþjónustu sænska hersins. Fyrir þátt sinn í að koma upp um leyniþjónustuna var Jan Guillou dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir njósnir.

Leyniþjónustumaðurinn Hamilton, riddarinn Árni Magnússon og lofsöngur höfundar um sjálfan sig
Jan Guillou er án efa þekktastur fyrir bækur sínar um sænska leyniþjónustumanninn Carl Hamilton, en um hann hafa komið út þrettán bækur á árunum 1986-2008. Jafnframt hafa bækur hans um riddarann Árna Magnússon notið mikilla vinsælda. Tvær þeirra, Musterisriddarinn og Leiðin til Jerúsalem hafa komið út á íslensku í þýðingu Sigurðar Þórs Salvarssonar. Auk þessa hefur Jan Guillou skrifað tæplega þrjátíu bækur og greinasöfn, sem fjalla um allt frá hans eigin ævi, mat, veiðar, stjórnmál, og nornaveiðar. Síðust kom út bókin Ordets makt och vanmakt (Máttur og máttleysi orðsins) á síðasta ári. Bókin fjallar um þau fjörutíu ár sem Jan Guillou hefur starfað sem blaðamaður og rithöfundur. Bókin er einn endalaus lofsöngur höfundar um sjálfan sig og það hvað samferðamenn Jans Guillous hafi verið vitlausir og að hann hafi nú alltaf haft rétt fyrir sér. Ég gafst upp áður en ég kláraði fyrsta kaflann og á örugglega ekki eftir að lesa bókina nema ég þurfi að liggja í rúminu í heila viku.

Uppskrúfun og einhæfni
Þegar ég kom í fyrsta sinn til Svíþjóðar á fullorðinsárum (2000) kom ég í fornbókasölu og ákvað að kaupa allar bækurnar um Carl Hamilton. Ég ætlaði mér að læra sænsku og fannst það bráðupplagt að lesa eitthvað létt. Ég hafði ekki hugmynd um hver Jan Guillou var, né að tungumálið sem bækurnar eru skrifaðar á er einstaklega uppskrúfað og einhæft. Ég tengi til dæmis orðið „numera“ (nú á tímum) mjög við bækur Jans Guillous. Þegar ég kynntist konunni minni (sem er sænsk) sagði ég „numera“ í annarri hverri setningu sem ég reyndi að segja á stirðri og norskublandaðri sænsku (við bjuggum í Noregi þá) án þess að hafa hugmynd um hvort það passaði inn eða ekki. Það má segja að sænskur orðaforði minn hafi einskorðast við kafbáta, köfunarleiðangra, titla á rússneskum hershöfðingjum, kavíar og, síðast en ekki síst, frönskum vínum.

Innbrot og árgangavín
Í bókinni Tjuvarnas Marknad (um leynilögreglukonuna Evu Johnsén-Tanguy, sem er gift Pierre Tanguy, sem er vinur Eriks Pontis, sem er aftur á móti vinur Carls Hamiltons, svona flækjur eru í miklu uppáhaldi hjá Jan Guillou, því það er hægt að flétta inn matarboð með öllum þessum persónum í hinar ýmsu bækur) þylur ein sögupersónan upp hvaða vín er til í vínkjallaranum. Þetta eru allt voða fínir árgangar af dýru frönsku víni, en það vill svo til að þetta er vínið sem Jan Guillou á í vínkjallaranum sínum á sveitasetrinu sínu í Östhammar í Upplöndum. Um miðjan september brutust þjófar inn á sveitasetrið og stálu einum fimmtahluta af víninu hans Jans, árgöngunum sem eru nefndir í bókinni, og því sem hann saknar mest, öllum orðum Carls Hamiltons! Sá sem kemur upp um þjófana og skilar orðunum (Guillou er að sögn skítsama um vínið) er lofað fimmtíu þúsund sænskum krónum í fundarlaun.

Gunnar Hrafn Hrafnbjargarson

Heimildir:

Aftonbladet:
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article1329711.ab
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article166513.ab

Expressen:
http://www.expressen.se/nyheter/1.2172693/guillou-utlyser-beloning-for-stulna-medaljer

Wikipedia:
http://sv.wikipedia.org/wiki/Jan_Guillou

6 ummæli:

Elísabet sagði...

Nú langar mig að knúsa hann Jan. Erfitt að láta sér líka illa við uppskrúfaða, miðaldra vindbelgi með smekk fyrir frönskum vínum og rússneskum titlum.

Þórdís sagði...

Í bókinni sem ég er að þýða, Bara vanligt vatten eftir Kajsu Ingemarsson, er frekar fyndin sena þar sem Guillou kemur fyrir. Aðalpersónan, sem er ógeðslega snobbuð skáldkona, snobbar fyrir Jan. Þegar hún hittir hann í Saluhallen á Östermalm (fínasta matvörumarkaði Stokkhólms) kaupir hún fullt af ostrum til að ganga í augun á honum og hendir þeim svo í tunnuna á leiðinni heim til sín því henni finnst ostrur algjör viðbjóður. Eftir á er hún samt ekki viss um að hann hafi tekið eftir henni.

GH sagði...

Vissuð þið að Kajsa er á P1 á fimmtudögum milli 15 og 15.45 (leysir Anniku Lantz af). Hún getur alveg verið svolítið skemmtileg.

Þórdís sagði...

Ég vissi það ekki, best að hlusta á morgun. Mér fannst hún skemmtileg í Parlamentet í sjónvarpin á sínum tíma. Annika Lantz fannst mér annars frábær (ég hlustaði oft á hana fyrir mörgum árum).

hildigunnur sagði...

Hann minnir eiginlega helst á spjátrunginn þarna í Harry Potter, hvaðhannnúhét - Gilderoy Lockhart. Nema sá skrifaði engar spæjarabækur.

Þórdís sagði...

Ondskan (Illskan) kom út á íslensku árið 1999.