14. desember 2010
Drekkhlaðin rolla af gleði
Myndabókin Grallarar í gleðileit er ætluð börnum frá fjögra ára aldri. Björg Bjarkadóttir er höfundur sögunnar og einnig sú sem myndskreytir. Hún hefur samið fjölda myndabóka fyrir yngri lesendur eins og bækurnar um Ömmu: Leyndarmál ömmu og Amma fer í sumarfrí. Eins og í fyrri bókum Bjargar eru myndirnar í Gröllurum í gleðileit fjörugar og litríkar. Allt er á hreyfingu; prump puðrast, fíflar skjótast og vatn skvettist yfir heila opnu. Það ríkir ekki lognmolla í kringum þá Tolla og Todda og Björg sýnir það vel með einföldum myndskreytingum.
Mamma er búin að fá nóg af þeim félögum Tolla og Todda. Hún er hætt að brosa og heimilislífið orðið ansi súrt. Drengurinn Tolli og sauðurinn Toddi henda sér í það að finna eitthvað sem gleður mömmu. Toddi kind hefur frábært reyfi sem getur falið hvað sem er. Hin fullkomna hirsla sem tekur endalaust við dýrmætu dóti eins og krakkar fylla venjulega vasana af. En þeir félagarnir eru ekki að leita að dóti handa sér heldur mömmu og þurfa að hugsa um hvað hún myndi vilja. Toddi og Tolli þurfa að setja sig í spor annarra sem er ekkert sjálfsagt mál hjá lesendahópi bókarinnar. Heyrir mamma ílla? Er hún þreytt? Hvað gæti glatt hana? Þessu velta þeir fyrir sér og reyna svo að finna það sem gæti leyst vandann. Þegar Tolli er kominn með fulla kind af gleðigjöfum fyrir mömmu dynur ógæfan yfir. Toddi hristir reyfið og gjafirnar þeytast út og suður og verða að klessu á götunni. Nema einn fífill, sem reynist að lokum hafa kraftinn til að gleðja mömmu.
Þó að margt sé ágætlega heppnað í Gröllurunum þá hefði mátt vinna söguna aðeins betur hér og þar. Sem dæmi má nefna að Tolli stelur púða fyrir mömmu, stingur honum í reyfið á Todda og síðan hlaupa þeir félagarnir í burtu. Það að þeir séu komnir út í gripdeildir fær ekki frekari umfjöllun rétt eins og það sé bara alvanalegt hjá myndabókaaldurshópnum að standa í slíku.
Grallarar í gleðileit er bráðskemmtileg myndabók með góðri blöndu af grallaraskap og væntumþykju sem gefur færi á áhugaverðum samtölum við litla spekinga um líðan fólksins í kringum okkur.
Helga Ferdinandsdóttir
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Mér sýnist hún ansi flott myndin framan á bókinni.
Skrifa ummæli