Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að hrósa Hreinsun eftir Sofi Oksanen (og þar að auki er komið skuggalega mikið af jákvæðum dómum hjá okkur á Druslubloggið undanfarið) en ég held ég neyðist samt til að taka Hreinsun með dynjandi lófataki.
Henni tekst að segja erfiðar, já segjum bara ömurlegar, sögur af tveimur ólíkum konum á ólíkum tímum án þess að bókin sjálf verði nokkurn tíman þung eða niðurdrepandi aflestrar þótt vissulega taki hún á.
Það er ekki hlaupið að því að skrifa um mansal og misnokun án þess að detta í klisjur en það tekst Oksanen. Henni tekst að skrifa um hvernig nauðgun var (og er) systematískt notuð í stríðum til að brjóta niður manneskjur og þar með þjóðir og hvernig vestræn samfélög nútímans herja á sambærilegan hátt á líkama fátækra kvenna. Allt þetta á svo lipran hátt að aldrei hvarflar að manni að hún sé að predika eða koma upplýsingum á framfæri, maður bara rífur sig áfram gegnum bókina, æsispenntur.
Hér segir frá Aliide og Zöru sem eyða óvænt saman nokkrum dögum í húsi þeirrar fyrrnefndu. Við fyrstu sýn eiga þær ekkert sameiginlegt en smám saman flettist ofan af sögum þeirra svoleiðis að lesandinn hreinlega fölnar. Saga Aliide gerist um og eftir seinni heimstyrjöldina þegar Eistland var hertekið af Rússum en Zara er ung stúlka á flótta undan annars konar stríði í nútímanum. Sögur þeirra eru ólíkar en þó tengdar órjúfanlegum böndum þeirra sem standa hjálparvana gegn ofurefli.
Aliide er ein eftirminnilegasta bókmenntapersóna sem ég hef lengi rekist á og án þess að segja of mikið (þetta er nefnilega spennusaga ofan á allt annað og hvað elska ég meira en reyfara??) þá er óhætt að segja að Oksanen neyði lesandann til að fara út á hálan og óþægilegan ís með þessari sérkennilegu konu. Það er líka merkilegt að þótt að bókin sé átakamikil og jafnvel hröð er samt nostrað við smáatriði þannig að mér finnst ég gæti ratað blindandi um kotið hennar Aliide og þótt ótrúlegt megi virðast eru lýsingarnar á heimilisstörfum hennar eitt það eftirminnilegasta og magnaðasta í sögunni.
Tónn bókarinnar er sleginn strax á fyrstu síðu þegar Aliide reynir varna viðurstyggilegri maðkflugu að komast í kjötið og verpa þar og segja má að þessi huggulega maðkfluga smokri sér af mikilli list inn í söguna og skelli sér bæði í myndlíkingar og matinn áður en yfir líkur.
Maðkflugur, mansal og stríð...Hreinsun hljómar kannski ekki eins og jólabókin í ár en hún er auðlesin, lúmskt fyndin, æsispennandi og gríðarlega vel skrifuð. Hvað meira er hægt að biðja um?
Maríanna Clara
7 ummæli:
Og er hún vel þýdd? Eða ætti maður að splæsa í hana á sænsku eða ensku?
Hún er örugglega vel þýdd á íslensku en þar sem ég sé að þú ert í Stokkhólmi myndi ég bara ná mér í hana á sænsku :)
Ég er glötuð - hún er mjög vel þýdd af Sigurði Karlssyni eins og hefði of course átt að koma fram í umfjölluninni...
En á frönsku? Á ég að kaupa hana á frönsku? (djók) En rosalega langar mig að lesa hana, ég hugsa svei mér þá að ég gefi tengdamömmu hana á frönsku í jólagjöf og fái hana svo að láni (þetta er jólagjafatrikk sem ég lærði á feisbúkk í gær).
tjah - nú þori ég ekki að tjá mig um frönsku þýðinguna en enska er fín - ég var byrjuð á henni á ensku þegar ég fékk hana á íslensku! En já - þetta er gamal og gott jólagjafatrikk - ég er einmitt að spá í hverjum ég geti gefið Svar við bréfi Helgu...
Eiríkur Örn segir á blogginu sínu: "Sofi Oksanen skrifar einsog gamall grobbinn kall. Hún skrifar „bókmenntastíl“ – nóbelsverðlaunastíl fyrir dummies, stíl sem er einhvern veginn fullkomlega ómeðvitaður um sjálfan sig, fullkomlega efalaus um sjálfan sig, straumlínulagaður, hnökralaus, glansfágaður – fullkominn einsog paint-by-numbers, hellt-í-mót og pret-a-porter."
Meira má lesa á síðunni hans, því miður er ekki hægt að krækja á einstaka færslu, það þarf að skrolla niður. http://www.norddahl.org/blogg/
Ég er ekki búin að lesa bókina - ætla aðeins að láta hana liggja.
An awesome article, I just passed this onto a fellow worker who was doing a little research on that. And he in fact purchased me dinner because I found it for him... smile.. So let me rephrase that: Thnx for the treat! But yeah Thnx for taking the time to discuss this, I feel strongly about it and love reading more on this topic. If possible, as you gain expertise, would you mind updating your blog with more info? It is highly helpful for me. Two thumb up for this share!
Skrifa ummæli