Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía, þykir sláandi líkur Einari Áskeli |
Hvað varð um Einar ærslabelg? lýsir margvíslegum kvíða Einar Áskels fyrir fyrsta skóladeginum en í lokin kemur í ljós að kennarinn hefur verið enn kvaldari af magapínu og svefnleysi en börnin, og bæði þurft að fara í lagningu og kaupa sér nýjan kjól því hún hefur kviðið því svo að taka á móti nýjum og ókunnugum bekk (þarna má auðvitað líka lesa allskonar um kynhlutverkin á milli línanna). Mér finnst síðarnefnda bókin skemmtilegri, bæði hvað varðar texta og myndir, myndverk Gunillu Bergström eru reyndar algjörlega spes og ekki síður mikilvæg en textinn.
Haustið 2006 kom út sérstakt þemahefti af tímaritinu Börnum og menningu, þar fjalla ýmsir um bækurnar um Einar Áskel vítt og breitt. Meðal annars má þar finna grein Þorgerðar E. Sigurðardóttur Einar Áskell í mynd, þar sem hún bendir á að myndlýsingar séu ekki bara skraut og punt, heldur séu myndir merkingarbærar sem slíkar, ekki síst í bókum á borð við Einars Áskels-bækurnar. Þorgerður segir að í bókunum um Einar Áskel sé oft togstreita á milli texta og mynda, en textinn virðist samt ráða því nokkuð hvernig lesendur skynja bækurnar. Sú hugmynd er ríkjandi að Einars Áskels-bækurnar byggi á félagslegu raunsæi og það er eðlilegt miðað við hvað tekið er til umfjöllunar í bókunum, frásagnirnar eru næstum alltaf hversdagslegar, línulegar og textinn skýr. Myndirnar eru hins vegar alls ekki neinar eftirlíkingar af lífinu heldur er notast við allskonar tækni, m.a. klippimyndir eins og súrrealistarnir gerðu í gamla daga. Ég ætla ekki að rekja skemmtilega grein Þorgerðar (kannski getur hún fundið hana í heilu lagi og birt hana hérna) en hvet alla til að velta fyrir sér tengslum mynda og texta þegar bækurnar um Einar Áskel eru lesnar.
Í fyrrnefndu þemahefti Barna og menningar um Einar Áskel er líka grein eftir Hörpu Jónsdóttur þar sem hún rekur ýmislegt áhugavert sem tengist bókunum, en þar kemur m.a. fram að þó þær hafi komið út í fjölda landa um víða veröld hefur enginn bandarískur útgefandi hingað til viljað gefa bækurnar út. Að sögn höfundarins er það vegna þess að þeim finnst Einar Áskell of ófríður, hann vantar öll krúttheit. Grein Hörpu heitir En hvar er mamman? og fjarvera mömmunnar hefur auðvitað orðið mörgum umræðuefni. Einar á frænku og ömmu, en ekkert bólar á mömmunni. Á heimasíðu Einars, www.alfons.se, er spurningunni um mömmuna fjarverandi svarað eitthvað á þessa leið:
Það er enginn sem veit almennilega hvar hún er… Hún er kannski úti í búð, í þvottahúsinu eða þá að þau eru skilin og hún getur meira að segja verið dáin. Hver og einn verður að ákveða fyrir sig hvar mamma Einars er.Harpa fer í grein sinni yfir ýmsa gagnrýni sem bækurnar og höfundurinn hafa fengið og nefnir m.a. bókina Var það vofa Einar Áskell? Sú bók var töluvert gagnrýnd í Svíþjóð, bókin þótti ógnvekjandi og sumir gengu svo langt að segja að nú hefði Einar brugðist börnunum og að fokið væri í flest skjól fyrst ekki væri á hann að treysta lengur. En bókin varð vinsæl þrátt fyrir allt og margir fara í myrkfælniköstum með romsuna sem Einar lærir af pabba sínum: ,,Árans draugsi út með þig, ekki skaltu hræða mig - enda ertu ekki til!“ Harpa minnist líka á grein sem birtist árið 2006 í tímariti sænska rithöfundasambandsins, þar sem blaðamaðurinn Arne Stråby sagði pabba Einars Áskels vera úrelta föðurímynd sem betur ætti heima á sjötta áratugnum en í nútímanum, en pabbinn situr gjarna og les blöðin eða reykir pípu. Greinin vakti litla umræðu en Gunilla Bergström svaraði henni og segir að pabbinn eigi ekki að vera fyrirmynd heldur venjuleg bókapersóna og að fólk þurfi ekki að vera fullkomið í barnabókunum frekar en í raunveruleikanum. Hún bendir einnig á að það sé tilvalið að nota reykingar pabbans til að ræða við börn og benda þeim á að svona sé ekki heppilegt að gera.
Mér datt í hug að birta hér útdrátt úr viðtali sem ég átti við höfund Einars Áskels-bókanna og birtist í Börnum og menningu 2/2006. Viðtalið fór þannig fram að ég hringdi í hana sitjandi í stiganum heima hjá mér og við spjölluðum saman í svona hálftíma.
Ég byrjaði á að spyrja hvers vegna Gunilla, sem starfaði lengi sem blaðamaður, hafi hætt blaðamennskunni og snúið sér að barnabókaskrifum.
- Þetta voru mörg skref. Fyrstu bækurnar skrifaði ég þegar ég var ennþá starfandi sem blaðamaður en það sem gerði útslagið og fékk mig til að hætta, það var árið 1976, var að ég fékk 5 ára styrk frá sænska rithöfundasambandinu. Þá þorði ég að stíga skrefið til fulls og gerast rithöfundur í fullu starfi. Á þessum tíma hentaði það mér vel að vera heimavinnandi, börnin voru lítil og þetta var afar kærkomið tækifæri.
Myndskreytingarnar í bókum Gunillu eru listaverk og myndirnar hafa verið sýndar á sýningum hér og þar um heiminn. Ég spyr hvort henni finnist skemmtilega að búa til þessi skondnu samkipp eða hvort henni finnist skemmtilegra að semja sögurnar.
- Þetta hangir á sömu spýtunni. Ég get ómögulega skipt þessu algjörlega í tvennt, en vissulega finnst mér gaman að undanfarið hafa myndirnar fengið meiri athygli en áður. Ég starfa þannig að á meðan ég er að hugsa upp söguna þá skrifa ég hjá mér punkta. Samtímis sé ég myndirnar fyrir mér. Jú, ég skal játa að mér finnst eiginlega skemmtilegra að búa til myndirnar.
Hvað heldur Gunilla að hafi valdið vinsældum bókanna áratugum saman?
- Einar Áskel má kannski kalla hið eilífa barn. Það er ekkert í bókunum sem minnir sérstaklega á eitt tímabil eða annað. Hann á ekki að vera fallegur og hann á ekki að vera í tískufötum. Ég er á þeirri skoðun og að ef persóna í barnabók er sæt og í fallegum fötum þá fari fólk að velta fyrir sér útlitinu og fötunum. Mér finnst föt og útlit ekki skipta máli og mér finnst slæmt hvað mikið er lagt upp úr slíku. Ég vil hafa Einar Áskel jafn hlutlausan og tímalausan og hægt er. Ég er vissulega ánægð með að bækurnar séu svona vinsælar, þær fylgja fast á eftir bókunum hennar Astrid Lindgren og ég er stolt af því. Skýringin liggur mögulega í því að ég skrifa um það sem er sammannlegt. Ég hef alltaf haft áhuga á sálfræði og verið sjúklega forvitin um venjulegt fólk. Ég hef áhuga á hvernig fólk umgengst hvert annað, hvernig sambönd fólks þróast og hvernig allskonar mynstur verða til í samskiptum. Ég á við svona hluti sem við vitum öll af en erfitt er að setja fingur á. Þegar ég var 11-12 ára byrjaði ég beinlínis að njósna um venjulegt fólk og ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á því sem tilheyrir lífi hverrar einustu manneskju. Það ganga til dæmis allir í gegnum það einhverntíma að vera einmana, sakna einhvers eða hafa slæma samvisku. Um þessa sammannlegu reynslu fjalla mínar bækur.
Bækurnar um Einar Áskel lýsa „venjulegum“ strák í „venjulegu“ úthverfi og ég segi Gunillu að ég haldi að flestir eigi auðvelt með að samsama sig Einari og pabba hans. Þess vegna er ég forvitin um hvað henni finnist um fantasíubækur sem nú eru vinsælar, t.d. Harry Potter.
- Bækurnar um Einar Áskel má líklega flokka sem félagslegt raunsæi. Þar eru engar prinsessur, þar gerast engin kraftaverk, enginn vinnur milljón í lottói og alltaf er allt nokkurn veginn á sínum stað eins og venjulega. Ég las eina af bókunum um Harry Potter, svona til að geta talist upplýst, og mér fannst hún alveg ágæt. Mér finnst svoleiðis bækur sýna að börn þurfa á því að halda að tilheyra einhverjum hópi. Þarna eru engin trúarbrögð, engir fjölmiðlar, engar ákveðnar reglur, ekkert öryggi. Vinirnir og hópurinn sem börnin tilheyra er það sem mestu skiptir. Það eru félagarnir sem eru hver öðrum til halds og trausts.
Í sögunum um Einar Áskel, t.d. Einar Áskell og stríðspabbinn, er tekið á erfiðum spurningum með húmor að vopni. Ég spyr Gunillu hvort henni finnist mikilvægt að geta hlegið að því sem hræðir okkur og hvort það sé mögulegt að hlæja að hverju sem er.
- Það eru forréttindi að hafa skopskyn svo svar mitt er tvímælalaust já, já, já, því sá sem getur hlegið að því sem að höndum ber stendur með pálmann í höndunum Ég vil standa fyrir því að fólk hlægi meira. En þá er ég ekki að tala um hæðnishlátur, því sá sem hlær slíkum hlátri hlýtur að vera óhamingjusamur.
Ég segi Gunillu frá þætti sem ég sá í sænska sjónvarpinu þar sem kom fram að 20% sænskra unglinga séu neikvæðir og fordómafullir í garð innflytjenda og samkynhneigðra. Fulltrúi frá sænska kennarasambandinu sagði í þættinum að í könnuninni hefði komið fram að þeir unglingar sem ekki lásu fagurbókmenntir hefðu sýnt sig hafa meiri fordóma en þeir sem lesa reglulega sér til ánægju. Síðan spurði ég hana hvort hún hugsaði pólitískt, hvort hún skrifi meðvitað þannig að börn fái skilning á ólíkum menningarheimum. Hún svaraði ekki beint hvort hún liti á sig sem boðbera ákveðinna gilda en sagði:
- Mér finnst þetta mjög áhugavert. Ég held að gildi bókmennta felist í því að við fáum tækifæri til að prófa að lifa lífi annarrar manneskju. Hvernig er að vera konungur, morðingi, ráðherra, sá sem lagður er í einelti og svo framvegis. Við lestur sé ég líf annarra innanfrá. Ég fæ að prófa að vera kóngur eða krimmi. Þá lærist manni að meiri líkindi en ólíkindi eru með því sem við köllum ólíka menningarheima.
2 ummæli:
En skemmtilegt viðtal! Ég hefði verið alltof starstruck til að taka viðtal við Gunillu. Mig minnir reyndar að bróðir minn hafi líka tekið viðtal við hana þegar hann vann á Mogganum og þótt mikið til koma, enda erum við alin upp á Einari Áskeli.
Salka
Hún var rosa næs (þannig er auðvitað allt alvöru fólk eiginlega allaf), reykti bara nokkrar sígó á meðan við spjölluðum og svo bauð hún mér í heimsókn.
Skrifa ummæli