28. febrúar 2012

Hringdans um bók

Ég held ég hafi nokkrum sinnum lýst því yfir á þessari síðu að ég sé lítið fyrir átakanlegar lífsreynslusögur. Samt fór það svo að fyrstu þrjár bækurnar sem ég las á þessu ári féllu í þann flokk. Fyrst Er lítið mein yfirtók líf mitt, svo Felicia försvann og loks sú sem fjallað skal um hér, Ómunatíð: Saga um geðveiki eftir Styrmi Gunnarsson.

Ómunatíð fjallar um líf með geðsjúkdómi. Eiginkona Styrmis, Sigrún Finnbogadóttir, fékk fyrstu einkenni geðhvarfasýki fyrir rúmum fjórum áratugum og segja má að veikindi hennar hafi mótað líf þeirra hjóna sem og dætranna tveggja upp frá því. Frásögnin er öðrum þræði ofin þessari persónulegu reynslu með stuðningi úr sjúkraskrám Sigrúnar en inn í hana eru jafnframt fléttaðar vísanir í aðrar heimildir, fræðibækur og –greinar, ævisögur og skáldskap.

Það er kannski bara best að ég segi það strax að ég veit ekki alveg hvað mér fannst um þessa bók og skoðanir mínar á henni eru æði mótsagnakenndar. Mér finnast styrkleikar hennar jafnframt vera veikleikar hennar og gallarnir í og með kostir. Mig grunar til dæmis að þeir lesendur sem hafi hlakkað til að fá þarna tækifæri til að kíkja inn um bréfalúguna hjá þjóðþekktum manni hafi fengið fremur lítið fyrir sinn snúð. Í stað tárvotra lýsinga á fjölskylduhörmungum sitja þeir uppi með ágrip af sögu geðlækninga og hálffræðilegar vangaveltur um gagnsemi raflækninga. Sjálfri fannst mér þeir kaflar athyglisverð og fróðleg lesning. Ég held að við höfum öll gott af að vita hve stutt er síðan (og stutt í) að við meðhöndluðum geðsjúka einstaklinga eins og dýr í búrum. Mér fannst líka að vissu leyti ferskur andblær yfir þessar vinnuaðferð að blanda heimildarvinnu við persónulegan texta. Hún tryggði að minnsta kosti að ekki var reynt að höfða til lægstu hvata lesenda með því að klæmast á þungbærustu smáatriðunum. Það er alltaf hætt við að bók eins og þessi verði búrið sjálft. Að þangað leiti lesendur til að skoða hinn geðsjúka, virða fyrir sér atferli hans sjálfum sér til skemmtunar um stund en hverfi síðan frá jafnsinnulausir og áður. Þetta tekst Styrmi að forðast.


En svo sný ég mér í hálfhring: Því um leið og ég fagna þessari frekar ópersónulegu vinnuaðferð verð ég að játa að hún er jafnframt einn stærsti galli bókarinnar. Ef markmiðið er, og það held ég að sé morgunljóst, að miðla upplýsingum, fá fólk til að skilja hvernig líf með geðsjúkdómum er, vekja til vitundar og opna umræðu þá hefði verið betra að hleypa lesandanum aðeins nær. Höfundurinn er ritfær maður með reynslu sem hlutfallslega fáir hafa en í stað þess að tala sjálfur særir hann fram lækna úr sjúkraskrám, þekkta geðsjúklinga úr ævisögum og fræðimenn úr þurrum upplýsingaritum og lætur segja söguna fyrir sig. Ég er viss um að það hefði verið hægt að hleypa lesendum nær án þess að saga Sigrúnar væri misnotuð á nokkurn hátt. Lokakafli bókarinnar inniheldur erindi sem dóttir þeirra hjóna, Hulda Dóra Styrmisdóttir, flutti á ráðstefnum um málefni geðsjúkra fyrir fáum árum. Hún gengur skrefinu lengra en Styrmir í að lýsa tilfinningum sínum og hugsunum, ótta og sorg. Um margt er það sá kafli sem hefur mesta fræðslugildið, vekur mann helst til umhugsunar. Hann fyllir mig trú á að það hefði verið hægt að nálgast umfjöllunarefnið á persónulegri hátt án þess að gera úr því sýningargrip.

Að lokum sný ég mér svo eiginlega í annan hálfhring því þrátt fyrir allt grunar mig að kannski sé þessi frásagnaraðferð einmitt persónuleg í ópersónuleika sínum. Að hún lýsi höfundi sínum vel, vitni um mann af þeirri kynslóð þar sem virðing var borin fyrir læknum og fræðimönnum og þeir taldir lýsa veröldinni best. Að hún beri einfaldlega með sér andblæ þess tíma þegar óþarfi þótti að ræða um tilfinningar því svona voru hlutirnir bara. Hún er einlæg á sinn öfugsnúna hátt. Og það þykir mér dálítið krúttlegt. Ég get að vísu ekki alveg varist því að þykja þetta heldur karllægur frásagnarmáti. Þessi þörf fyrir að reyna að ná utan um söguna í heild, rekja hana aftur í aldir, setja í tímaröð og kalla ýmis vitni sér til fulltingis. Það örlar líka á ónotatilfinningu þegar ég leiði hugann að því að það sé karlinn í fjölskyldunni sem segi sögu geðsjúku eiginkonunnar og dætranna tveggja sem ólust upp við svo sérstakar aðstæður. En auðvitað verður fólk að hafa hlutina eins og það vill.

Það sem mér fannst allra best við bókina var hins vegar þessi mildilegi tónn sem hún er skrifuð í. Reynslan og tíminn hafa slípað Styrmi til og þrátt fyrir ýmislegt hefði mátt betur fara í því viðmóti sem mætt hefur fjölskyldunni gegnum tíðina er hann engum reiður. Hann er líka tilbúinn að líta í eigin barm á einlægan hátt, velta fyrir sér hvort hann hefði sjálfur getað gert hlutina betur eða öðruvísi – en skilur þó sáttur við. Á tímum þar sem þrítugir skrifa sjálfsævisögur sínar unnvörpum og handirtshöfundar Hollywood eru byrjaðir að vinna að næstu stórmynd korteri eftir að hörmungarnar gerast er þetta hressandi sjónarhorn. Fjarlægð tímans gerir frásögnina ljúfsára frekar en bitra eða ákafa og ég kann að meta það.

Sjálf held ég að það sé hins vegar tímabært að ég horfi einlæglega í eigin barm og sættist við að lífsreynslusögur eru almennt eitthvað sem ég kann ekki að meta. Ég held að það sé öllum fyrir bestu að ég hætti að lesa þær – og skrifa um þær.

2 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Mér finnst þessi bók býsna áhugaverð og óvenjuleg. Hins vegar fékk ég líka á tilfinninguna að höfundurinn væri að reyna að vera einlægur en tækist það ekki alveg.

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Mig langar að nefna þá skoðun mína að Ómunatíð sé einstök gersemi einmitt af því hún er skrifuð af karli sem er maki geðsjúkrar konu og. Slíkar bækur eru fágætar. Í lokin kemur svo fram sjónarmið dótturinnar sem elst upp við slíkar aðstæður, þ.e. að eiga móður sem er mjög veik.

Ég hef lesið helling af lífsreynslusögum sjúklinga og finnst þær afar misjafnar að gæðum. Oftast eru þær skrifaðar af sjúklingunum sjálfum, t.d. alkóhólistum eða fólki með aðra geðsjúkdóma. En til þessa hefur mjög vantað sýn aðstandanda, í íslenska bókmenntaflóru svona sagna. Kannski þarf maður að þekkja vel til til að koma auga á margt sem Styrmir segir og nýtist aðstandendum beint? Bæði ég, sem er öryrki af völdum þunglyndis, og maðurinn minn höfðum gagn af þessari bók, ekki hvað síst maðurinn minn, sem er jú í sömu stöðu og Styrmir (þótt geðsjúkdómur minn sé annar en Sigrúnar í Ómunatíð). Hófstemmdur stíll bókarinnar er einmitt aðall hennar; Fyrir vikið verður frásögnin miklu sterkari. Þeir sem eru að leita að krassandi harmagrát ættu heldur að lesa lífsreynslusögur kvennatímarita, þar er nóg af svoleiðis.

Raunar eru mjög sorglegar lýsingar í bókinni, þær má t.d. lesa úr sjúkraskýrslum eiginkonunnar. En lesandanum er ekki velt upp úr harminum.

Þessi lágstemmda frásögn Styrmis af því að búa við fjölskyldulíf sem litast ofboðslega mikið af sjúkdómi konu hans minnti mig mest á Minn hlátur er sorg, ævisögu Ástu Sigurðardóttur eftir Friðriku Benónýs. Úr alka- og geðsjúkdómabókunum standa þessar tvær upp úr. Kannski af því sjúklingarnir skrifuðu þær ekki sjálfir?