Í dag fór ég loksins að sjá nýju kvikmyndina um Prúðuleikarana. Ég var búin að hlakka barnslega mikið til, enda nógu gömul til að hafa alist upp við Prúðuleikarana í sjónvarpinu og stundum fengið að fara sérstaklega í heimsókn til vinkonu minnar til að sjá þá í litasjónvarpi því það var svarthvítt sjónvarp heima hjá mér. Enn þann dag í dag léttist brúnin á mér samstundis og ég heyri fyrstu tónana í upphafslaginu, hvað þá ef ég fæ líka að sjá upphafssenuna. Sem betur fer varð ég ekki fyrir vonbrigðum með kvikmyndina. Eiginlega er ég að hugsa um að kenna hamingjukastinu sem ég var í eftir hana um það hvað ég eyddi miklu á bókamarkaðnum þar sem ég kom við á heimleiðinni.
Þegar ég kom heim var ég enn í nostalgíukasti og dró fram bók um Prúðuleikarana sem ég hef átt síðan ég var barn.
Setberg gaf hana út árið 1978 og sérstaklega er tekið fram að það sé gert "með leyfi Henson Ass. Inc., New York". 1978 var ég þriggja ára (tæplega fjögurra ef bókin hefur komið út um jólin), ég er ekki viss hvort ég hef eignast bókina strax þá en miðað við rithöndina á merkingunni hef ég allavega ekki verið mjög gömul.
Í bókinni eru persónurnar kynntar og þar eru líka teiknimyndasögur um ýmiss konar vandræði í Prúðuleikhúsinu en einnig þrautir og föndur og spil. Spilið á eftirfarandi mynd spilaði ég t.d. oft. Í neðra vinstra horninu má einnig sjá að ég hef skrifað í bókina. Ég sem hélt að ég hefði aldrei lagt það í vana minn að krota í bækur en þarna hef ég greinilega enn verið ung og ómótuð. Ég get þó fullyrt að ég hef aldrei krotað í bókasafnsbækur; þegar ég las pistil Eyju um spássíukrot í fyrradag rifjaðist upp fyrir mér að slíkt er glæpur gegn mannkyninu í mínum augum!
Þetta fannst mér alltaf fyndið, sérstaklega "berið þið heim bréf, dúfur?":
En þótt ég hafi spilað spilin í bókinni og leyst allar þrautirnar, fyrir nú utan að lesa sögurnar, man ég ekki til þess að hafa reynt að föndra eigin prúðuleikhús eins og hér er hvatt til:
Ég hef aldrei séð bókina neins staðar annars staðar en einhverjir lesenda hljóta nú að hafa átt hana líka. Er það ekki annars?
6 ummæli:
Jú, ég átti hana.
Ég átti hana líka. Fannst alveg agalegt að eiga uppskrift í henni að því hvernig ætti að búa til Kermitdúkku, en sama hvað ég reyndi þá tókst aldrei að búa hana til.
Þetta er frábær bók! Mitt eintak var ekkert nema kápan þegar ég fann annað í Kolaportinu í fyrra. Þvílík heppni. Mér fannst teningaspilið alltaf svo skemmtilegt og ég reyndi líka að föndra Kermit en það mistókst alveg hræðilega.
Ég tók hana afskaplega oft á safninu! Frábær bók, kann hana örugglega næstum utan að.
Salka
Ég var einmitt að segja fjölskyldunni minni sögu af mér, tengdri þessari bók. Fékk sem sagt eintak í jólagjöf og merkti mér en skrifaði ekki sérlega vel á þessum árum. Fann svo "bókina" nokkrum árum síðar, ómerkta. Ég var ægilega glöð að mig hefði misminnt að hún væri merkt með hræðilegri skrift og merkti hana umsvifalaust aftur. Það kom síðan í ljós að þetta var eintak systur minnar. Ég held að ég sé enn með bæði eintökin :). Mér fannst þetta æðisleg bók og lét mig dreyma um allt föndrið í henni en lét ekki verða af neinum föndurtilraunum.
ég á ennþá mitt eintak sem er orðið ansi þreytulegt en hangir þó saman!
Ég segi eins og dönskukennarinn hér að ofan - ég dáðist að föndurleiðbeiningunum en eins og með Matreiðslubók mína og Mikka lagði ég ekki í verklegar framkvæmdir (fyrir utan hin gríðarlega mislukkuðu karamelluepli)
Skrifa ummæli