Það sem ég vissi ekki áður en ég byrjaði að lesa bókina var að í rauninni er hér ekki um að ræða eiginlegar endurminningar Gyðu Thorlacius heldur eins konar samræður danska guðfræðingsins Viktors Bloch við þær. Bloch var tengdasonur Gyðu og gaf endurminningar hennar út árið 1845, en í stað þess að gefa út handritið hennar endursegir hann sögu hennar með eigin orðum og völdum tilvitnunum í upprunalega textann. Árið 1930 voru endurminningarnar gefnar aftur út í Danmörku, en þá vildi svo óheppilega til að upprunalegt handrit Gyðu hafði eyðst í bruna árið 1881 og því var ekki um annað að ræða en endurútgefa endursögn Blochs.
Endurminningarnar voru svo gefnar út á íslensku árið 1947, þýddar af Sigurjóni Jónssyni lækni. Þar bætist enn önnur persóna við í samræðurnar því þótt Sigurjón einbeiti sér aðallega að því að gera grein fyrir ýmsum Íslendingum í neðanmálsgreinum og leiðrétta staðreyndavillur um íslenska landafræði á hann það til að sleppa ýmsu úr frásögninni sem honum finnst ekki koma málinu við og blanda sér jafnvel í hana.
Staðan sem Bloch, og í minna mæli Sigurjón, taka sér milli höfundar og lesanda gerir lesturinn oft ansi frústrerandi. Manni líður eins og það sé verið að halda manni með valdi frá upprunalega textanum, koma í veg fyrir að maður geti gleymt sér í frásögn Gyðu – sums staðar vantar meira að segja gæsalappir í endursögnina svo texti hennar og texti Bloch renna saman í undarlegt kaos fyrstu og þriðju persónu, eintölu og fleirtölu. Sjálfsævisögur 19. aldar kvenna á Íslandi eru aldeilis ekki margar, og það er alveg dæmigert að það skuli þá þurfa að vera einhver kall sem tekur að sér að leggja faglegt mat á og endursegja textann, með ýmsum föðurlegum athugasemdum um hvað „veslings frúin“ hafi verið í miklu uppnámi við hitt og þetta tækifæri.
Svæsnasta dæmið um þetta er á blaðsíðu 77. Gyða virðist hafa þjáðst af talsvert alvarlegu þunglyndi og fjallar opinskátt um líðan sína í endurminningunum, en oftar en einu sinni var hún beinlínis í sjálfsvígshugleiðingum. Á blaðsíðu 77 segir Bloch í aðaltextanum: „Nú leið ekki vel í Gyðuborg. Miltissýki frúarinnar var nú komin til sögunnar aftur og var hin magnaðasta.“ Í neðanmálsgrein við þetta segir Sigurjón Jónsson: „Í aths. við útgáfuna frá 1930 er það haft eftir V. Friis-Möller yfirlækni, að þessi veikindi frúarinnar hafi verið barnsburðar-geðveiki, er hún hafi fengið upp úr barnsburðinum um jólin 1808; má það vera, og að vísu byrjuðu þau þá. [...] Bendir þetta fullt svo mikið til magnaðrar taugaveiklunar og móðursýki, enda slíkra einkenna oft orðið vart hjá frúnni fyrr og síðar“. Þarna ná hvorki meira né minna en þrír karlmenn að sjúkdómsgreina höfundinn á einni blaðsíðu, sem er nokkuð vel af sér vikið í bók sem á að heita höfundarverk Gyðu Thorlacius.
Eftir stendur að við fáum innsýn inn í ýmislegt sem ekki er endilega talað mikið um í endurminningum karla frá þessum tíma, til dæmis meðgöngu og fæðingu, brúðkaupssiði, matargerð og almennt heimilislíf. Gyða eignaðist sjö börn á þessu tímabili, þar af sex á Íslandi. Sérstaklega er frásögnin af fyrstu fæðingu hennar áhrifarík, en þá var hún tiltölulega nýkomin til landsins. Það var engin lærð ljósmóðir á Austfjörðum og meira en 100 kílómetrar í næsta lækni. Sóttar voru tvær gamlar konur til að sitja yfir henni og þær báðu bænir við rúmstokkinn í tvo sólarhringa, en við og við „komu þær með einhverjar ráðleggingar, sem mér sýndust ólíklegri en svo, að farandi væri eftir þeim, og hjákátlegri en svo, að ég vilji tilgreina þær hér“. (26) Í ofanálag fékk hún stálma sem kunnugir menn reyndu að lækna á svipaðan hátt; með sálmasöng.
Teikning af klæðaburði Íslendinga úr ferðabók Ebenezers Henderson. |
Fleiri kunnuglegir einstaklingar úr Íslandssögunni koma fyrir, svo sem Bjarna-Dísa og Jörundur hundadagakonungur, en það kom mér í opna skjöldu hversu mikil örvænting virðist hafa gripið dönsk sýslumannshjón eins og Gyðu og Þórð við fréttirnar af valdaráni Jörundar, sem hefur frekar verið fjallað um í gamansömum tóni í sögunni síðan. Þau voru allt eins að búa sig undir að vera tekin til fanga og flutt nauðug í útlegð til Vestmannaeyja.
Við græðum hins vegar örugglega á því sem lesendur að Gyða skuli hafa verið útlendingur á Íslandi, enda glöggt gests augað og allt það. Sérlega falleg fannst mér þessi frásögn hennar af því þegar hún kemur ríðandi til vina sinna á Íslandi, ólétt í miðjum vöruskorti Napóleonsstyrjaldanna, í von um að geta fengið hjá þeim svolítið af kaffi og sykri:
„Enginn átti á mér von, og þeim mun betur var mér fagnað. Þau sögðu okkur, að ég hefði „sótt að þeim“, þ.e.a.s.: meðan ég var á leiðinni og hugurinn var hjá þessum vinum mínum, setti að þeim óróleika, þrá eftir einhverju fjarstöddu, hugboð um eitthvað óvenjulegt, er boðaði þeim komu kærs vinar. „Aðsóknir“ eru þannig samúðaráhrif á sálina frá fjarverandi fólki, og enginn Íslendingur mun víst neita, að þær eigi sér stað.“ (61)
Viktor Bloch er öllu tilgerðarlegri í sinni nálgun á íslenska siði, enda veit ég ekki hvort hann kom nokkurn tímann til Íslands. Framarlega í bókinni er frásögn af íslenskum brúðkaupssiðum sem hefur greinilega gengið alveg fram af honum. Það tíðkaðist semsé að brúðurin gengi til rekkju með vinkonum sínum og brúðguminn kæmi svo þangað með nokkrum öðrum karlmönnum og þeir byrjuðu að bjóða í að fá að sofa hjá brúðinni. Vinkonur brúðarinnar ákváðu hvenær nógu hátt var boðið, og var það auðvitað boð brúðgumans. Boðsféð varð svo séreign konunnar í hjónabandinu.
Þetta þótti Viktori Bloch greinilega ekki mjög dannað: „Til þess að færa ekki þennan einkennilega sið til verra vegar – hann tíðkast ekki á Suðurlandi, að því að ég bezt veit – þarf auðvitað að líta á hann frá sjónarmiði Íslendinga. Og þá mun það ekki vekja neina furðu, að hann fer venjulega fram með mestu siðsemd og góðri reglu. Þó að hann mundi engan veginn eiga við hjá oss, sízt meðal menntaðs fólks, sem svo er nefnt, þá er hann í alla staði sæmilegur í augum Íslendinga og laus við að valda hneyksli. Hvernig hefði það ella mátt verða, að hann væri hafður um hönd, þegar brúðguminn var prestur og brúðurin sýslumannsdóttir? Þegar þess er gætt, hve snoturlega og hátíðlega heillaóskaljóðin eru sungin, með dimmri rödd og undir þunglyndislegum norrænum lögum, virðist það ekki heldur geta komið til mála, að hér sé verið að fara með gjálífis glens eða ósiðsamlegt hispursleysi“. (21)
3 ummæli:
Þessi taugatrekkta umfjöllun Blochs um giftingarsiðina er hí-la-rí-ös!
Annars voru líkir siðir í forna heiminum; það var leikinn ákveðinn leikur þar sem vinkonur brúðarinnar þóttust varna gumanum inngöngu í svefnherbergið þar sem brúðurin beið og vinir brúðgumans þurftu að "yfirbuga" þær. Gaman að eitthvað líkt skuli hafa verið á Íslandi. Já, eitt sinn var fútt í brúðkaupum
Já, þetta er skemmtileg frásögn; hún er því miður meira eða minna öll af munni Bloch í bókinni. Hún er líka athyglisverð að því leyti að Gyða er nýkomin til Íslands þegar hún lýsir þessu og finnst þetta augljóslega frekar framandi. Það má hins vegar benda á t.d. Uppkast til forsagna um brúðkaupssiðu hér á landi eftir Eggert Ólafsson (verri, þakka þér fyrir) sem lýsingu heimamanns á æskilegum brúðkaupssiðum, augljóslega innblásnum af erlendum siðum.
Það var eitthvað ekki ósvipað í Auði (eftir Vilborgu Davíðs) - varðandi brúðskaupssiðina altso. Annars stórskemmtileg færsla um greinilega áhugaverða bók sem hefði væntanlega verið enn áhugaverðari ef kallarnir hefðu getað haldið fingrunum að sér...
Skrifa ummæli