10. október 2013

Alice Munro fær Nóbelsverðlaun

Í morgun var tilkynnt að Alice Munro fengi Nóbelsverðlaunin í bókmenntum þetta árið fyrir að vera „meistari samtímasmásögunnar“. Hún hefur nokkrum sinnum komið við sögu hér á síðunni en sérstök ástæða er til að rifja upp tveggja ára gamla umfjöllun eftir Maríönnu Clöru Lúthersdóttur þar sem hún segir m.a.:
„Munro skrifar fyrst og fremst smásögur og þykir meistari þeirra. Hver saga er þó svo þétt og efnismikil að í hugsun sprengja þær oftar en ekki af sér bönd smásögunnar og verða í minningunni eins og skáldsögur.“ [Meira hér.]

Einnig er gaman að grafa upp svar Alice Munro í viðtali við þýska blaðið Die Zeit árið 2006 við athugasemd um að hún hefði þá verið nefnd til sögunnar sem mögulegur nóbelskandidat um nokkurra ára skeið:
„Ekki minna mig á það! Þetta er hræðilegt. Fyrir tveimur árum taldi útgefandinn minn mér trú um að það væru miklar líkur á að ég fengi verðlaunin. Og ég var einfaldlega mjög spennt, ég gat ekki varist því, þótt ég teldi það ekki mögulegt. Daginn þegar tilkynna átti hver yrði fyrir valinu sat ég þegar klukkan fimm að morgni við símann. Og ég vissi að ef ég ynni yrði ég brjálæðislega hamingjusöm í hálftíma, og eftir það myndi ég hugsa: Þvílíkt kvalræði.“

Vonandi er Alice Munro ennþá hamingjusöm þótt meira en hálftími sé liðinn frá tilkynningunni. Aðdáendur hennar eru það að minnsta kosti.

Engin ummæli: