Lia og Mari kynnast að því er virðist fyrir tilviljun á bar daginn sem Lia heldur upp á afmæli sitt. Þær verða fljótt nánar vinkonur og smám saman dregur Mari Liu með sér inn í líf sitt sem snýst um Stúdíóið – vinnustað sem hún rekur þar sem togað er í ýmsa spotta í samfélaginu til að “laga” það sem betur má fara – að mati Mari. Hér er dansað á siðferðislegum línum – Mari tekur sér guðavald og það á Lia (og lesandinn) erfitt með að samþykkja en Mari leggur kapp á að sannfæra Liu um nauðsyn þess að grípa á þenna hátt inn í lífið. Lífið er nefnilega ekki sanngjarnt en það reynir Mari að vera. Við fylgjumst svo með Mari og starfsfólki hennar bæta heiminn, eða haga honum í öllu falli eftir eigin höfði. Þau leysa glæpinn sem framinn var á fyrstu síðu en þau gera margt annað líka.
Sögusviðið er eins og áður sagði London sem er ekki beinlínis frumlegur staður fyrir vettvang glæpa en sjónarhornið er finnskt og nokkuð ferskt. Maður myndi seint flokka bækur um skandinavískt fólk sem flytur til London sem innflytjendabókmenntir en Hiltunen er virkilega að velta fyrir sér mismunandi samfélögum og þjóðarsálum. Konurnar bera saman finnsku og ensku sem tjáningarform og velta fyrir sér ólíkum blæbrigðum tungumálanna og svo eru líka pælingar um hvernig tungumálið tengist sjálfsmynd finnskrar konu skemmtilegar. Mig dauðlangaði til að kunna finnsku til að skilja þetta til fulls en annars komst Sigurður Karlsson þýðandi nokkuð vel frá þessu.
Lia er viðkunnanleg og frekar „venjuleg“ kona sem vex og þróast við hverja raun í sögunni. Henni er í upphafi lýst sem einfara og harðri af sér en lesandinn kemst fljótt að því að hún er ósköp meyr inni við beinið (félagarnir tala reyndar mikið um magnaða kímnigáfu hennar sem þessum lesanda fannst nú ekki mjög áberandi). Mari er hins vegar fjarlægari og skuggalegri persóna - hefur magnaðan hæfileika og er eiginlega nokkurs konar Sherlock Holmes og Lia þá auðvitað greyið Dr Watson. Félagar Liu á blaðinu renna allir dálítið saman en meira púður fer í lýsingar á fólkinu sem vinnur í Stúdíóinu – mér fannst þó allar persónulýsingar aðrar en Liu eiginlega bera með sér að þetta væru bara fyrstu kynni – við myndum svo kynnast þessu fólki betur í næstu bók. Enda kom í ljós í þessu viðtalið við höfundinn að hann er með heilmikið á prjónunum fyrir Stúdíóið og þessi bók bara sú fyrsta í stórum bókaflokki. Endalokin eru því – væntanlega viljandi – nokkuð endasleppt og ýmsum spurningum ósvarað...sem er í sjálfu sér alls ekki slæmt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli