Þegar ég var tvítug og vann í bókabúð og drakk bjór á Sirkus allar helgar og vissi ekki alveg hvert lífið ætlaði með mig fór ég eitthvert kvöldið í Vídeóheima sálugu og valdi mér spólu sem varð ein af mínum uppáhaldsuppáhaldsuppáhaldsmyndum og talaði beint til mín í eftir-unglingsára-limbóinu. Þetta var myndin Ghost World með Thoru Birch, Steve Buscemi og Scarlett Johansen í aðalhlutverkum, en fyrir utan eftirlætisspólur bernskuáranna (eins og The Goonies og Muppet Christmas Special) eru afar fáar myndir sem ég hef séð jafnoft. Þegar ég var komin í háskóla tveimur árum síðar valdi ég mér Ghost World sem ritgerðarefni, var þá nýkomin með sjónvarp með innbyggðu DVD-tæki sem kostaði 16.000 íslenskar krónur (á gengi ársins 2003 ...) og var dýrasti gripur sem ég hafði keypt mér fyrir utan fartölvuna, og festi að sjálfsögðu kaup á myndinni á DVD til að geta analýserað hana. Þetta voru fyrstu kynni mín af myndasöguhöfundinum
Daniel Clowes, en þegar ég byrjaði að skoða myndasögur af einhverri alvöru stuttu síðar leitaði ég bókina Ghost World að sjálfsögðu uppi. Clowes skrifaði handritið að myndinni ásamt leikstjóranum Terry Zwigoff; bókin kom út 1997 en myndin fjórum árum síðar.
|
Hr. Daniel Clowes |
Það var eitthvað í Clowes sem ég tengdi strax við; eitthvað sem tengist því að hann skrifar/teiknar fólk sem er á jaðrinum, fólk sem skilur ekki alveg hvað 90% mannkyns er að pæla, fólk sem gerir sjálfu sér erfitt fyrir, fólk sem engist um af illskilgreinanlegri þrá eftir einhverju sem það veit ekki alveg hvað er. Enid, aðalpersónan í Ghost World, er föst í limbóinu mitt á milli æskunnar og fullorðinsáranna og mátar hlutverk og persónuleika á hverjum degi. Sambandið við bestu vinkonuna Beccu er farið að trosna og þegar Enid hittir hornótta tónlistarnjörðinn Seymour finnst henni hún hafa fundið sér verkefni, viðfangsefni, einhvern fastan punkt. Við sögu koma alls kyns frábærar persónur eins og satanistarnir á kaffihúsinu, bældi vinurinn Josh sem vinnur á bensínstöð, að ógleymdri hinni dásamlega hryllilegu Robertu sem kennir Enid myndmennt í sumarskólanum og byrjar á að sýna vídeóverk sitt, "Mirror, Father, Mirror", sem er toppurinn á tilgerðarlegu listagríni. Eins og hún segir við bekkinn: "I like to show it to people that I'm meeting for the first time because I think it says so much about who I am and what it feels like to inhabit my specific skin." Bókin og myndin eru reyndar uppfullar af frábærum setningum sem gott er að grípa til: "High school is like the training wheels for the bicycle of real life," segir óþolandi skólasystir í útskriftarræðu á meðan Becca og Enid ranghvolfa í sér augunum. "I can't relate to 99% of humanity," segir Seymour - ég veit!
En allavega - meiningin var ekki að fara út í langar lýsingar á Ghost World heldur fjalla örlítið um Daniel Clowes, eða réttara sagt um bók um hann sjálfan sem ég keypti mér í Edinborg. Þetta er bókin The Art of Daniel Clowes: Modern Cartoonist í ritstjórn Alvins Buenaventura. Mjög flott hönnuð og ríkulega myndskreytt eins og tilefni er til; hér komast Clowes-nördar í feitt. Bókin samanstendur af mjög miklu myndefni, sjö greinum og löngu viðtali við herra Clowes. Ferill hans er rakinn frá því hann útskrifaðist úr Pratt Institute í New York árið 1984 og allt fram til ársins 2012 - og reyndar fáum við líka að sjá bernskuverk eftir teiknarann. Það er ítarleg umfjöllun um Eightball-blaðið sem Clowes byrjaði að gefa út á níunda áratugnum og svo um stóru bækurnar sem komu seinna meir.
Greinarnar eru misgóðar og misáhugaverðar; viðtalið fannst mér eiginlega mest djúsí en ein greinin er óþolandi tilgerðarleg og flestar eru þær frekar rýrar að innihaldi. Ég bjóst við og vonaðist eftir meiru.
Myndefnið stendur fyrir sínu en það vantar alveg almennilega greiningu og þegar manni finnst hún rétt vera að komast í gang gerist ekkert meira. Það vantar ekki efni til að fjalla um; Daniel Clowes er ótrúlega góður í að skapa stemningu sem sækir í alls kyns minni og þekkta pósta (noir-myndir, ofurhetjusögur, framtíðarmyndir fortíðarinnar, pop art o.s.frv.) en er samt algjörlega hans eigin. Ég tengi ekkert mjög mikið við elstu verkin hans sem eru frekar groddaleg, en frá og með miðjum tíunda áratugnum finnst mér allt sem hann hefur sent frá sér dúndurgott.
Í uppáhaldi hjá mér eru áðurnefnd Ghost World, David Boring og Ice Haven. Í fyrra las ég The Death Ray sem ég mæli líka með og leynir talsvert á sér.
Ég veit ekki alveg hvort ég myndi mæla með bókinni um Clowes. Jú, það er virkilega gaman að fletta henni og hún sér manni sannarlega fyrir efni í vangaveltur, en flestar greinarnar eru talsverð vonbrigði. Samt sé ég alls ekki eftir að hafa keypt hana og mun örugglega skoða hana við góð tækifæri þótt það hafi ekki verið nógu sterk upplifun að lesa hana í gegn. Og það besta er auðvitað hvatningin til að lesa bækurnar hans Daniels Clowes aftur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli