5. júní 2016

Ég hef aldrei verið hagvön í svokölluðum „raunveruleika“: Viðtal við Guðrúnu Hannesdóttur

grafin heit
rjúkandi fylgja

og blóðlifrar
í myrku skauti

stjörnurnar opna nálaraugu sín
loka þeim jafnharðan aftur

jafnvel sú birta
er mér of skær

einhver stendur
á hrímfaldi mínum
eitthvað tefur mína för

(skítug klóför
falin í snjónum)

Druslubækur og doðrantar halda áfram að birta viðtöl við ljóðskáld sem gáfu út bækur á síðasta ári. Viðmælandi vikunnar er Guðrún Hannesdóttir og ljóðið berangur sem birtist hér í upphafi er úr hennar fimmtu ljóðabók, Humátt. Bókin kom út hjá Sölku fyrir jól, en fyrir hana var Guðrún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2016.

Þú gafst út þína fyrstu ljóðabók, Fléttur, árið 2007, og síðan hefur þú gefið út fjórar ljóðabækur í viðbót. Varstu löngu byrjuð að skrifa ljóð þegar Fléttur kom út eða varstu bara að byrja á því þá? Hvernig kom það til? 

Ljóðin mín fóru að spretta fram um 2005 þegar ég tók mér hlé frá barnabókaskrifum og myndskreytingum. Öll mín verk verða til af grunsamlegum skorti á ásetningi og umhugsun, eiginlega bara af einskærri ánægju og þörf til að ögra sjálfri mér í laumi. Að vísu er ég og hef alltaf verið ofurseld orðum, hrynjandi og „anda“ tungumálsins svo ég sé hátíðleg, en ég hafði þá aldrei skrifað ljóð, bara lesið þau svona eins og hver annar. En mér hafði nokkuð lengi ofboðið hvað ég var viss í minni sök um misjafnt ágæti ljóða annarra og hugsaði þá að ég hefði gott af því að reyna sjálf að yrkja, og það varð örlagaríkt, fimm ljóðabækur og sú sjötta á leiðinni, svo ekki leiðist mér þetta! Ég les mikið og skrifa mikið en hugsa ekki um sjálfa mig sem „skáld“, hvað þá „Skáld“, og leiðist heldur öll flokkunarárátta.

Þú ert líka myndlistarmaður og hefur meðal annars myndskreytt bækur sem þú hefur skrifað fyrir börn. Hvernig er það öðruvísi að gera myndir og að gera ljóð? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín? 

Ég hef lengi teiknað, lengst af án þess að finna því fastan farveg. Fyrstu bækurnar sem ég myndskreytti voru gamlar vísur fyrir börn, sem ég hafði safnað lengi. Ég hef áhuga á gömlum kveðskap og úr því varð þriggja bóka úrval. Mér fannst alveg gráupplagt að sjá hvernig gengi að myndskreyta þær. Þá lenti ég í óvæntri spennitreyju, því vísurnar voru mjög ólíkar innbyrðis og komu úr ýmsum áttum. Það var erfið glíma að raða þeim fallega saman í bók og ekki síður að gera myndir með ljóðunum án þess að allt færi á tvist og bast. Andblærinn, innra samræmið og eftirtektin urðu að haldast í hendur bæði í mynd og texta. Þetta var lærdómsríkt og heillandi, ekki ólíkt því að yrkja ljóð. Þar sem íslensk barnaljóð eru mikið „í moll“, alvörugefin eins og ég sjálf, og mín ljóð kannski líka, féll þetta í nokkuð ljúfa löð að lokum.

Það eru langar í mér leiðslurnar en að lokum skilar sér flest úr mínum hugarheimi, þó hægt fari og nokkuð ósjálfrátt eins og ég sagði. Ljóðin fóru að koma þegar ég fór að leika „myndlausum“ hala. Hver veit hvað gerist næst, kannski hringurinn lokist og ég fari að gera alls óbundnar myndir án texta?

Humátt er fallegur titill – hvaðan kemur hann? 

Mér finnst orðið humátt heillandi. Merking þess tvíbent, bæði er hægt að nota það um eitthvað sem nálgast laumulega en án ógnar, en það getur líka átt við einhverskonar skuggalega nærveru.

Eftir að ég fékk nokkur ljóða minna þýdd, mæli ég með því að fólk geri það, eða þýði þau bara sjálft. Það er með fádæmum lærdómsríkt, bæði hvað snertir skilning á eðli eigin ljóða, mikilvægi góðra þýðenda og sérstöðu tungumála. Ég er t.d. mikið búin að velta fyrir mér hvernig væri hægt að finna orð á þeim tungumálum sem ég þekki, yfir orðið humátt (án þess að það birtist eins og regnbogi í svart-hvítu!) en ekki tekist.

Ljóðheimurinn sem birtist í bókunum þínum er býsna sérstakur; það er ekki bara að ljóðin vísi í gamlar þjóðsögur, kvæði og þjóðtrú, að þú sért að „vinna með arfinn“ eins og sagt er, heldur gerast þau beinlínis í heimi ýmis konar ævintýra, dýra og furðuvera. Hvað er það við þessa þjóðsagnaveröld sem heillar þig, frá efnislegu en kannski líka stíllegu sjónarmiði? 

Ég hef aldrei verið hagvön í svokölluðum „raunveruleika“, en á mér ljóðheim sem ég skynja sterkt. Í honum er auðvitað smuga inn í heim íslenskra þjóðsagna og þjóðtrúar og inn í ýmsar aðrar víddir sem einkenndu kyrrstöðuþjóðfélagið, eins og þetta dálæti á bundnu máli. Allir ortu sem vettlingi gátu valdið, þetta var fjársjóður sem ekki var hægt að taka af mönnum í alsleysinu (kannski er eitthvað eftir af þessari kokhreysti ennþá!) En það voru ekki bara þeir lifandi sem ortu heldur dauðir líka, huldufólk, draugar og útburðir. Talandi um raunveruleika!

Það er ekki amalegt að hafa náð í skottið á þessum heimi þó það hafi verið á hangandi hári! Gæði þessara afurða eru auðvitað misjöfn, en margar ferskeytlur voru gerðar af þvílíkri list að þær varpa meistaralega birtu á gleði og sorgir og geta dregið saman sammannlega reynslu eða sögu heils lífs í fjórum línum af meiri þrótti en heil skáldsaga. Þessi arfur held ég vaki í vitund okkar, hafi óbein áhrif, hvort sem menn vita af því eða ekki og sé og verði ekkert minna en fjársjóður.

Það fer í rauninni ekki mikið fyrir mönnunum í þessum heimi, eða allavega eru þeir aðeins hluti af stærra samhengi annarra dýra, náttúru og umhverfis. „Pólitísk“ væri kannski ekki fyrsta lýsingarorðið sem manni dytti í hug um ljóðin þín, en má samt ekki segja að það felist ákveðin pólitík í þessari afmiðjun mannsins?

Draumurinn um að finna eina leið til skilnings eða skynjunar á hinum glerhála veruleika er jafngamall manninum og alltaf jafn fjarri því að rætast.

Í hugskoti manns eru ýmsir staðir, helgir og vanhelgir, átakastaðir og kyrrðarstaðir. Þeir eru auðvitað mismannmargir. Oft er maður að skrifa um það sem maður ekki veit, og sér kannski hvorki né skilur fyrr en ljóðið er tilbúið. Það á allavega við um ljóðin mín, og ég kannast stundum varla við hvaðan þau koma. Þess vegna hef ég aldrei reynt að skoða þau „utanfrá“. Tilefni ljóðanna falla svo að segja af himnum ofan og það þarf meiri fjarsýni en ég á til að greina í þeim munstur. Þetta snýst um að finna „rétta tóninn“ í eigin rödd, þó hún berist frá ýmsum ólíkum hljómbotnum.

En fyrst og fremst eru það möguleikar ljóðsins sjálfs bæði í orðfæri, stíl og efnistökum sem heilla mig.

Ég hef rætt við fáein önnur skáld í þessari ljóðskáldaviðtalaseríu sem skrifa það sem kalla má náttúruljóð og hef meðal annars velt því upp hvernig er að skrifa inn í svo langa hefð – hefð sem hefur oft einkennst af ákveðnum hátíðleika eða upphafningu, stundum með þjóðerniskennd í bland. Er þessi hefð eitthvað sem þú finnur fyrir þegar þú skrifar eða er náttúran þér eðlilegra viðfangsefni en svo?

Náttúran er hluti af sjálfri mér, þannig að ég á bágt með að greina á milli þess hvort ég geng inn í náttúruna eða hún inn í mig. Þegar ég set mig í spor flóttamanna sem verða að yfirgefa land sitt finnst mér ég elska mitt eigið af næstum fullkominni heift.

Ég er ekkert þjökuð af þjóðerniskennd, og hef að vissu leyti fjarlægst hin heitu hjörtu eldri höfunda sumra, sem ég var gagntekin af áður fyrr. Viðurkenni samt að að ég verð stundum gripin hátíðleikatilfinningu þegar ég verð fyrir skyndilegri uppljómun eða sé í leiftursýn tengsl okkar við landið, söguna, bókmenntirnar, menn og dýr þessa lands.

Fyrir mér eru þessi tengsl raunveruleg og náin og það sést áreiðanlega í ljóðum mínum, hvort sem þar er um að ræða persónueinkenni eða bara hvernig ég er staðsett í tíma og rúmi. Það gildir einu, maður getur hvort sem er ekki útvarpað nema á sinni eigin bylgjulengd.

Sérðu ljóðagerð þína sem hluta af einhverri hefð, í íslensku eða alþjóðlegu samhengi? Hvers konar ljóð lestu helst sjálf?

Ég les orðið ógrynni ljóða af mjög ólíkum toga, bæði ný og gömul. Það væri óðs manns æði að telja upp einhver nöfn. Ég er orðin ansi fljót að átta mig á hvað höfðar til mín, annað læt ég vera.

Sum skáld hrífa mann upp úr sokkum og skóm, það er eitthvað við ljóðin sem gerir að allt fer af stað í eigin höfði, maður hendir frá sér bókinni og fer að skrifa sjálfur án þess að vita hvaða lykill það var sem fannst eða samhljómur sálnanna. Svo les maður heimsfræg yfirburðaskáld sem hreyfa ekki við neinu.

Halldór Laxness þýddi „ideólógía“ með orðinu flónagildra sem er dálítið fyndið. Ég hef markvisst forðast að skoða bókmenntalega isma af öllu tagi niður í kjölinn, og græði sennilega lítið á þeirri fóbíu. Það sem ég vil helst forðast er að ljóð mín endurómi hugarheim einhvers annars. Það hljómar kannski eins og einhver hefðarhósti en ég vil allra helst að að ljóð mín séu fölskvalaus, laus við tilgerð eða eftiröpun.

Þú varst tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2015 fyrir Humátt. Var tilnefningin mikilvæg fyrir þig? Hvaða þýðingu heldurðu að verðlaun almennt, og kannski Fjöruverðlaunin sérstaklega, hafi fyrir rithöfunda og ljóðskáld og það sem þau gera?

Það lifir auðvitað enginn á því að skrifa ljóðabækur en það deyr enginn af því heldur, þó svo geti litið út á tímabili. Sérstaklega þegar tískan kemur alveg á ská eða hornrétt á höfundinn. Tómlæti tímarita og fjölmiðla er líka þungbært og vandaðar greiningar á útkomnum bókum of strjálar. Þess vegna eru verðlaun og viðurkenningar mikilvægar, sérstaklega fyrir þá rithöfunda sem standa utan við hópana sem unnið hafa sprænukeppnina hingað til (afsakið orðbragðið!).

Sá tími mun renna upp að sérstök kvenhöfundaverðlaun teljist tímaskekkja. Þangað til eru þau dýrmætur stuðningur og hvatning og Fjöruverðlaunin eru aðstandendum sínum til sóma

Kærar þakkir fyrir frumkvæðið af þessari fínu viðtalssyrpu, að fá að taka þátt og fylgjast með.

Druslubækur og doðrantar þakka Guðrúnu fyrir sömuleiðis og ljúka viðtalinu með öðru ljóði úr bókinni, í fjöru (tónsmíðar).

himinninn yfirskyggður
hafsaugað hálflukt
steinarnir silfri
slegnir

hvert sinustrá hjúpað ís
brothætt og örmjótt sem
sækrypplings-
fingur

þangið heldur niðri í sér andanum
kuðungarnir þögninni
fjörulallar gneyptir
sem steyptir
í blý

í laumi er samið kórverkið mikla
sem leikið verður þegar hlýnar
til muna og hafið gengur
á land

Engin ummæli: