12. júní 2016

Nokkrar þvældar blaðsíður um það sem skiptir máli



Ég var á Akureyri um daginn og sat á spjalli við nokkrar konur um verðmæti og möguleika hins fallega listagils, þegar ein segir: „Fróði, þessi fornbókabúð – hún verður að fara. Hún er aldrei opin!“
Einmitt þetta atriði er eitt af því sem gerir Fróða hvað verðmætastan. Í samtímanum þar sem flestar vörur er hægt að fá allan sólarhringinn, hver klukkutími okkar gjarnan vel skipulagður eftir skapalónum sem nýfrjálshyggjan, tækninýjungar og hamingjukvöðin hafa lagt blíðlega yfir daga okkar svo við tókum varla eftir því. Þú hefur kannski áætlað að verja 35 mínútum af hinum átta klukkustundum þínum (hugtak yfir þær klukkustundir í sólarhringnum þegar þú ert ekki að sofa og ekki að vinna) í Fornbókabúðinni Fróða en allt skipulagið fer í vitleysu því þú getur ekki gengið að hinum þó óvenjulegu opnunartímum búðarinnar sem vísum. Þegar þú svo rambar á opna búðina þá gleymirðu stað og stund, mætir ekki í vinnuna, gleymir boðinu sem þú varst á leiðinni í, missir af löngu ákveðnum skíðadegi í Hlíðarfjalli.

Fyrr sama dag hafði ég lent í svona tíma- og aðstæðutapi. Konan mín varð að fara ein í hádegismat að fagna frumsýningardegi, sem henni þótti reyndar bara spennandi. Ég fór út úr Fróða með nokkra gripi sem fyrir mér hafa óviðjafnanlegt verðmætagildi. Fyrsta sem ég geri þegar ég kem inn í ofurhlaðna búðina er að leita í gömlum útfylltum tilefniskortum. Ég hef í mínum síðustu ferðum í Fróða komið mér upp safni sem ég dreg fram þegar mér finnst tengingin við raunveruleikann vera við það að bresta. Mig langar að deila þeim með ykkur þar sem þessi þráður er þunnur um þessar mundir en ég hef breytt nöfnunum á kortunum þó að þau séu líklega öll fyrir löngu farin að prýða veðurbarða legsteina.

Jólin 1978
Kæra Dísa! og aðrir sem hjá þér kunna að vera úr fjölskyldunni
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
Fréttalítið héðan og fábreytt eins og vera ber á elliheimilum.
Heilsufarið sæmilegt eftir aðstæðum en þróttur minnkar.
Þökkum þér allt gott og sendum kærar kveðjur,
Erla og Davíð.


Jólin 1979
Einlægar jóla og nýárskveðjur, þökk fyrir liðin ár.
Fréttir fáar héðan af karli og kerlingu.
 – Hún lasnari innvortis uppá síðkastið – Á að fara í myndartöku.
Ekkert sést né heyrst frá Guðríði.
Innil. kveðjur frá Erlu og Davíð.

Jólin 1978
Beztu óskir um Gleðileg jól og gott og farsælt komandi ár.
Ég bankaði uppá hjá þér í sumar, en ég var 3 daga fyrir norðan. Þú hafðir skroppið
suður með Ragnheiði. Ég hringi á dyrabjölluna næst þegar ég á leið um, vona að við
sjáumst þá – með vorinu.
Kær kveðja frá mér og mínum mönnum, Dídí.

Annað merkilegt fann ég á dögunum. Gamalt tilefniskort. Á því var mynd af karli með háan hatt, rautt nef og sígarettu í hendinni. Hendurnar bentu bjóðandi eitthvert út fyrir ramma kortsins.

Textinn framan á segir:
Ef þú heldur að þú hafir aldur til…
og innan á kortinu heldur áfram:
… þá skal ég kynna þig fyrir kroppunum
….. ha! ha! …
Til hamingju

En enginn hafði fundið tilefni til að gefa kortið aðstandanda (á mörkum lögaldurs), og stendur það óútfyllt og gleymt. Óræði hláturinn hljómar lengi í höfði þess sem handleikur kortið.

Ég fann bók sem ég hef dálítið leitað að, Áróra og pabbi sem er gefin út á svipuðum tíma og gömlu konurnar skrifuðu á fallegu blómakortin hér að ofan. Eitt meginstefið í þessari dásamlegu bók er símaklefinn í hverfinu sem sögupersónurnar eru nýfluttar í. Þær standa lengi í röð til að fá að komast að í símann. Sögupersónan röltir líka margoft út í hverfisbúðina, um fimm ára stúlka. Afgreiðslufólkið þekkir hana með nafni. Íbúar í stigaganginum þar sem sögupersónurnar búa eru mjög umhyggjusamir þegar ein þeirra fer á spítala.
Ég fann líka bók í seríunni Keðjubækurnar, ljósblár rammi á kápum þeirra, um kisur, og gaf lítilli vinkonu minni. Blaðsíðurnar voru margar hverjar límdar saman og aðeins búið að lita innan í bókina.

Staðir eins og Fróði grafa undan ofurafli skipulagningar, dugnaði, skynsemi, framleiðni, stundvísi; öflunum sem rífa töfrana úr lífum okkar, beina sjónum okkar frá því sem skiptir máli. Slíkir staðir eru á hverfanda hveli. Það á vel við að taka strætisvagn yfir heiðarnar til þess eins að vona að þú sjáir opna hurðina hjá Fróða.



Gestapenni: Eva Rún Snorradóttir

Engin ummæli: