Fólk sem býr í heilsueflandi sveitarfélagi
þar sem börnin eru með eplakinnar,
morgunfrúr blómstra í kerjum
og bæjarskáldið skokkar á göngustíg,
fær stundum tómleikatilfinningu
og langar að stíga svo þungt til jarðar
að gangstéttarhellur molni.
Druslubækur og doðrantar seilast ekki langt yfir skammt í ljóðskáldaviðtali vikunnar: viðmælandinn er okkar eigin Þórdís Gísladóttir. Hún gaf út sína þriðju ljóðabók, Tilfinningarök, síðastliðið haust, en áður hafa komið út eftir hana ljóðabækurnar Leyndarmál annarra (2010) og Velúr (2014). Viðtalið hefst á broti úr síðasta hluta nýjustu bókarinnar, ljóðinu Til huggunar.
Hæ, Þórdís, velkomin í þetta hreinræktaða druslubókaviðtal!
Takk og hæ, er ekki næs hjá þér þarna undir Eyjafjöllum?
Jú, það er prýðilegt, takk. Búin með Reisubók séra Ólafs Egilssonar og Önnu á Stóru-Borg og byrjuð á Fjósakona fer út í heim (það hefur nú aldeilis verið týpa) – ætli það séu einhver ljóð úr sveitinni sem maður þarf að kanna?
Þorsteinn Erlingsson fæddist á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Þú þarft að lúslesa hann, já og raula „Fyrr var oft í koti kátt“ fyrir túristana sem koma til þín á safnið.
Já, við erum einmitt með Þorsteinsstofu hér á Skógasafni, og svakalega brjóstmynd af skáldinu, hann er eins og grískur guð nema stæltari og skeggjaðri. En að nýju bókinni, hinu eiginlega umfjöllunarefni viðtalsins. Mig langaði til að byrja að spyrja þig hvaðan titillinn kemur – Tilfinningarök?
Tilfinningarök er hugtak sem er búið að hringla í hausnum á mér mjög lengi. Ég held að ég hafi kynnst því í kjallaragrein eftir Vilmund Gylfason og þar kom íslensk landbúnaðarstefna við sögu. Orðið tilfinningarök er örugglega mjög ungt, á timarit.is finnast bara örfá dæmi um það fram til 1980, það eru miklu fleiri og eldri dæmi um meinta andstæðu þess; skynsemisrök. Sumir slá gjarnan hugmyndir út af borðinu með því að segja að þær byggi á tilfinningarökum og ef manneskjan sem á smá sprett í Tilfinningarökum og geymir pökkuðu íþróttatöskuna undir rúmi færi í hugræna atferlismeðferð þá yrði henni mögulega leitt fyrir sjónir að hún væri með hugsanaskekkju sem byggir á tilfinningarökum og kennt að losa sig við þessa tilfinningu og töskuna með. En svo eru margir sem segja að tilfinningarök séu góð og gild rök og að ákvarðanir sem byggðar eru á tilfinningarökum séu ekki verri en hinar sem byggja á svokölluðum skynsemisrökum. Að nota Tilfinningarök sem titil á þessa bók má segja að sé leikur við lesandann og um leið vísun í sögupersónur bókarinnar. Svo má alveg leika sér með orðið, við verðum mörg rök þegar tilfinningar eru í spilinu ...
Í ljóðunum þínum, bæði í Tilfinningarökum og fyrri bókunum, bregður þú iðulega upp myndum úr hráum og gráum hversdegi. Það er stundum frekar miskunnarlaust hvernig þú skoðar undir glansandi yfirborðið, það hvernig hlutirnir eiga að vera til að líta vel út og sýnir hvað þeir eru nú oft sjoppulegir og tilþrifalitlir þegar allt kemur til alls, en það afhjúpast líka oft í leiðinni einhver alternatív fegurð og blæbrigði í lífinu, hversdagur sem getur verið ljúfur og skrítinn og fyndinn þótt hann sé líka stundum sár. Er þetta pólitísk/fagurfræðileg afstaða – „How the relentless promotion of positive thinking has undermined America“ svo vísað sé í undirtitil bókar eftir Barböru Ehrenreich sem ég veit að þú fílar – myndirðu segja að þú værir sósíalrealískur höfundur? (Og hvernig ætli sósíalrealismi 21. aldarinnar líti út?)
Á ljóðakvöldi á Gauknum í vor kom miðaldra fornleifafræðingur til mín og sagði góðlátlega: „Þú ert svona sósíalrealisti.“ Mér fannst það skemmtilegt og í fyrstu ljóðabókinni minni er reyndar ljóð sem heitir Félagslegt raunsæi, já, ætli ég sé ekki bara sósíalrealisti. Ég skrifa að minnsta kosti oft um blankar manneskjur sem drekka vín úr beljum eða ódýrt kaffi, eru fáfengilegar, með aðskilnaðarkvíða og velferðarsjúkdóma og langar að vera einhvers staðar annars staðar en þar sem þær eru staddar. Þetta er örugglega pólitísk og fagurfræðileg afstaða í bland. Hversdagsleikinn er svo áhugaverður og heillandi með öllu sínu óhjákvæmilega rugli og ljótleika og sorgum og hörmungum, hann höfðar miklu meira til mín en kapítalíska yfirborðsfegurðin og jákvæðniáróðurinn, sem er auðvitað bara hættuleg blekking. Við erum öll einkennileg og sérvitur, full af galli og dauðvona í þokkabót! Nú hljóma ég örugglega eins og ég sé alltaf með hausinn oní maga og full af biturð og svartsýni á kojufylleríum með skítugt hár, það er samt alls ekki þannig, ég þarf ekki einu sinni að taka kvíðastillandi við þessu.
Sósíalrealismi 21. aldarinnar er kannski helst ólíkur þessum sem spratt upp á síðustu öld að því leyti að hann er fyndnari og pólitíski boðskapurinn ekki jafn augljós. Ég held líka að hann sé minna móralskur og teprulegur. Ég slengi þessari kenningu nú bara fram eftir tveggja mínútna vangaveltur, það getur vel verið áð ég sé í ruglinu en þetta er áhugaverð pæling.
Ljóðin þín snúast mjög um hversdaginn en þau snúast líka yfirleitt um fólk, það eru manneskjur og tilfinningar þeirra og samskipti sem eru í forgrunni. Hefurðu mikinn áhuga á fólki?
Já, ég hef áhuga á fólki í allskonar kimum og samskiptum fólks hvert við annað og stöðu þess í samfélaginu og umhverfinu. Þess vegna hef ég líka áhuga á gróðri, umhverfis- og skipulagsmálum, heilbrigðismálum og stéttaskiptingu og öllu þessu sem hefur áhrif á okkur öll. Umhverfið, félagsleg staða og allskonar borgaralegir siðir og venjur setja fólki svo mikil mörk. Já og fólk er auðvitað svo skemmtilegt, líka fólkið sem er leiðinlegt.
Miðhluti Tilfinningaraka, Skyndimyndir, samanstendur af ljóðum sem gætu talist á mörkum ljóða og örsagna (titill kaflans lýsir þeim mjög vel). Ertu sammála því sem Eva Rún Snorradóttir talaði um í viðtali hér á síðunni um daginn, að slík formflokkun geti skemmt upplifanir fólks á verkum og umfjöllun um þau? Hún segir reyndar líka að ljóðið sé opnasta formið – upplifir þú það líka sem opið? Hugsarðu mikið um formið á ljóðunum þínum?
Ég er býsna sammála Evu Rún og ekki bara bara varðandi bókmenntir, flokkun er almennt ofmetin þó að hún geti verið þægileg. Allt þarf alltaf að heita eitthvað, það getur verið slæmt. Það er hefð að flokka og stimpla bókmenntir og það getur verið hamlandi. Fólk sækist oft eftir einhverju sem það þekkir og vill vita að hverju það gengur. Þess vegna dettur kannski ákveðnum hópi ekki í hug að prófa að lesa bækurnar okkar Evu Rúnar, nú eða að fólk kaupir ljóðabók og verður skúffað yfir að finna texta sem skortir stuðlasetningu og ljóðræn orð á borð við húm og rökkur. Við Eva Rún skrifum báðar prósa sem gætu alveg kallast örsögur eða smáprósar í staðinn fyrir ljóð, sennilega gerum við það báðar vegna þess að innihaldið kallar á það form.
Mér finnst ég meira meðvituð um formið núna en þegar ég byrjaði að skrifa, án þess að ég velti mér eitthvað upp úr því. Ég reyni að forðast klisjur, ekki vill maður skrifa fyrirsjáanleg ljóð. Ljóðaskrif eru svolítið hættuleg að því leyti að það er svo auðvelt að detta út í væmni, uppskrúfun og fyrirsjáanleg stílbrögð, þetta á reyndar við um flest sem er skrifað. Ljóðformið getur verið opið ef maður ákveður að hafa það þannig, en það getur líka læst mann inni. Ég er á því að orð séu ekki dýr, það má alveg bruðla með þau, en ég finn samt að ég er smám saman að verða strangari við sjálfa mig varðandi það að hvert orð eigi erindi, að ég hafi valið réttu orðin, að þau standi á réttum stað og þjóni tilgangi í textanum. Mig langar ekki að skrifa eitthvað svona nja-nja-nja.
Þú skrifar bæði ljóð og barnabækur. Hvað er það við þessar bókmenntagreinar sem höfðar til þín?
Það er eiginlega blanda af tilviljun og pólitískri afstöðu. Ég gerðist ungskáld þegar ég var orðin mjög miðaldra, fyrsta frumsamda bókin mín kom út árið 2010. Hún hefði aldrei komið út ef handritið hefði ekki fengið Tómasarverðlaunin. Það kom mér svakalega á óvart að þetta handrit var valið, að senda það inn var bara skyndiákvörðun - ég er reyndar frekar góð í skyndiákvörðunum. En ef ljóð eru góð þá er svo hrikalega gaman að lesa þau, ljóð höfða svo mikið til mín ef þau á annað borð ná mér. Eftir Leyndarmál annarra skrifaði ég barnabók sem var líka mjög vel tekið svo ég skrifaði fleiri barnabækur og fleiri ljóðabækur. Mér finnst þessar bókmenntategundir báðar mjög mikilvægar. Fyrir utan að það er skemmtilegt að skrifa ljóð og lesa ljóð þá gefur maður hagkerfinu langt nef með því að skrifa svoleiðis bókmenntir. Ljóð eru svo þjóðhagslega óhagkvæm, svona ef við reiknum hagkvæmnina eftir þeim leiðum sem flestir velja. Barnabækur eru dálítið hjartans mál fyrir mig, ég var sjálf svo gríðarlega dedikeraður barnabókaneytandi einu sinni. Það skiptir máli að fá krakka til að lesa eitthvað. Sennilega og vonandi henta þessar bókmenntagreinar mér líka bara vel sem höfundi. Ég útiloka samt ekkert að ég skrifi einhvern tíma glæpasögu eða sjálfshjálparbók.
Og hvernig er að vera ljóðskáld og barnabókahöfundur? Þetta eru hvort tveggja greinar sem maður er vanur því að sé talað um með sérkennilegu samblandi af áhugaleysi og upphafinni væmni.
Já, já, ljóðaskrif eru gjarnan álitin einhvers konar furðulegheit og sérviska, nú eða að fólk telur ljóðskáld vera djúpa sjáendur sem skrifa eitthvað mjög óskiljanlegt eða einhverja rassvasaspeki sem gott er að skrifa í tækifæriskort. Og margir telja barnabókahöfunda hljóta að vera metnaðarfulla uppeldispostula og/eða fórnfús krúttgóðmenni sem tala með gamaldags barnatímaröddum. Með því að skrifa ljóð og bækur fyrir börn er höfundur strax búinn að koma sér fyrir á jaðrinum. Svo þýði ég líka bókmenntir og það er líka jaðarstarf, stundum finnur maður ekki einu sinni nafn þýðanda verks nema með stækkunarglerið mundað og kveikt á hundrað kerta peru. En ég kann vel við mig á kantinum.
Eitt sem er gott við barnabækur og ljóð er að þó viðtökuhópurinn sé ekki endilega stór þá er hann svo góður. Á ljóðalestra mætir áhugasamt fólk sem langar að hlusta á ljóð og börn sýna það alveg hvað þeim finnst um bækurnar sem þau lesa eða eru lesnar fyrir þau. Ef þeim finnst eitthvað hundleiðinlegt þá stinga þau bara af eða byrja að tala mjög hátt og hlaupa í hringi, en ef þeim finnst gaman þá eru þau til í að ræða um efnið og segja sögur eða senda höfundinum bréf, ég hef fengið nokkur frábær bréf frá ungum lesendum.
Þú ert þaulkunnug í sænskum bókmenntaheimi rétt eins og hinum íslenska, hefur búið og unnið í Svíþjóð og þýtt fjölda bóka úr sænsku. Berðu einhvern tímann saman ljóðasenuna/bókmenntaheiminn í þessum tveimur löndum? Er eitthvað – til góðs eða ills – sem þér finnst einkenna íslensku senuna sérstaklega?
Sko, ég held að það sé ofsögum sagt að ég sé þaulkunnug sænskum bókmenntaheimi. Ég fylgist frekar tilviljanakennt með honum þegar ég má vera að. Þegar ég flutti til Svíþjóðar tæplega þrítug hafði ég aldrei komið þangað og kunni ekki sænsku, ég bætti úr því með nokkurra ára háskólanámi í Uppsölum. Ég veit lítið um sænska ljóðasenu og man ekki eftir að hafa farið á nema eitt ljóðakvöld í Svíþjóð. Ég á fá sænsk uppáhaldsljóðskáld, ég held mest upp á Kristinu Lugn. sem var jaðarskáld og költ og öndergránd þar til hún var valin inn í Sænsku Akademíuna fyrir nokkrum árum. Ég keypti óvart ljóðasafn eftir hana á bílskúrssölu í blokkagettói í Uppsölum árið 1996 og heillaðist gjörsamlega. Hins vegar finnst mér flest skáldin sem núna eiga upp á pallborðið hjá þeim sem tilnefna skáld til fínna verðlauna á borð við Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voða lítið spennandi. Þær sænsku ljóðabækur sem hafa verið tilnefndar undanfarin ár höfða ekkert til mín. Ég rekst samt stundum á eitthvað nýtt eftir ung sænsk skáld sem mér finnst skemmtilegt.
Það sem mér finnst gott við íslensku ljóðasenuna er hvað hún er eitthvað hressileg og frjósöm og margir á sviðinu. Það kemur ótrúlega mikið út af fínum ljóðabókum á Íslandi og það er hægt að fara á fullt af ljóðakvöldum á veturna þar sem allskonar skáld lesa fjölbreytta texta og oft eru troðfullir salir, ekki síst af ungu fólki, að hlusta. En já, ég veit of lítið um hvað er í gangi í Svíþjóð núna svo ég get ekki borið þetta saman, en í haust er mér boðið að lesa ljóð á ljóðasenunni á bókamessunni í Gautaborg og þar mun ég kynna mér allt um þessi mál um leið og ég kynni ljóðin mín fyrir útlendingum!
Fyrir hönd lesenda lýsi ég því yfir að við hlökkum til að njóta ávaxtanna af bókamessuheimsókn Þórdísar í haust. Hér birtist að lokum ljóðið sem Þórdís vísaði til í viðtalinu, skyndimynd nr. XV.
Ef fólk vissi af því þá þætti því kannski furðulegt að ég er alltaf með pakkaða tösku undir rúmi. Það er gömul íþróttataska sem ég ætla að grípa með mér ef ég þarf skyndilega að flýja. Ég veit auðvitað ekki nákvæmlega hvers vegna ég gæti þurft að flýja, en ég held til dæmis að allt Ísland sé á virku eldgosasvæði. Svo er líka hugsanlegt að það komi stríð eða flóðbylgja af völdum loftsteins. Í töskunni eru nærföt og bolur, tannbursti og tannkrem, handklæði, ullarsokkar, vasaljós, hafrakexpakki og einnota rakvél. Einu sinni var líka peli af rommi í töskunni, en hann er þar ekki lengur. Við hliðina á töskunni er kaðalstigi sem ég ætla að nota til að klifra niður af svölunum ef upp kemur eldur í húsinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli