25. nóvember 2016

Að veigra sér ekki við að vera viðkvæmur og opinskár: Viðtal við Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur

veröldin hverfur
bak við snjóþekju
á gluggum

hverfa bílar
hverfa strætóskýli

í takt við vindinn
dansa blýantar
á hvítum pappír

hverfa götur
hverfur fólk

eftir örskamma stund
boða ljóðin brottför
upp til skýjanna

Í byrjun október komu út þrjár nýjar ljóðabækur í seríunni Meðgönguljóð undir merkjum forlagsins Partusar, sem er að verða einn afkastamesti ljóðaútgefandi landsins. Ein af þessum bókum er Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur sem hefst á ljóðinu hér í upphafi: För. Druslubækur og doðrantar tóku þetta nýbakaða ljóðskáld rafrænu tali á dögunum.

Sæl Jóna Kristjana og til hamingju með nýju bókina! Skýjafar er þín fyrsta ljóðabók hefurðu verið að skrifa ljóð lengi? 

Sæl Kristín Svava, þakka þér kærlega fyrir og takk fyrir að taka mig í viðtal. Ég held ég hafi fengið virkilegan áhuga á ljóðaskrifum þegar ég var unglingur, svona ellefu, tólf ára, en ég hef skrifað allskyns texta síðan ég var stelpa. Þegar ég var fimm eða sex ára fengum við tölvu á heimilið og ég varð alveg heilluð af Microsoft Word. Eftir það þurftu foreldrar mínir lítið að hafa fyrir mér, held ég.

Skrifarðu líka annars konar texta? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín? 

Ég er í BA-námi í íslensku HÍ með ritlist sem aukagrein og námið mitt snýst því mikið um að skrifa. Þar fæ ég tækifæri til að skrifa smásögur, örsögur, ljóð og jafnvel leiktexta, en líka ritgerðir og annan hagnýtan texta og mér finnst það ekki síður skemmtilegt. Ég hef prófað að skrifa smásögur og byrjaði á mörgum skáldsögum þegar ég var yngri en kláraði þær aldrei. Mér finnst ég hafa meira frelsi þegar ég skrifa ljóð, þar er ekki gerð krafa um söguframvindu eða lógik. Ég hef alltaf verið afspyrnu léleg í því að fylgja þræði og heillast t.d. meira af myndvísi og góðri persónusköpun í skáldsögum en hasarspennandi söguþræði. Eitt ljóð getur verið heimur út af fyrir sig. Þess vegna heilla ljóðin mig.

Ljóðin þín innihalda mörg hver lýsingar úr hversdagslífinu, þau snúast oft um samskipti, mannlega nánd og mannlega fjarlægð, en svo fléttast saman við fallegar myndir skáldskapar og náttúru. Eru þetta þemu sem eru þér hugleikin? 

Já, ætli það ekki. Ljóðin eru mín leið til að tjá tilfinningar og skrásetja minningar. Yfirleitt hafa ljóðin mín að gera með einhverja ákveðna stemningu sem ég finn hjá mér þörf til að festa á blað og stemning felur í sér meira en tilfinningu, hún byggir á andrúmslofti, stundum veðri, landslagi og straumum milli fólks. Þess vegna fléttast náttúran saman við fólk í ljóðunum. Ég lít á náttúruna sem lifandi fyrirbæri og hún er vinur minn, alveg eins og fólkið.

Náttúrumyndirnar í ljóðunum minntu mig stundum á atómskáldin, svo sá ég að þú minntist Ingibjargar Haraldsdóttur með fallegum orðum á facebook þegar hún lést nýlega og það er líka hægt að sjá ákveðinn skyldleika í ljóðum þínum og hennar; ljóðin þín eru frekar fíngerð, stíllinn yfirvegaður og nákvæmur. Hefur Ingibjörg haft mikil áhrif á þig? Lestu mikið af ljóðum, íslenskum eða erlendum? 

Já, Ingibjörg hafði mikil áhrif á mig. Ég kann að meta hvað stíllinn hennar er knappur en um leið sposkur og beittur. Henni tekst líka að yrkja um tilfinningar án þess að vera væmin. Að veigra sér ekki við að vera viðkvæmur og opinskár, það þykir mér bera vott um styrkleika. Mér finnst líka sterkt að geta sagt mikið í fáum orðum, eins og Ingibjörgu tekst svo vel. Stundum fæ ég ljóðlínur á heilann í marga daga og ég hef oft fengið heilu ljóðin eftir hana á heilann. Önnur skáld í uppáhaldi hjá mér eru t.d. Nína Björk Árnadóttir, Dagur Sigurðarson, Sigurður Pálsson, Vilborg Dagbjartsdóttir, Gyrðir Elíasson og Steinunn Sigurðardóttir. Og svo Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson og Theodóra Thoroddsen. Þau hafa öll haft áhrif á mig. Ég les því frekar mikið af ljóðum en skáldsögur geta líka alveg eins veitt mér innblástur.

Þú ert nemandi í ritlist við Háskóla Íslands, eins og fram hefur komið ertu langt komin með það nám? Hvernig er þín upplifun af því, hvernig hefur það haft áhrif á þig og skáldskap þinn? 

Ég er að taka ritlist sem aukagrein í BA-náminu mínu og stefni á að klára það í vor. Þá langar mig að sækja um framhaldsnám í ritlist. Ritlistarnámið hefur hingað til verið mjög gefandi og skemmtilegt. Ég tók ljóðasmiðju hjá Aðalsteini Ásberg sem var frábær, hann setti okkur fyrir ákveðin verkefni og það kom mér á óvart hversu mikið ég gat skrifað þegar ég var knúin til þess! Í ritlistarsmiðjum eignast maður ritvini, en ritvinir skiptast á verkefnum og gefa hver öðrum athugasemdir og gagnrýni. Það er mjög mikill lærdómur fólginn í að ræða skáldskapinn sinn við aðra og ég held ég hafi haft sérstaklega gott af því, ég var mjög innhverft skáld en er núna farin að opna mig meira um ljóðin mín. Eftir jól ætla ég í smiðju þar sem við munum læra að skrifa smásögur, ég er mjög spennt fyrir því.

Það er kannski ákveðið ritlistarnám falið í ritstjórnarferlinu hjá Meðgönguljóðum líka. Hvernig var að vinna með ritstjóranum þínum, Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, og hvernig þróaðist handritið að bókinni í því ferli? 

Það er rétt, ég lærði mikið af Bjarneyju. Mér fannst ljóðin mín eins eiginlega eins og máttvana sjúklingar á skurðarborði fyrst og átti erfitt með að krukka í þau með annarri manneskju, en svo áttaði ég mig á því að ljóð græða nánast alltaf á úrvinnslu og yfirlestri. Ég lagði upp með nokkur ljóð í byrjun, sem Bjarney gerði svo athugasemdir við. Stundum þurfti að gera ljóðmyndirnar skýrari eða gæða ljóðið meiri rýmisskynjun, stundum þurfti að laga orðalag eða málfar. Þannig lærði ég að horfa á ljóðin mín með augum lesandans. Svo bættust við nokkur ný ljóð meðan á ferlinu stóð, sum smellpössuðu inn í handritið en önnur ekki og ég geymi þau þar til síðar.

Heldurðu svo áfram að skrifa? Hvað langar þig að gera næst? 

Ég mun ábyggilega halda áfram að skrifa ljóð. Ég er búin að vera að prófa mig áfram með svolítið prósakenndari stíl, ljóðin í Skýjafari voru fremur knöpp og meitluð. Mig langar að skrifa lengri ljóð og texta og vonandi verður til önnur bók einhvern daginn.

Við tökum undir það með Jónu Kristjönu og birtum að lokum annað ljóð úr bókinni, ljóðið Brestir.

í nótt fjúka orðin
inn í vitund mína

líkt og snjókorn
inn um opinn glugga

innlyksa
hugsa ég um
botnfrosin vötn

hlusta á
bresti þeirra

horfi á deyjandi ljós
í bylnum

Engin ummæli: