22. nóvember 2016

Sprækir bangsafeðgar gleðja fullorðna og börn!

Þriðja kvöldið í röð er ég beðin um að lesa “skemmtilegu bókina um bangsana” og það er auðsótt mál því þótt ég verði mögulega orðin örlítið leið á bókinni eftir þrjátíu skipti í viðbót er enn nóg að skoða og margt nýtt til að taka eftir við hvern lestur.

Nú fyrir jólin gefur hið glænýja bókaforlag Angustúra út stórskemmtilega barnabók eftir hinn franska Benjamin Chaud. Bókin ber nafnið Bangsi litli í sumarsól og það er Guðrún Vilmundardóttir (sem einnig var að stofna nýtt bókaforlag – Benedikt, allt að gerast í bókaforlaga bransanum) sem þýðir yfir á hið ástkæra ylhýra. Chaud þessi er margverðlaunaður barnabókahöfundur og hefur gert nokkrar bækur um spræku bangsa-feðganna sem eru aðalsöguhetjurnar í Bangsa litla í sumarsól. Sú fyrsta þeirra, Une chanson d'ours (sem mætti þýða sem Söngur bjarnarins) spratt upp úr óperuplakati sem Chaud var fenginn til að teikna og hefur hún notið gríðarlegra vinsælda og verið þýdd á yfir 20 tungumál. Í skemmtilegu viðtali sem lesa má hér segist höfundurinn teikna margar litlar myndir, litlar sögur og raða þeim svo saman í eins og púsluspili. Það liggur því í augum uppi að vinnan við hverja mynd hlýtur að vera gríðarleg og sjálfur segir höfundurinn: „[…] sometimes I ask myself, “What possessed me to make a book with so many people and details?”… and then I draw someone I know, doing something silly in the corner of a page, and I end up laughing to myself over my work.“Í sama viðtali segist Chaud gjarnan notast við fyrirmyndir úr raunveruleikanum, fólk sem hann þekki eða frægt fólk - það hjálpi honum við að gera manneskjurnar ólíkar því hugarflugið væri skjótt á þrotum ef hann hyggðist skálda allan þennan mannfjölda upp. Eftir að hafa lesið þetta skoðaði ég bókina gaumgæfilega í von um að rekast á Charles de Gaulle eða Brigitte Bardot en án árangurs…mögulega þarf ég að færa mig eins og hálfa öld fram í tímann.

Sagan, sem ætluð er yngstu lesendunum, er ekki flókin. Það er snjór yfir París (Effelturninn ber við sjóndeildarhringinn) og Bangsapabbi og Bangsi litli eru að leita að góðum stað til að leggjast í hýði yfir veturinn. Þeir finna opinn glugga og þar fyrir innan fyrirtaks skjól þar sem hundruðir annarra bangsa liggja nú þegar og sofa. Þegar dagar dagar (á næstu síðu) kemur í ljós að þeir hafa sofnað í leikfangabúð og bangsarnir eru tuskudýr. En meðan Bangsapabbi sefur vært kemur fjölskylda og kaupir Bangsa litla. Fjölskyldan er komin langleiðina út úr búðinni þegar Bangsapabbi rumskar og upphefst nú mikill eltingarleikur yfir láð og lög sem endar svo í eldfjörugum Kongadansi á Hawaii.

hin skemmtilega fyrsta opna
Chaud er líka liðugur!
Sagan er sem sagt einföld, texinn ekki mikill en þó skemmtilegur – en það sem gerir þessa bók svo dásamlega að móðir og sonur eru bæði jafnspennt fyrir að lesa hana þriðja kvöldið í röð – eru teikningarnar. Brotið á bókinni er óvenjustórt – sem truflaði íhaldssama bókasafnarann sem ég vissulega er; hillupláss af skornum skammti og þessi fer hálf illa í hillu. En um leið og fyrsta opnan blasti við skyldi ég mikilvægi þess að hafa brotið stórt. Hvílíkan urmul af smáatriðum sem hver blaðsíða rúmar! Hvílíkur heimur fullur af manneskjum, dýrum, árstíðum, farartækjum, höfum, löndum og lífi. Það er svo verðugt verkefni fyrir hvert barn að hafa upp á böngsunum tveimur á hverri síðu – og rekja slóð þeirra yfir opnuna - gegnum söguna. Fyrsta opnan sýnir snævi þakin þök Parísarborgar þar sem fylgja má sporum feðganna upp og niður þök, inn og út um glugga, sjá hvar þeir hafa stokkið og myndað stórt far í skaflana – hvar leiðir hefur skilið þegar sporin fara tvist og bast og hvar bara eitt sett af sporum er sjáanlegt!!! Hvar var Bangsi litli þá?? Eftir mikla yfirlegu komumst við mæðgin að þeirri niðurstöðu að þarna hefði Bangsapabbi einfaldlega haldið á Bangsa litla!

opna úr „söngur bjarnarins“
Ekki spilla heldur fyrir lestrinum lítil smáatriði sem sérstaklega gleðja fullorðna lesendur; á skemmtiferðaskipinu má t.d. sjá fólk í bíósal að horfa á kvikmyndina Titanic. En það er svo sannarlega af nógu að taka til að gleðja yngri lesendur líka – hér á heimilinu er meðal annars endlaust hægt að hlæja að því þegar Bangsapabbi er næstum búin að endurheimta Bangsa litla en er þá óvænt kominn inn á grímudansleik og er sjanghæjaður í dans áður en hann fær rönd við reist. Enda halda jú allir að hann sé bara í svona vönduðum og smart búning. Það kemur svo í ljós að Bangsapabbi – sem hefur aldrei dansað áður – er svona líka lunkinn í Kongadansi og skemmtir sér þegar upp er staðið stórvel. Tungutakið er fallegt og litríkt, stundum í flóknari kantinum en það gefur þá gott tilefni til að staldra við og útskýra – og þar sem textinn er ekki í stórum blokkum verður það aldrei þreytandi eða yfirþyrmandi heldur bætir við allar spurningarnar og spjallið sem sagan og myndirnar kalla fram.
Þetta er ekki löng bók – og textinn eins og áður sagði ekki mikill – en það má hæglega eyða kvöldstund bara við að skoða fyrstu opnuna –og það svona ljómandi skemmtilegri kvöldstund! Mikið sem ég vona að þessu nýja forlagi farnist vel – ef aðeins til að gefa út fleiri bækur eftir þennan dásamlega höfund!

Engin ummæli: