Nú fyrir jólin gefur hið glænýja bókaforlag Angustúra út stórskemmtilega barnabók eftir hinn franska Benjamin Chaud. Bókin ber nafnið Bangsi litli í sumarsól og það er Guðrún Vilmundardóttir (sem einnig var að stofna nýtt bókaforlag – Benedikt, allt að gerast í bókaforlaga bransanum) sem þýðir yfir á hið ástkæra ylhýra. Chaud þessi er margverðlaunaður barnabókahöfundur og hefur gert nokkrar bækur um spræku bangsa-feðganna sem eru aðalsöguhetjurnar í Bangsa litla í sumarsól. Sú fyrsta þeirra, Une chanson d'ours (sem mætti þýða sem Söngur bjarnarins) spratt upp úr óperuplakati sem Chaud var fenginn til að teikna og hefur hún notið gríðarlegra vinsælda og verið þýdd á yfir 20 tungumál. Í skemmtilegu viðtali sem lesa má hér segist höfundurinn teikna margar litlar myndir, litlar sögur og raða þeim svo saman í eins og púsluspili. Það liggur því í augum uppi að vinnan við hverja mynd hlýtur að vera gríðarleg og sjálfur segir höfundurinn: „[…] sometimes I ask myself, “What possessed me to make a book with so many people and details?”… and then I draw someone I know, doing something silly in the corner of a page, and I end up laughing to myself over my work.“
Í sama viðtali segist Chaud gjarnan notast við fyrirmyndir úr raunveruleikanum, fólk sem hann þekki eða frægt fólk - það hjálpi honum við að gera manneskjurnar ólíkar því hugarflugið væri skjótt á þrotum ef hann hyggðist skálda allan þennan mannfjölda upp. Eftir að hafa lesið þetta skoðaði ég bókina gaumgæfilega í von um að rekast á Charles de Gaulle eða Brigitte Bardot en án árangurs…mögulega þarf ég að færa mig eins og hálfa öld fram í tímann.
Sagan, sem ætluð er yngstu lesendunum, er ekki flókin. Það er snjór yfir París (Effelturninn ber við sjóndeildarhringinn) og Bangsapabbi og Bangsi litli eru að leita að góðum stað til að leggjast í hýði yfir veturinn. Þeir finna opinn glugga og þar fyrir innan fyrirtaks skjól þar sem hundruðir annarra bangsa liggja nú þegar og sofa. Þegar dagar dagar (á næstu síðu) kemur í ljós að þeir hafa sofnað í leikfangabúð og bangsarnir eru tuskudýr. En meðan Bangsapabbi sefur vært kemur fjölskylda og kaupir Bangsa litla. Fjölskyldan er komin langleiðina út úr búðinni þegar Bangsapabbi rumskar og upphefst nú mikill eltingarleikur yfir láð og lög sem endar svo í eldfjörugum Kongadansi á Hawaii.
hin skemmtilega fyrsta opna |
Chaud er líka liðugur! |
opna úr „söngur bjarnarins“ |
Þetta er ekki löng bók – og textinn eins og áður sagði ekki mikill – en það má hæglega eyða kvöldstund bara við að skoða fyrstu opnuna –og það svona ljómandi skemmtilegri kvöldstund! Mikið sem ég vona að þessu nýja forlagi farnist vel – ef aðeins til að gefa út fleiri bækur eftir þennan dásamlega höfund!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli