Bókadruslan sem hér pikkar á
lyklaborð varði febrúarmánuði síðastliðnum í Sysmä, um 4 þúsund manna bæ tæpa
200 kílómetra norður af Helsinki. Þar var:
- mikið af snjó
- enn meira af trjám
- mýgrútur af sumarbústöðum niðri
við
- mjög stórt stöðuvatn
- tveir veitingastaðir (sem voru
lokaðir á kvöldin (þó að sennilega gegni öðru máli um sumarkvöld))
- einn bar (sem er samt eiginlega
rútubiðstöð sem selur kaffi og meððí og áfengi, og var heldur ekki opinn á
kvöldin)
- eitt hótel
- engir sjáanlegir ferðamenn
- reisulegt timburhús að nafni Villa
Sarkia, byggt við upphaf síðustu aldar sem íbúðarhús bankastjóra bæjarins en
þjónar nú hlutverki residensíu fyrir þýðendur og rithöfunda og þar sem ég hafði
sem sagt fengið að dvelja um mánaðartíma
- huggulegt bókasafn
- sundlaug
- og notaleg bókabúð, þar sem var
nokkuð gott úrval og útsala allan febrúar (úps).
Villa Sarkia og snjókerla. |
Ég vonaðist sem sagt til þess að fá
meira að heyra um Ástu Sigurbrandsdóttur og hennar sögu þarna í Sysmä, og sjá: þegar
ég hafði dvalið í Villa Sarkia í tæpa viku var póstkorti stungið inn um
bréfalúguna.
Á kortinu var símanúmer og kveðja frá Vappu, tengdadóttur Ástu, en hún hafði frétt það á bókasafninu að Íslendingur væri á staðnum. Svo fór að ég heimsótti Vappu og manninn hennar, son Ástu, og líka sonarsoninn og hans fjölskyldu. Afkomendurnir heita flest ef ekki öll Ásta eða Sigurbrandur að millinafni og öll fjölskyldan einkar viðkunnanleg og gestrisin, tók mér eiginlega eins og fjarskyldum ættingja (sem ég er svo sem, þannig séð). Við spjölluðum lengi um Ísland og Finnland, Reykjavík og Sysmä, og auðvitað um Ástu Sigurbrandsdóttur Peltola – og þau lánuðu mér líka fyrrnefnda ævisögu um Ástu, Hin hljóðu tár. Bókin, sem var skrásett af Sigurbjörgu Árnadóttur, kom út hjá Vöku-Helgafelli árið 1995 og vakti töluverða athygli á sínum tíma, bæði á Íslandi og í Finnlandi, og fleiri en einn finnskur útgefandi er mér sagt að hafi falast eftir útgáfuréttinum en Ásta mælti víst svo fyrir að ekki mætti þýða bókina á finnsku meðan hún lifði. Og þarna í febrúar 2016, þegar 21 ár var liðið frá útkomu bókarinnar og 16 ár frá andláti Ástu, hafði það enn ekki verið gert – en afkomendurnir eins og gefur að skilja orðin afskaplega forvitin um innihaldið, enda skilja þau litla sem enga íslensku og geta því ekki lesið frumtextann.
Hernám í Danmörku, brúðkaup í Finnlandi
„Ekki hafði ég gert mér í hugarlund að hús gætu verið svona ógnarstór og mörg. Turnarnir á Kristjánsborgarhöll virðast óendanlegir þar sem þeir teygja sig upp í himinblámann. Trén standa eins og risar í húsagörðum og meðfram götum og torgum. Í hlýju síðsumarloftinu er framandi angan. Alls staðar iðar mannlífið og umferðin er eins og stórfljót.“ (45)
Saga Ástu – eða fyrri hluti hennar,
að minnsta kosti – minnir um margt á sögu stjúpömmu minnar heitinnar, Jóhönnu
Kristófersdóttur. Ég vildi að ég hefði lesið Hin hljóðu tár meðan hún
var enn á lífi, svo ég hefði getað rætt þetta tímabil við hana – en í það
minnsta er sennilegt að þær Ásta hafi vitað hvor af annarri. Báðar héldu til
Kaupmannahafnar í hjúkrunarnám um tvítugt, rétt fyrir seinni heimsstyrjöld, og
báðar stöldruðu lengur við en ef til vill var ætlunin, þar eð samgöngur frá
Danmörku til Íslands lögðust af meðan á stríðinu stóð. Þær virðast líka hafa
átt það sameiginlegt að sjá spaugilegu hliðar tilverunnar, standa fast á sínu
og fara eigin leiðir. Að stríðinu loknu flutti amma Jó hinsvegar heim til
Íslands, en það átti ekki fyrir Ástu að liggja. Þegar stríðinu lauk var hún við
störf í Þýskalandi, komst þaðan aftur til Danmerkur eftir miklar hremmingar,
hitti þar finnskan mann og flutti með honum til Finnlands.
„Ásta
mín, ertu nú viss um að þú munir þetta rétt?“
Áður en Ásta og unnustinn héldu til Finnlands
eftir stríðið komu þau í stutta heimsókn til Íslands. Árið 1938, þegar Ásta hélt
fyrst út í hinn stóra heim, hafði Kaupmannahöfn virst framandi og nýstárleg, en
nú var það Reykjavík sem kom á óvart. Þar hafði ýmislegt breyst á stríðsárunum
og margt til hins betra, og fæstir trúðu Ástu þegar hún reyndi að segja frá
þeirri ásýnd stríðsins sem hún hafði séð í Danmörku og Þýskalandi – héldu að
hún væri að skálda eða í besta falli ýkja.
Almennt má segja að ýmislegt sé líkt með Íslendingum og Finnum, en einn augljós munur er þó að stríð (svo sem borgarastríðið 1918, auk fyrri og seinni heimsstyrjalda) hafa sett skýrt mark á þjóðarsál Finna, á meðan Íslendingar hafa – eins og Ásta bendir á í upphafi bókarinnar – verið „svo blessunarlega lausir við að þekkja þjáningar styrjalda“. Hún leiðir enda líkur að því að þetta blessaða þekkingarleysi hafi orsakað þann vanskilning sem hún mætti þegar hún reyndi að ræða reynslu sína við ættingja og vini. „Þess vegna lokaði ég sársaukann inni og fór. Hef aldrei komið síðan nema sem gestur þó að ég hafi hvergi annars staðar viljað vera og sé samofin þessari þjóð og landinu sem ól mig.“ Ásta heimsótti Ísland reglulega meðan hún lifði, en í Finnlandi bjó hún frá 1946 til dauðadags árið 2000.*
Það er ekki ljótt þarna í Sysmä. |
Hin hljóðu tár er mögnuð og vel skrifuð saga af merkilegri konu. Hernámið og stríðsógnin, ástvinamissir, aðlögun að nýju landi með framandi tungumáli og misjafnlega vinsamlegu fólki – í gegnum allt þetta hélt Ásta lífsgleðinni og skopskyninu og það er bæði auðvelt og gott að hlæja og gráta með henni við lesturinn. Sem fyrrum Finnlandsbúi tengdi ég líka við margar af lýsingum hennar á finnsku samfélagi.
Þegar Ásta lést var ég bara nýskriðin inn í menntaskóla og til Finnlands kom ég fyrst nokkrum árum síðar – annars hefði ég kannski hitt hana þar við eitthvert tækifæri, enda var hún virk í Íslendingafélagi Finnlands og svo gott sem óopinber sendiherra okkar þarna í Sysmä – en ég er að minnsta kosti þakklát fyrir að hafa þó kynnst henni dálítið gegnum bókina og fólkið hennar. Og nú skilst mér að þýðing bókarinnar yfir á finnsku sé komin á rekspöl, sem er fagnaðarefni, enda er þetta saga sem á erindi sem víðast.
---------------
* Dánartilkynning um Ástu, auk þriggja minningargreina, er aðgengileg á vef Morgunblaðsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli