
Menn velta því auðvitað fyrir sér hvað geri einmitt þessar bækur svona vinsælar og ómótstæðilegar, við sem höfum lesið þær vitum að það er næstum ómögulegt að slíta sig frá þeim þegar maður er einu sinni byrjaður. Skýringar lesenda og þeirra sem allt þykjast skilja og vita eru auðvitað fjölbreyttar. Sögurnar finnst mörgum vera í meira lagi lunkin samtímalýsing og persónurnar eru um margt óvenjulegar og heillandi. Í bókunum er hefðbundnu kynjahlutverkunum til dæmis snúið á rönguna; Lisbeth Salander, aðalkvenhetjan, er húðflúraður tölvunörd og slagsmálahundur en karlhetjan, Mikael Blomkvist, er hins vegar tilfinningaríkur og mjúkur náungi. Svo eru bækurnar vel skrifaðar og úthugsaðar, nú og loks má nefna að einkamál og erfðamál höfundarins heitins hafa líka farið hátt og mikið verið um þau skrifað, en óþarfi er að segja frá því hérna.
Áður en hinn stórmerkilegi blaðamaður og baráttumaður Stieg Larsson lést úr hjartaáfalli árið 2004 hafði hann skrifað þrjár og hálfa bók í röð sem hann hafði hugsað sér tíu bóka seríu en ekkert var enn komið út. Við hann var tekið eitt einasta viðtal um bækurnar og þar sagði hann að hann hefði haft stórvinkonu okkar allra, Línu langsokk, sem fyrirmynd Lisbeth Salander. Hann hugsaði sér Línu orðna tuttugu og fimm ára, félagslega óhæfa og uppá kant við allt og alla en auðvitað algjöra ofurkonu. Ég persónulega sé samt Lisbeth meira fyrir mér sem fullorðna hliðstæðu Míu litlu í Múmínálfabókunum; hún er pínulítil og þvengmjó, oft öskureið, öllum óháð, reddar sér í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum og vílar ekki fyrir sér að kála andstæðingum sínum. En varðandi persónur Astridar Lindgren þá hljóta margir að hafa tekið eftir að Mikael Blomkvist er nafni persónu úr safni þeirrar góðu konu, þar er auðvitað átt við ráðagóða og vandaða leynilögreglumanninn Kalla Blómkvist, tvær bækur um hann komu út á íslensku á sjötta áratug síðustu aldar í þýðingu Skeggja Ásbjarnarsonar.
Nú er bara að vona að bíómyndinni um Salander og Blomkvist skoli hingað upp á sker hörmunganna sem allra fyrst.
Femínistinn Nina Björk skrifaði í fyrra grein í Dagens Nyheter um Lisbeth Salander. Hér er tengill á greinina. Ef einhverjir eru ofurspenntir yfir efninu en skilja ekki sænsku þá gæti ég alveg þýtt hana eða skrifað útdrátt – en það geri ég aðeins vegna fjölda áskoranna.