5. október 2009

Ian Rankin: The Complaints

Það er ósanngjarnt að dæma bækur út frá því sem þær eru ekki. Klassískur ósiður en ósanngjarn. Stundum langar mann bara svo óskaplega til þess. Og svo ég komi mér strax að kvörtunarefninu: The Complaints, nýja skáldsagan eftir Ian Rankin hefur þann stóra galla að fjalla hvorki um Rebus né Siobhan.

Grunnupplýsingar fyrir þá sem ekki þekkja til: Í bókaflokknum um Rebus, rannsóknarlögreglumann í Edinborg, eru sautján skáldsögur auk þess sem hann birtist í einni nóvellu og nokkrum smásögum. Þegar líður á bókaflokkinn fær Siobhan, samstarfskona Rebusar, aukið vægi og í síðustu sögnunum er álíka mikið fjallað um hana og Rebus sjálfan. Skáldsögurnar gerast í rauntíma þannig að Rebus eldist með hverri bók og þar sem skoskum lögreglumönnum er skylt að láta af störfum þegar þeir verða sextugir var óhjákvæmilegt að Rebus færi á eftirlaun í hitteðfyrra. Staðreyndin hafði valdið mörgum kvíða og einn af fjölmörgum aðdáendum hafði meira að segja borið upp fyrirspurn í skoska þinginu um hvort ekki væri hægt að hækka eftirlaunaaldurinn svo að Rebus gæti haldið áfram störfum!

Ef einhverjir þekkja Rebus bara af sjónvarpsmyndunum sem hafa verið sýndar síðustu ár, þar sem Ken Stott leikur aðalhlutverkið, er rétt að nefna að þær eru beinlínis hræðilegar og gjörólíkar bókunum. Stundum efast ég um að nokkur sem vinnur við gerð þeirra hafi lesið bækurnar, þar með talinn handritshöfundurinn. Slökkvið endilega á sjónvarpinu ef þær verða oftar á dagskrá og takið ykkur frekar bækurnar í hönd.

Auðvitað er skiljanlegt að Ian Rankin hafi viljað nota tækifærið þegar Rebus þurfti að fara á eftirlaun til að komast upp úr hjólförunum og skrifa eitthvað allt annað, jafnvel þótt hann hafi verið búinn að byggja Siobhan svo vel upp sem persónu að borðleggjandi hefði verið að halda bókaflokknum áfram með hana sem aðalpersónu. Rankin er greinilega að nota nýfengið frelsi til að leika sér, sem er hið besta mál: hann skrifaði textann í teiknimyndasögu sem er nýkomin út, hann hefur skrifað líbrettó fyrir stutta óperu, og í fyrra kom út skáldsagan Doors Open sem er af nokkuð öðrum toga en Rebus-bækurnar þótt hún falli einnig í flokk glæpasagna. Þar er fjallað um listaverkarán og sagan er sögð frá sjónarhóli eins af þátttakendunum í ráninu. Bókin var alveg ágætlega heppnuð en samt biðu ófáir lesendur áreiðanlega eftir því mestalla bókina að Rebus birtist. (Ef ég man rétt sást hann reyndar í mýflugumynd en þá hófst bara ný bið eftir að hann birtist aftur.)

Tilfinningin um að Rebus eða Siobhan hljóti ávallt að vera rétt handan við hornið er ennþá áleitnari í nýju bókinni, The Complaints. Þar víkur sögunni aftur inn í lögregluliðið og þótt aðalpersónan, Malcolm Fox, sé yngri en Rebus, í betri tengslum við ættingja sína, hafi önnur áhugamál og ástundi heilbrigðari lifnaðarhætti, þá er þetta einnig samtímaskáldsaga um lögreglumann í Edinborg. Já og þótt Malcolm Fox sé þurr alki en Rebus hafi ekki hætt að drekka, þá er ítrekað gert að umtalsefni að það sé enginn leikur fyrir Fox að halda sig frá flöskunni þannig að óhætt er að segja að báðir eigi í vandræðum með áfengi. Þegar við bætist sívaxandi tilhneiging Fox til að fara á svig við reglurnar er samanburðurinn orðinn illhjákvæmilegur. Líkindin eru nógu mikil til að fjarvera Rebusar verður æpandi.

En það er nú sennilega sanngjarnt að víkja aðeins frá samanburðinum við Rebus og skrifa svolítið um bókina sjálfa.

Aðalpersónan í The Complaints heitir Malcolm Fox og hann starfar í innra eftirliti lögreglunnar, gætir þeirra sem eiga að gæta laga og réttar. Í byrjun bókarinnar er Fox beðinn að taka til athugunar löggu að nafni Jamie Breck og hann er rétt byrjaður að skoða málið þegar tilviljunin hagar því svo til að hann kynnist Breck persónulega. Kærasti systur Fox er nefnilega drepinn og Breck er meðal þeirra sem rannsaka morðið. Þeir verða brátt mestu mátar og Fox fyllist fljótt efasemdum um að tilefni sé til eftirlitsins. Þegar Fox lendir sjálfur undir eftirliti flækjast málin svo enn frekar og þráðunum milli persónanna sem koma við sögu fjölgar. Þótt Fox og Breck sé vikið frá störfum halda þeir áfram að rannsaka málin og smám saman fer Fox, maðurinn átti að gæta þess að öllum reglum væri fylgt, á svig við sífellt fleiri reglur.

Valdið til að greina rétt frá röngu, ástæður sem liggja að baki rannsókn mála og aðferðunum sem beitt er, auk spurningarinnar um hvort tilgangurinn helgi meðalið eru meðal umfjöllunarefnanna undir yfirborði bókarinnar. Þetta er allt gott og gilt. Samfélagslýsingin á líka ágætis spretti, í bakgrunni eru byggingasvæði með hálfbyggðum húsum þar sem framkvæmdir hafa stöðvast; það er víðar en á Íslandi sem framkvæmdagleðin varð skynseminni yfirsterkari. Sagan er því ekkert óáhugaverð en hún er ekki heldur sérlega spennandi og samsærisplottið reynist frekar langsótt.

Bókin er líka of litlaus til að umfjöllunin nái einhverri dýpt, til dæmis er textinn dauflegri en í bókunum um Rebus – svo þeim ósanngjarna samanburði sé haldið áfram. Í Rebus-bókunum leynir textinn á sér. Hann er einfaldur á yfirborðinu og virðist renna áreynslulaust - en það er hægara sagt en gert að skrifa svoleiðis. Rankin sýnir t.d. næma tilfinningu fyrir rythma sem er mikilvægur liður í því hvað andrúmsloftið í bókunum er sterkt. Textinn í The Complaints er alveg skikkanlegur en það neistar ekkert af honum.

Persónusköpunin er líka ófullnægjandi. Fox er ekki nógu spennandi persóna til að mig langi sérstaklega að lesa fleiri bækur um hann. Til að einhverrar sanngirni sé gætt í samanburðinum við Rebus er þó rétt að taka fram að því fór fjarri að Rebus stykki fullskapaður fram í fyrstu bók. Einn af stærstu kostum þess bókaflokks – og hluti af því sem gerði hann óvenjulegan – var einmitt hvernig hann batnaði eftir því sem á leið, andrúmsloftið varð magnaðra, persónurnar sífellt margbrotnari. Kannski getur Rankin þróað Fox og hinar persónurnar í The Complaints áfram á áhugaverðan hátt. En hann er ekki lengur nýr höfundur, kröfurnar hafa aukist og það er erfitt að sýna því þolinmæði að ný persóna þokist varla frá byrjunarreitnum.

The Complaints er þokkaleg bók en ekki meira. Ef Ian Rankin vill sætta aðdáendur sína við líf án Rebusar og Siobhan verður hann að gera betur og það fyrr en síðar.

2 ummæli:

Svanhildur Hólm Valsdóttir sagði...

Kannski ég fái samt þessa bók lánaða hjá þér...

Erna Erlingsdóttir sagði...

Já, það er meira en sjálfsagt, er samt búin að lofa að lána hana annað fyrst. Þú ert númer ... tvö ... í röðinni ...