Mikið er ég ánægð með að fá íslenska glæpasögu þar sem mengi grunaðra er skýrt afmarkað frá byrjun. Hérlendis hefur verið skortur á tilbrigðum við þetta klassíska stef, það hefur meira að segja verið leiðindaósiður hjá sumum höfundum að kynna morðingjann seint til sögunnar eða draga upp úr hatti sínum veigalitla aukapersónu þegar leysa þarf málið. Viktor Arnar Ingólfsson gerir sig ekki sekan um vanrækslu á þessum mikilvæga hluta sérhverrar glæpasögu í Sólstjökum og það er fagnaðarefni. Hann vinnur líka vel með aðra þætti sem gjarnan fylgja aðferðinni þar sem ýmis tengsl reynast vera milli hinna grunuðu og allir ljúga eða halda a.m.k. mikilvægum upplýsingum leyndum. Rætur atburðanna í Sólstjökum reynast liggja í fortíðinni. Snyrtilega er farið að því að miðla frásögnum af þeim smám saman eftir því sem lögreglan kemst á snoðir um málin og plottið flækist alveg mátulega eftir því sem á líður.
Lögreglumennirnir sem hér er sagt frá öðru sinni, hægláta snyrtimennið Birkir og hinn sísvangi Gunnar, komust strax í hóp áhugaverðustu karaktera í íslenskum glæpasögum þegar þeir voru kynntir til sögunnar í síðustu bók Viktors, Aftureldingu. Þeir standa alveg sæmilega fyrir sínu hér í Sólstjökum, ekki síst er auðvelt að skemmta sér yfir mörgum kostulegum senum með Gunnari, en þó er synd að engar nýjar hliðar á þeim félögunum skuli birtast í þessari bók. Ætli þeir hafi kannski verið kynntir fullítarlega í Aftureldingu, eftir á að hyggja? Vonandi fá þeir tækifæri til að þróast meira í framtíðinni.
Aðrar persónur í Sólstjökum eru margar skemmtilegar og dregnar skýrum dráttum, til dæmis pottþétti sendiráðunauturinn í Berlín og sífulli sendiherrann sem var áður stjórnmálamaður, að ógleymdri Maríu móður Gunnars sem þarf ekki nema rétt að bregða fyrir til að hún steli senunni. Hinir grunuðu eru litríkur hópur en fórnarlambið mesta varmenni. Eiginlega virðist rýtingsstungan í kviðinn makleg málagjöld.
Í síðustu tveimur bókum Viktors, Flateyjargátu og Aftureldingu, gengu þrautir gegnum alla söguna og þótt það hafi verið gaman, enda þrautirnar vel gerðar, var skynsamlegt að breyta til í Sólstjökum. Hér eru það persónurnar, fortíð þeirra og rannsókn málsins sem drífa söguna áfram en þó er vinkað aðeins til Aftureldingar með því að hafa eina litla þraut seint í sögunni sem er ágætis krydd.
Viktor er nákvæmur höfundur sem er bæði kostur og galli. Stundum keyrir smásmyglin úr hófi fram, t.d. liggur við að hægt væri að teikna sendiráðið í Berlín nákvæmlega upp eftir lýsingunum í bókinni sem varð svolítið þreytandi þegar á leið. Upplýsingar um fermetrafjölda voru dropinn sem fyllti mælinn og lýsingin á hlaupaæfingu Birkis var líka fullítarleg fyrir minn smekk. En þegar best lætur er nákvæmnin liður í að skapa lifandi andrúmsloft og það tekst oft ágætlega. Þótt engin senan standist samanburð við magnaðan gæsaveiðikaflann sem Afturelding hófst á gerir það ekki mikið til, enda er standardinn sem sá kafli setur líka ansi hár. Þegar við bætast áhugaverðar persónur þrátt fyrir allt, heilmikill húmor í frásögninni og vel fléttuð saga er niðurstaðan býsna jákvæð.
Erna Erlingsdóttir
4 ummæli:
Dropinn sem holar steininn, kornið sem fyllir mælinn. (Eftir fáeinar mínútur verður þessi villa leiðrétt og þá á enginn eftir að skilja þessa athugasemd.)
Flettu upp í Merg málsins. Bæði dropi og korn getur fyllt mælinn þótt kornið sé kannski upprunalegra.
Ég á ekki bókina svo ég tek þig bara trúanlega. (Erna er ekki kona sem gengur um ljúgandi.)
Frábært að sjá alla þessa bókadóma hjá ykkur. Hlakka til að fylgjast með áfram.
Skrifa ummæli