1. desember 2009

Ævisaga - skáldævisaga - endurminningar - sjálfsævisaga ...

[gallery]

Fyrir þessi jól koma að vanda út fjölmargar ævisögur og endurminningabækur af ýmsu tagi og má búast við að einhverjar þeirra nái umtalsverðum vinsældum. Ævisögur og endurminningabækur eru ekki auðskilgreinanleg bókmenntagrein og fræðimenn eru heldur betur ekki á einu máli um flokkun eða hugtakanotkun þegar um slík verk er rætt .

Stundum ritar aðalpersónan eigin endurminningar eða skrifar svokallaða sjálfsævisögu, stundum eru fengnir sagnfræðingar eða blaðamenn í lið með aðalpersónunni, þess eru fjölmörg dæmi að ævisögur séu ritaðar í óþökk aðalpersónunnar, sumar ævisögur fjalla um látið fólk en aðrar um fólk sem ekki hefur einu sinni náð miðjum aldri. Stundum minna umræddar bækur á löng viðtöl á borð við þau sem birtast gjarna í svonefndum glanstímaritum, sumar eru línuleg frásögn af ævi, aðrar eru minningar frá ákveðnum tíma á ævi aðalpersónunnar, einhverjar eru kaflar um eftirminnileg atvik og enn aðrar sverja sig meira í ætt við skáldsögur, nöfnum er jafnvel breytt og höfundar eiga það til að þræta fyrir að um ævisöguleg verk sé að ræða. Í sumum bókanna eru birtar myndir sem tengjast frásögninni og jafnvel sendibréf.

Í grein sem Gunnþórunn Guðmundsdóttir, bókmenntafræðingur, skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum veltir hún fyrir sér formi endurminningabóka og nefnir í því sambandi merkar bækur sem komu út á 8. áratug síðustu aldar. Árið 1975 kom fyrsta bókin í endurminningaflokki Halldórs Laxness, Í túninu heima út og fjórum árum síðar, 1979 kom út fyrsta bókin í miklum bókaflokki Sigurðar A. Magnússonar, Undir kalstjörnu. Gunnþórunn bendir á að þessi verk hafi velt upp ýmsum spurningum um formið, Halldór nefndi verk sín essay-rómana því bækurnar byggja á raunverulegum atburðum en framsetningin er skáldleg, en Sigurður A. kallaði sitt verk uppvaxtarsögu og til að hlífa ákveðnu fólki, breytti hann mörgum nöfnum í bókinni. Þessir höfundar voru greinilega að hliðra sér hjá því að nota orðið sjálfsævisaga. Slíkt er býsna algengt, skrifi maður verk undir formerkjum einhvers konar sjálfsævisögu vofir líklega yfir krafa um að rétt sé farið með og sannanlega satt sagt frá. Guðbergur Bergsson er kannski að reyna að snúa á skilgreiningarvandann þegar hann kallar sín nýlegu endurminningaverk; Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar, skáldævisögur, en maður getur auðvitað spurt sig að því hvað réttlæti hugtakið, eru kannski allar endurminningabækur og ævisögur einhverskonar skáldævisögur?

Aftan við bók Sigurðar Gylfa Magnússonar, Fortíðardraumar, sem kom út 2004 og fjallar um það sem hann kallar sjálfsbókmenntir á Íslandi, er listi yfir íslenskar ævisögur. Þar má sjá að á fyrri hluta síðustu aldar voru það að langstærstum hluta karlmenn sem voru aðalpersónur endurminningabóka og ævisagna. Þegar leið á öldina bættust sífellt fleiri konur í hópinn. Við höfum ekki gert neina alvöruúttekt á hlutföllum kynjanna í enduminningabókum undanfarna áratugi eða efnistökum með tilliti til kynjanna, en eftir lestur allmargra bóka úr þessum flokki er okkar persónulega og óvísindalega tilgáta sú að að þegar skoðaðar eru endurminningabækur liðinna áratuga séu karlmenn oftast opinskárri um einkalíf sitt og frekar tilbúnir að koma fram eins og þeir eru klæddir.

Við sem skrifum á þessa síðu ætlum okkur að fjalla á næstunni um nokkrar af þeim spennandi ævisögum sem eru nýkomnar út. Þetta kemur allt með kalda vatninu!

Þorgerður og Þórdís

Engin ummæli: